Ísbjörn í draumi

Þessi draumur barst frá: Dísa (Óskráður, IP-tala skráð), fös. 9. maí 2008

Kæri áhugamaður um drauma! Ég sé að ekkert hefur gerst á þessari síðu um tíma, en langar samt á láta einn stuttan draum flakka sem mig dreymdi í nótt, og get ekki hætt að hugsa um. Þetta var mjög skýr og sterkur draumur. Ég er stödd við eitthvað hestagerði með pabba mínum. Pabbi er inní gerðinu eitthvað að baksa með tvo hesta sem eru beislaðir og bundnir við gerðið innanfrá. Ég er fyrir utan gerðið en ætla að fara að labba innum hliðið þegar ég sé að pabbi horfir á eitthvað við hliðina á mér en segir ekki neitt. Það var eins og hann vildi ekki segja neitt til að hræða mig ekki. Ég lít til hliðar og sé þá að það er kominn ísbjörn alveg upp að mér, ekki mjög stór, svona eins og mjög ungur ísbjörn. En hann sýnir tennurnar og ég vissi að hann var að fara ráðast á mig. Pabbi gerði ekkert til að hjálpa mér og var bara inní gerðinu. En ég lendi í átökum við ísbjörninn og endar með því að ég drep hann. En það var ógeðslegt, ég kyrkti hann og það tók langan tíma. Ég vildi ekki drepa hann en vissi að ég varð að gera það því annars myndi hann drepa mig. Þetta móment þegar ég er að kyrkja hann situr svo í mér, það var svo óhugnanlegt og brútal, hálsinn hans var einhvern veginn mjúkur og það lak út úr honum eitthvað hvítt. Þetta var svo villimannslegt af minni hálfu. Langar mikið að vita hvað þetta geti þýtt, ef eitthvað. Með bestu kveðju, Dísa

Draumráðning:

Kæra Dísa og ágætu lesendur þessa draumabloggs. Ég hef því miður ekki komist yfir að ráða í alla drauma sem borist hafa í gestabókina að undanförnu. Þegar ég var að fara yfir nokkra af draumunum í kvöld kom ég að þessum draum um ísbjörninn.

Ég ætla að láta ykkur lesendum eftir að ráða hann, en í mínum huga er hér ljóst dæmi um berdreymi og þarf ekki annað en leiða hugann að þeim fréttum sem borist hafa síðan. Það er vissulega oft erfitt að skilja á milli slíkra drauma og drauma sem á hinn bóginn hafa einhvern ákveðinn boðskap að færa tengdum dreymandanum sjálfum. Ísbjörn sem slíkur getur líka verið sterkt draumtákn og táknar þá stóra viðburði eða nærveru háttsettra manna.

Við þig Dísa vil ég segja þetta. Taktu vel eftir draumunum þínum og skráðu þá niður svo þú getir lært á þá og lært að ráða í þá sjálf. Þetta segi ég því mér finnst svo margt benda til þess að um berdreymi sé að ræða og að því líklegt að þessi draumur þinn sé ekkert einsdæmi í þá veru. Gaman væri að heyra frá þér ef þú lest þetta.

Bestu kveður og aftur takk fyrir að skilja drauminn eftir hér :)


Veit ekki hvað ég á að kalla þennan draum

Þessi draumur barst frá: Guðrún Ing, þri. 10. júní 2008

Vinnufélagi minn (maður) einn gerði ekkert annað en að drepa fólk, gaf því lyf og deyfði það og sagaði það svo í sundur undir brjóstunum, hann náði mér, vinkonu minni og mömmu minni sem gíslum, lét okkur hverja og eina fá 100 stk parkódín til að mylja niður í jógúrt og borða það síðan. Ég var að mylja það niður í jógúrtið þegar hann þurfti að skreppa frá, og þá notuðum við tækifærið að forða okkur ég, mamma og vinkona mín, og fyrir utan húsið þar sem við fórum sem mér fannst vera heima hjá vinkonu minni þá var maður á pallbíl að leita að okkur rúntaði kringum húsið ( blokkina ). annar starfsmaður minn ( kona ) þekkti mann í sveit og vildi endilega kynna mig fyrir honum og fór með mig í sveitina en mig grunaði hver þetta væri og var skít hrædd, og eins og mig grunaði þá voru þau eitthvað að dilla saman og hann var í samvinnu við þann sem var að saga í sundur fólkið, það var einn strákur 7 ára með okkur , við öskruðum þegar konan stoppaði fyrir framan geymsludyr hálf opnar og myrkur inni og þá lokuðust dyrnar á geymslunni allt í einu, en mér fannst þetta frekar vera gamalt fjós eins og var heima í sveitinni þar sem ég ólst upp. Við ( ég og strákurinn ) gátum forðað okkur og þá fannst mér ég við vera komin inní stigagang og annar 7 ára strákur bæst við og mér fannst ég eiga ( þarna komið ) strákinn sem fyrr er nefndur,, maðurinn sem var á sveitabænum kom í stigaganginn og vildi frá strákinn, en allt í einu átti hann strákinn en hafði aldrei haft samband við hann né afskipti, ég tók báða strákana í fangið og hugsaði með mer og sagði að ég láti þá aldrei frá mér, og við það vaknaði ég, og átti erfitt með að vakna, ég var búin að vakna áður nokkrum sinnum og þegar ég sofnaði aftur þá hélt draumurinn bara áfram. Nöfnin sem komu fram í draumnum voru: Bjarni, Bjarklind, Halldóra, Guðmundur, Kormákur.

Draumráðning:

Kæra Halldóra.

Ég verð að viðurkenna að draumurinn þinn er ekkert einfaldur viðureignar. Draumurinn hefur viss einkenni martraðar sem getur átt skýringar í einhverju sem þú hefur séð, heyrt eða upplifað í vöku. Ástæðan getur einnig verið ótti tengdur þessum manni, sem þú greinilega þekkir.

Sé draumurinn fyrirboði einhverra atburða eða leiðbeining til þín sem dreymanda þá kemur reyndar fleira en eitt til greina. Dauðinn er sterkt tákn í draumnum sem getur táknað þrá eftir breytingu, þrá eftir að upplifa hlutina á annan veg en þeir eru að þróast í vöku. Manndráp í draumi geta einnig táknað missi og mikla erfiðleika í vöku. Þessi draumur getur einnig verið klár viðvörun gagnvart þessum ákveðna manni og fyrirboði einhverra atburða, og því miður ekki fallegra, sem tengst gætu atferli eða ákvörðunum hans í vöku.

Ég get ekki séð af þessum draum að hann sé að boða beina hættu fyrir þig en frekar að þú munir þurfa að takast á við erfiðleika tengda þessum ákveðna manni.

Ég bið þig að fara vel yfir þetta og hlaupa ekki að neinum ályktunum í fljótræði. Vona að þetta hjálpi þér á stað við að skilja drauminn þinn. Óska þér alls hins besta og þakka þér fyrir að senda mér drauminn.

Bestu kveðjur


Salóme Birta

Eftirfarandi barst frá: Iðunn (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 9. júní 2008

Hvaða merkingu hefur þetta nafn í draumi? Fyrirfram þökk, kveðja, Iðunn

Draumráðning:

Sæl Iðunn. Það er gömul trú að mannanöfn hafi ákveðna merkingu í draumum. Því miður er þó langt frá því að öll nöfn hafi fengið slíkar merkingar og svo er sérstaklega um mörg nýrri nöfn. Varðandi nöfnin Salóme Birta þá eru þau bæði mjög jákvæð og sterk þegar þau fara saman. Salóme líkt og nafnið Salómon er tákn höfðingsskapar og nafnið Birta veit á gott og er merki þess að dreymandanum gangi allt í haginn líkt og þegar karlmannsnafnið Bjartur kemur fyrir.

Það að dreyma mannanöfn er þó ekki alltaf þannig að þau sem slík séu að bera einhver ákveðin skilaboð því allt eins getur verið að hér sé um ákveðna persónu að ræða og þá skipta önnur draumtákn máli við að túlka hver boðskapurinn er. Ef þú þekkir einhverja með þessu nafni ættir þú að huga að því, en hafi þig bara dreymt nafnið gæti fyrri skýringin átt við.

Vona að þetta hjálpi þér

Bestu kveðjur :)


Að dreyma fyrrverandi maka

Þessi draumur barst frá: Kristin (Óskráður, IP-tala skráð), fös. 16. maí 2008

Sæl mig langar að biðja þig um að hjálpa mér að ráða eftirfarandi draum sem er kannski ekki merkilegur í sjálfu sér, en ég er mjög berdreymin og mér finnst það oft ansi vont, en draumurinn var á þá leið að ég var á tali við fyrrverandi manninn minn og í kjöltu hans sat kona og ég horfði á hana og hún brosti til mín, en ég var að hugsa vá hvað hún er ófríð og svo var hún með rauðleitt reitt og þunnt hár. Heldur þú að þetta hafi einhverja þýðingu. Með fyrirfram þökk og kveðju

Draumráðning:

Það að dreyma fyrrvarandi eiginmann er jafnan talið merki þess að honum líði vel. Tilvist konunnar er mér ofurlítil gáta þar sem illa hirt hár hennar er merki um reiði eða ólund en bros hennar er hins vegar gott draumtákn og er heillamerki fyrir dreymandann. Trúlegast hér þykir mér að hann þrái ást og umhyggju en sé að öðru leiti í góðum málum. Tel ekki að þessi draumur hafi aðra eða sérstaka merkingu fyrir þig.

Kveðja :)


Bílvelta í draumi

Þessi draumur barst frá: Anna María Gunnarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), sun. 18. maí 2008

Mig langar að vita hvort það sé hægt að ráða fyrir mig draum sem mig dreymdi fyrir stuttu og ég hugsa oft um því hann var svo skýr en mig dreymdi að ég væri að keyra og velti bílnum í beygju fyrst fannst mér að þetta gerðist mjög hægt og að bíllinn færi bara eina veltu en þá fór hann að fara hring eftir hring ég næ að horfa aftur fyrir mig og sé þá að hann stefnir á einskonar hlið eða 2 staurar sem stóðu eins og hlið og ég hugsa að þessu sé lokið þ.e.a.s lífinu en einhvern veginn fór bíllinn á milli hliðanna og skaðaðist báðum megin ég fann að ég var ekki mikið slösuð en mjög mikið skorin fötin voru rök sem ég vissi að væri af blóði og ég fann mikið til í stórum skurðum annarsvegar á kálfa og upphandlegg hægra megin en mér tókst að komast út úr bílnum hjálparlaust og fannst ég ganga dálítið lengi og það lak blóð niður úr buxunum en þá voru komnir til mín hjúkrunarmenn slökkviliðsmenn eða sjúkraflutningamenn og voru að tala um hvað ég væri dugleg ég hefði gengið alla þessa leið og komist að sjálfsdáðum út úr bílnum og þá vaknaði ég en mér fannst ég finna til í skurðinum á handleggnum þegar ég vaknaði svo raunverulegur var þessi draumur ég vil svo þakka fyrir ef hann verður ráðinn ég hef ekki prufað að senda svona áður.

Draumráðning:

Sæl Anna María. Já ég skal reyna að ráðá í drauminn þinn. Það að keyra bíl er oft tengt við lífshlaup viðkomandi eða langanir af einhverju tagi. Það að þú lendir í slysi á bílnum segir mér að þú munir upplifa eitthvert mótlæti eða mæta einhverjum erfiðleikum í lífi þínu. Þú nærð hinsvegar að vinna þig vel útúr því, þú nærð settu marki sem mér finnst vera ljóst af draumnum þar sem þú nærð bílnum í gegnum markið, milli stauranna. Að þú nærð að bjarga þér sjálf eftir slysið staðfestir þá skoðun mína og jafnframt að þú munir finna fyrir miklum stuðning. Ég treysti mér hins vegar ekki til að segja hverjir þessir erfiðleikar kunna að vera, en þeir gætu tengst sambandi við ákveðna manneskju eða einhverju sem þú ert að fást við. Ég tel ekki að þetta sé neitt sem þú þurfir að óttast sérstaklega.

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað við að skilja drauminn þinn.

Bestu kveðjur og gangi þér vel :)


Flasa í draumi

Þessi draumur barst frá: Inga (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 15. mars 2008

Mig dreymdi að ég væri á göngu og vinkona mín gekk á eftir mér. Hún kom svo upp að mér og sagðist ekki geta gengið fyrir aftan mig því ég væri með svo mikla flösu. Ég fór þá að hrista höfuðið og klóra í hársvörðinn með þeim afleiðingum að hrikalega mikil flasa hrundi af höfði mér, í stórum flygsum þannig að á endanum var jörðin í kringum mig þakin í flösu en ekkert lát var á flösunni sem hélt áfram að hrynja af mér.

Draumráðning:

Sæl Inga. Ég vil túlka þennan draum sem skilaboð til þín um að þú sért of upptekin af eigin verkum og afrekum og eigir á hættu að loka á eða íta frá þér góðum vinum þínum.

Bestu kveðjur og gangi þér sem best :)


Hvítagullsdemantshringir

Þessi draumur barst frá: Jóna Einarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 1. apr. 2008

Mig dreymdi að vinkona mín (sem er ógift og barnlaus) kæmi til mín með ofboðslega fallegan hring úr hvítagulli og á honum voru margir litlir demantar sem voru á efri brúninni á hringnum og upp hann miðjan. Í draumnum fannst mér þetta ekki vera giftingarhringur heldur gjöf frá systur hennar. Þegar hún sýnir mér hringinn þá segi ég við hana " ohh ertu loksins búin að fá hann" og er að dást mikið af honum. Í því kemur önnur vinkona mín (sem er gift og á tvö börn) með alveg eins hring. Þetta var hennar giftingarhringur og voru þeir tveir alveg eins. Þarna stóðu þær tvær og við vorum að tala um hversu fallegir hringirnir væru og við vorum einnig yfir okkur hamingjusamar með að vinkona nr. 1 væri loks komin með sinn. Með fyrirfram þökk um ráðningu á þessum draum. Kveðja Jóna

Draumráðning:

Ég skal sannarlega reyna að ráða í drauminn þinn Jóna. Hringur sem kemur fyrir á þennan hátt í draumi er góðs viti fyrir vinkonu þína. Annarsvegar getur hann verið staðfesting um vináttu systurinnar og jafnframt að fréttir berist af henni og hún þurfi jafnvel á stuðningi að halda nú. Hinsvegar getur hringurinn verið fyrirboði sambands eða giftingar og demantarnir verið fyrir barneignum. Samanburðurinn við hring þriðju vinkonunnar gæti verið að undirstrika hlutverk hringsins í draumnum, þ.e. að hann tengist ástarsambandi eða jafnvel giftingu. Það að þið voruð hamingjusamar og þér leið vel í draumnum er bara til að styrkja þessa ráðningu, þ.e. að draumurinn boði góða hluti.

Vona að þetta komi þér á sporið við að skilja drauminn þinn.

Bestu kveðjur :)


Hús sem hrynur og dauðsfall

Þessi draumur barst frá:  Margrét I. Lindquist, mán. 25. feb. 2008

Sæll félagi... mig dreymdi soltið hryllilegan draum um daginn og ég treysti engum betur en þér að ráða hann... hann hljóðar einhvern veginn svona... Ég var stödd í óþekktu húsi og var ein og horfði út um gluggann þar. Þá sá ég húsið hinumegin við götuna sem var niðurnýtt og illa farið. Upp á þakinu þar voru 2 konur og 4 karlmenn eitthvað að spjalla, reyndar fóru mennirnir eitthvað að hæðast að konunum að þær gætu ekki unnið svona vinnur og svo framvegis... jæja ein kvennanna er mjög góð vinkona mín og í þann mund sem ég átta mig á því að hún er þarna uppi byrjar húsið að hrynja og það hrynur til grunna og allir sleppa ómeiddir nema vinkona mín... hún grefst hálf undir öllu. ég heyri í drauminum mikil öskur og læti um að hún sé dáinn og allt það... en þegar ég kem að slysstaðnum þá er húsið heilt og fallegt og hún liggur á gólfinu dáin... skorinn í tvennt ( þannig að efribúkurinn lá þarna) ekkert blóð eða neitt... bara helmingurinn af henni... hún var friðsæl og það lýsti allt í kringum hana af fegurð, það hreinlega glampaði á húsið... þarna vaknaði ég og hugsaði með mér að nú liði vinkonu minn eitthvað illa... en hvað segir þú hvað heldur þú að þetta þýði???

Draumráðning:

Sæl elsku Magga. Þeir eru margir draumarnir sem hafa beðið ráðningar hér á draumablogginu mínu og þykir mér það leitt. En nú ætla ég að reyna að gera smá bót á með drauminn þinn sem ég vona að hafi ekki valdið þér andvökunóttum.

Við skulum bara byrja á því að dauði vinkonu þinnar er ekki fyrir dauða. Í þínum draumi eru þetta sterk skilaboð til þín um að hafa samband við viðkomandi sem þarf á hjálp eða stuðningi að halda eða finnst að viðkomandi eigi að vera að gera eitthvað fyrir þig. Hús í draumum eru afar táknræn og eru oftast að tákna dreymandann sjálfan og það sem hann tekst á við. Þannig er ókunnuga húsið líklega tákn um eitthvað sem þú hefur ekki náð að afgreiða eða klára á einhvern hátt, en er þó um leið fyrirboði þess að þú hefjist handa og takir á þeim málum.

Hitt húsið sem þú horfir á og er í niðurníðslu er fyrirboði þess að veikindi munu herja á fjölskylduna eða nákomna. Veikindi sem verða mjög alvarleg þar sem húsið hrynur, en um leið að bati muni nást þar sem húsið verður heilt og fallegt á ný. Fólkið sem er uppá húsinu boðar vonbrigði og deilur af einhverju tagi. Hvert hlutverk vinkonu þinnar er þarna er ég ekki viss um, en fyrir utan það sem ég nefndi í upphafi þá gæti hún einfaldlega verið að hugsa sterkt til þín, þurft á þér að halda eða haft samviskubit yfir að vera ekki til staðar. Dauði hennar getur einnig verið sterk ósk eða þrá eftir breytingu á einhverju sem sem á huga þinn eða jafnvel hennar. Um leið og ég segi þetta ætla ég samt ekki að útiloka að þetta gæti einnig verið fyrirboði tímabundinna erfiðleika í fjármálum.

Vona bara að þetta komi þér eitthvað á sporið elsku Magga með að túlka drauminn þinn.

Bestu kveðjur :)


Blæðingar og fósturlát í draumi

Þessi draumur barst frá:  Linda litla, lau. 12. apr. 2008

Ég setti þetta inn á bloggið mitt, til að reyna að fá svör. Þar var mér bent á þína síðu. Getur þú ráðið þennan draum fyrir mig ?

DRAUMURINN : Ég var á svo ofsalega miklum blæðingum, ég sest á klósettið og horfi niður í það á meðan ég pissa og það kemur alls konar eitthvað niður úr mér eins og litlar garnir, ég verð hrædd í draumnum en held samt áfram að horfa niður. Þá kemur fóstur, mjög lítið það hefði passað í lófa minn. Það er engir útlimir á fóstrinu, þetta er eins og búkur og höfuð en alveg greinilega fóstur.... þetta fer allt niður í klósettið. Svo vakna ég. Merkir þetta eitthvað ? Mér finnst þetta hálf óhugnarlegt og er alveg viss um þetta þýði eitthvað. Endilega þið sem hafið gaman að því að grugga í draumum, segið mér eitthvað um þetta. Mig dreymir aldrei.

Draumráðning:

Sæl Linda litla og takk fyrir að senda mér drauminn þinn. Ég tel ekki ástæðu fyrir þig að óttast þennan draum þó hann hafi örugglega verið óhuggulegur. Draumtáknin hér eru mjög samfallandi og líklegast er að draumurinn sé ábending til þín um að þú ættir að fara vel með þig, þ.e. huga vel að eigin heilsu. Draumurinn getur þó einnig verið fyrirboði einhverra erfiðleika og þá sérstaklega á þann hátt að einhver von sem þú hefur borið í brjósti bresti. Fóstur er gjarnan fyrirboði einhvers nýs, meðan fósturlát er fyrirboði þess að eitthvað gangi ekki eftir eða viðkomandi eigi að gæta að eigin heilsu. Garnirnar sem þú nefnir. Hafi þetta verið innyfli þín þá er það á sama veg, því það getur verið táknrænt fyrir ósætti einhverskonar og jafnvel missi. Klósettið getur einnig verið táknrænt í þessu til að undirstrika að ósættið sé tengt einhverjum sem þú vinnur fyrir.

Vona að þetta komi þér eitthvað á sporið með drauminn þinn.

Bestu kveðjur :)


Hallgrímskirkja á hliðina

Þessi draumur/ábending barst frá:  Sólmundur Friðriksson, fim. 27. mars 2008

Datt inn á þessa síðu fyrir forvitnis sakir. Hef lítið verið að pæla í draumum en dreymdi einn í nótt sem ég varð að skrifa niður (hef aldrei gert slíkt). http://soli.blog.is/blog/soli/entry/486378/ Hef þá skoðun á draumatáknum að hver og einn þurfi að læra á sína og þá er það að finna út hvað kirkja þýðir hjá mér. Kv, Sólmundur

Svar/draumráðning:

Sæll Sólmundur og takk fyrir innlitið. Ég er hjartanlega sammála þér varðandi það að draumtákn geta verið mjög einstaklingsbundin og mikilvægt að hver og einn nái að læra á sína drauma til að túlka og lesa úr þeim. Enginn er betri draumráðandi en dreymandinn sjálfur sem nær tengingu við táknin í eigin draumi. Miklu skiptir einnig fyrir dreymandann að taka mark á þeirri tilfinningu sem viðkomandi fær fyrir draumnum, eins og ótta, hræðslu, vellíðan, gleði o.s.frv., því slíkar tilfinningar geta oft leitt dreymandann nær svari draumsins.

En örlítið að draumnum þínum, sem ég las á blogginu þínu og finnst afar áhugaverður. Ástæða þess er sú að þessi draumur er mjög sterkur og með táknum sem afar ólíklegt er að þú hefðir verið að hugsa um í vöku eða yfirleitt að velta þér uppúr, "hrun Hallgrímskirkju". Kirkjuturn þykir almennt gott draumtákn og er þá gjarnan bendlaður við hamingju og endurgoldna ást. Hruninn turn er á hinn bóginn ekki jafn jákvætt og gæti verið fyrirboði um brostnar vonir af einhverju tagi. Í þessum draumi þínum er þó eitthvað sem segir mér að fall Hallgrímskirkju, sem er ákveðið borgartákn og tákn festu, geti falist fyrirboði stórra óvæntra hluta sem gerast í samfélaginu frekar en í þínu persónulega lífi. Fráfall einhvers mikils metins eða þá að einhverjar stoðir í samfélaginu bregðast, hlutir sem fólk treystir að ekkert geti haggað, en komi svo eins og köld gusa að allt annað sé uppá teningnum.

Þú skalt ekki líta á þetta sem ráðningu á draumnum þínum, miklu fremur sem nálgun mína við að skoða hann myndrænt, þar sem ég þekki ekkert til þín eða þinna og hvað það er sem þú ert að fást við. Hins vegar kæmi mér ekkert á óvart að einhver ljós myndu kvikna hjá þér við að lesa þetta varðandi það að ráða drauminn þinn. Taktu vel eftir fyrstu hugboðum sem skjóta upp kollinum, hversu fjarstæðukennd sem þau kunna að virðast í fyrstu, því þar er nefnilega oft lykilinn að ráðningunni að finna.

Óska þér alls hins besta :)

p.s. til annarra sem skilið hafa eftir drauma hér á blogginu að undanförnu. Ég vona að ég fari að taka mér tak og koma með ráðningar á þeim, en ég hef því miður ekkert náð að sinna þessu bloggi að undanförnu :)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband