Ísbjörn í draumi

Þessi draumur barst frá: Dísa (Óskráður, IP-tala skráð), fös. 9. maí 2008

Kæri áhugamaður um drauma! Ég sé að ekkert hefur gerst á þessari síðu um tíma, en langar samt á láta einn stuttan draum flakka sem mig dreymdi í nótt, og get ekki hætt að hugsa um. Þetta var mjög skýr og sterkur draumur. Ég er stödd við eitthvað hestagerði með pabba mínum. Pabbi er inní gerðinu eitthvað að baksa með tvo hesta sem eru beislaðir og bundnir við gerðið innanfrá. Ég er fyrir utan gerðið en ætla að fara að labba innum hliðið þegar ég sé að pabbi horfir á eitthvað við hliðina á mér en segir ekki neitt. Það var eins og hann vildi ekki segja neitt til að hræða mig ekki. Ég lít til hliðar og sé þá að það er kominn ísbjörn alveg upp að mér, ekki mjög stór, svona eins og mjög ungur ísbjörn. En hann sýnir tennurnar og ég vissi að hann var að fara ráðast á mig. Pabbi gerði ekkert til að hjálpa mér og var bara inní gerðinu. En ég lendi í átökum við ísbjörninn og endar með því að ég drep hann. En það var ógeðslegt, ég kyrkti hann og það tók langan tíma. Ég vildi ekki drepa hann en vissi að ég varð að gera það því annars myndi hann drepa mig. Þetta móment þegar ég er að kyrkja hann situr svo í mér, það var svo óhugnanlegt og brútal, hálsinn hans var einhvern veginn mjúkur og það lak út úr honum eitthvað hvítt. Þetta var svo villimannslegt af minni hálfu. Langar mikið að vita hvað þetta geti þýtt, ef eitthvað. Með bestu kveðju, Dísa

Draumráðning:

Kæra Dísa og ágætu lesendur þessa draumabloggs. Ég hef því miður ekki komist yfir að ráða í alla drauma sem borist hafa í gestabókina að undanförnu. Þegar ég var að fara yfir nokkra af draumunum í kvöld kom ég að þessum draum um ísbjörninn.

Ég ætla að láta ykkur lesendum eftir að ráða hann, en í mínum huga er hér ljóst dæmi um berdreymi og þarf ekki annað en leiða hugann að þeim fréttum sem borist hafa síðan. Það er vissulega oft erfitt að skilja á milli slíkra drauma og drauma sem á hinn bóginn hafa einhvern ákveðinn boðskap að færa tengdum dreymandanum sjálfum. Ísbjörn sem slíkur getur líka verið sterkt draumtákn og táknar þá stóra viðburði eða nærveru háttsettra manna.

Við þig Dísa vil ég segja þetta. Taktu vel eftir draumunum þínum og skráðu þá niður svo þú getir lært á þá og lært að ráða í þá sjálf. Þetta segi ég því mér finnst svo margt benda til þess að um berdreymi sé að ræða og að því líklegt að þessi draumur þinn sé ekkert einsdæmi í þá veru. Gaman væri að heyra frá þér ef þú lest þetta.

Bestu kveður og aftur takk fyrir að skilja drauminn eftir hér :)


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Hæ aftur og takk fyrir þetta.  Þetta lítur sannarlega út eins og berdreymi en ég er samt ekki viss.  Ég var svo viss um að ísbjörnin stæði fyrir eitthvað annað .. og er það eiginlega ennþá.  En það er afþví tilfinningin var svo sterk, þessi væntumþykja og hvað mér þótti hræðilegt að þurfa að drepa hann, en var samt tilneydd.  Ég ætla að fara að ráði þínu og byrja að skrifa niður drauma á morgnana, mig dreymir mjög mikið og ég man þá nánast alltaf þegar ég vakna. Hef nokkrum sinnum séð eftirá að hafa dreymt fyrir atburðum, en þeir hafa alltaf verið persónulegir atburðir, og ég hef aldrei skilið draumtáknin fyrr en eftirá.

Mig er mikið búið að dreyma bíla núna undanfarið.. og það er alltaf þannig að ég er í bílnum (og oft dóttir mín) og það fer alltaf eitthvað úrskeiðis, ég missi stjórn, eða er stoppuð af lögreglunni, keyri útaf og þvíumlíkt.

Bestu kveðjur,

Dísa 

Dísa (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 10:20

2 Smámynd: Draumar

Sæl Dísa

Það kann vel að vera að ísbjörninn í draumnum sé draumtákn fyrir þig og er þá líklega að vísa til einhvers sem er þér mjög mikilvægt eins og ég nefndi "stór viðburður eða tengt háttsettu fólki á einhvern hátt".

Varðandi bíladraumana þína vil ég segja þetta. Það að þú ert við stýrið og nærð ekki að höndla aðstæður er ábending um að þú sért ekki að upplifa drauma lífs þíns til fulls eða óttist að ná ekki settu marki. Bílar og bílferðir í draumum eru þannig oftast tákn um lífshlaup dreymandans og þrár til lífsins.

Bestu kveðjur

Draumar, 25.6.2008 kl. 14:50

3 identicon

Ok takk fyrir þetta.

kv.

Dísa (IP-tala skráð) 30.6.2008 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband