Snuð í aðalhlutverki

Eftirfarandi draumur barst frá: Guðlaug Sigrún (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 25. júlí 2007

25 ára dóttur mína dreymdi draum í fyrrinótt. Ég veit ekki hvort það skiptir máli, en hún flutti að heiman og fór að búa sjálfstætt í vikunni. Systir hennar, sem er í hlutverki í draumunum, er fjögurra ára. En draumurinn er eftirfarandi: "Það var stríð og það var flóð. Ég var föst í einhverskonar risastórum tanki og það var mikill straumur. Þegar ég gáði betur sá ég að straumnum olli veður/sjó/vatnsgyðja einhvers konar sem var að reyna að drekkja fólkinu vegna synda þeirra og heimsku. Hún hafði búið til hringiðu sem allir soguðust í. Ég var alveg að sogast inn í þegar hún hlífði mér vegna þess að ég gat leyst gátu. Gátan snerist um það hvernig maður átti að forðast hringiðuna. Ég forðaði mér semsagt með því að vera réttum megin við og flaut að einum vegg tanksins. Gyðjan sneri í norður, eins og pólstjarnan. Allt í einu sé ég að gyðjan er systir mín. Hún sagðist geta breytt sér í hvað sem er. Ég bað hana um að breyta sér í sel. Hún sagði OK og var skyndilega komin í fiskabúr sem var eins og skál í laginu og náði henni upp í handarkrika. Henni fannst það mjög fyndið. Svo lét hún sig fljóta til mín. Þá bað ég hana um að breyta sér í hval. Hún þurfti snudduna sína til þess. Það var gat framan á snuddunni sem ég vissi að táknaði öndunargatið á baki hvalsins. Hún missti snudduna ofan í vatnið. Hún hefði ekki getað andað án hennar svo hún dýfði sér ofan í. Ég hjálpaði henni því ég vissi að án snuddunnar væri hún ósjálfbjarga. Það var mjög djúpt niður á botn. Við syntum saman niður með höfuðið beint niður og ég hélt um ilina á henni til að ýta henni og líka til að passa hana. Loksins náðum við niður og sáum snudduna í sandinum. Sandurinn var á litinn og áferðar eins og sag úr MDF-plötum. Systir mín gat hvorki opnað augun né andað, en hún var ekki hrædd. Ég var hins vegar hrædd. Ef við næðum ekki snuddunni væri út um systur mína. Snuddan lá í sandinum en var alveg að fara að grafast niður. Systir mín teygði sig eftir henni og snuddan grófst lengra ofaní. Ég ýtti henni til hliðar og dýfði hendinni í sandinn. Fyrst greip ég í tómt en í seinna skiptið náði ég henni. Á sandinum uppi við vegg tanksins voru tvö hjól. Það sem var nær okkur var ljóst konuhjól með körfu, alveg eins og mig langar í. Ég man ekki hvernig hitt var. Ég hafði engan tíma til að skoða mig um því ég varð að ná systur minni upp úr vatninu. Ég gat andað í vatninu. Það var ekki erfitt en ég var mjög meðvituð um öndunina. Við náðum upp á yfirborðið og ég vissi að við værum óhultar og gátum synt yfir á hinn bakkann þar sem við kæmumst úr tankinum. Þar var útgangur og tröppur. Meira man ég ekki. Nema hvað að þegar ég vakna sný ég til hliðar í rúminu. Ég hafði snúið rúminu um kvöldið. Áður sneri ég með höfuðið í norður og fætur í suður. Ég vaknaði með höfuðið í austur og fæturna út af rúminu í vestur."

Draumráðning:

Sæl Guðlaug. Ég verð að viðurkenna að þessi draumur er ekki sá auðveldasti viðureignar að ráða. Það að dóttir þín er nýflutt að heiman getur vissulega haft áhrif hér þar sem margt leitar vafalaust á huga hennar í vöku við slíkar aðstæður. Slíkir hugrenningar geta komið fram í draumum og því ekki víst að hér sé um forspárdraum að ræða.

Ég les þó ákveðin varúðarskilaboð úr þessum draumi sem vert er að gefa gætur. Það að dreyma flóð og stríð getur verið fyrirboði einhverra erfiðleika eða vandræða. Það að yngri systirin er selur í draumnum getur verið ábending um að henni standi einhver ógn eða hætta af vatni. Draumurinn getur líka verið að endurspegla einhverjar áhyggjur eldri systurinnar í garð þeirrar yngri og hugsanlegt að það sé byggt á misskilningi sem sú yngri vill leiðrétta, en tilraunir hennar til að breyta sér í hval eru merki þess.

Ég bið ykkur bara að líta á þessar skýringar mínar sem vísbendingar en ekki einhvern sannleik, en um leið hvet ég ykkur til að fara að öllu með gát á næstunni þegar vatn er annarsvegar.

Óska ykkur alls hins besta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband