10.4.2007 | 20:47
Dreymir dýr og eru til rannsóknir á því?
Margir hafa efalaust velt því fyrir sér hvort dýrin dreymi líkt og mannfólkið. Á þessu hafa verið gerðar þó nokkrar rannsóknir, en þar sem um málleysingja er að ræða er viðfangsefnið nokkru flóknara.
Samkvæmt niðurstöðu vísindagreinarinnar "Animals have complex dreams, MIT researcher proves" dreymir dýr jafnvel flókna drauma og hegðun þeirra í draumsvefni er ekki alls ólík því sem gerist hjá mannfólkinu.
Hér er birt brot úr greininni sem gefur vísbendingu um innihaldið:
"No one knew for certain that animals dreamed the way we do, which can involve replaying events or at least components of events that occurred while we were awake," said Matthew Wilson of MIT's Center for Learning and Memory. "We looked at the firing patterns of a collection of individual cells to determine the content of rats' dreams. We know that they are in fact dreaming and their dreams are connected to actual experiences."
(Mynd: dreaming rat, sem fylgir greininni)
Eftirfarandi samantekt er fengin af vísindavefnum
"Rannsóknir á svefni dýra eru fyrst og fremst byggðar á atferlisathugunum en einnig, þar sem því verður við komið, á beinum mælingum. Þá eru mældir ýmsir lífeðlisfræðilegir þættir, þar á meðal heilarit, vöðvaspenna, öndun og hjartarit.
Aðeins lítið brot af fjölskrúðugri tegundamergð dýraríkisins hefur verið skoðað í þessu augnamiði. Líklegt er að flest dýr taki sér hvíld og/eða sofi á hverjum sólarhring, þar á meðal hryggleysingjar og fiskar. Fuglar og spendýr verja ákveðnum tíma sólarhringsins í svefn, ýmist að degi eða nóttu. Sá tími er mjög mislangur eftir tegundum. Meðal spendýra sofa hestar og fílar einna styst, 3 til 4 klukkustundir, en leðurblökur einna lengst, tæplega 20 klst. Algengustu heimilisdýrin, kettir og hundar sofa um það bil 13-14 klst. á sólarhring.
Svefn skiptist í tvo meginhluta, hægan svefn (NREM, synchronized) og draumsvefn (REM, paradoxical) sem skiptast á með reglubundnum hætti. Með lífeðlisfræðilegum mælingum (svokölluðu svefnriti) má greina á milli. Hægur svefn einkennist af hægum og öflugum heilabylgjum, slökun í líkamsvöðvum og reglubundinni öndun og hjartslætti. Í draumsvefni mælast hins vegar hraðar, lágspenntar heilabylgjur, hraðar augnhreyfingar (rapid eye movement) og enn lægri vöðvaspenna en í hægum svefni. Örsmáir kippir mælast þó í vöðvum. Öndun er óregluleg sem og hjartsláttur. Þegar sofandi maður er vakinn upp af draumsvefni getur hann lýst á myndrænan hátt, því sem gerðist í draumnum. Hlutfall draumsvefns er að jafnaði 10-20% af heildarsvefntímanum.
Svefnrit eins og að framan er lýst sem tekin hafa verið af ýmsum dýrum, þar á meðal köttum, sýna að þau sofa draumsvefni. Með beinum athuganum á atferli dýra, til dæmis sofandi kisu, sjást einnig skýr einkenni draumsvefns: Hraðar augnhreyfingar, smáhreyfingar á eyrum, veiðihárum og jafnvel loppum, auk óreglulegrar öndunar. Rannsóknir hafa sýnt að kettir, sem hafa skaddaðar taugar sem valda vöðvaslökun í draumsvefni, hreyfa sig á þessu svefnstigi, stundum líkt og þeir væru að bera sig eftir bráð. Af því hafa menn dregið þá varkáru ályktun, að hugsanlega séu kettirnir að upplifa drauma sína, ef til vill um sællega og bústna mús sem bíður þeirra innan seilingar. Hins vegar verður spurningunni um það hvort dýr dreymi myndræna drauma líklega aldrei svarað á óyggjandi hátt".
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.