Fyrirboði eða tákn um vellíðan

Fyrirboði eða tákn um vellíðan

Þessi draumur barst í gestabók dramabloggsins frá:
Guðbjörg Ragnarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 14. júní 2007

Þannig er mál með vexti að ég missti móður mína í janúar. Fyrir rúmum mánuði síðan dreymdi vinkonu hennar eftirfarandi draum sem síðan hefur komið fram með öðru sniði hjá mér. Vinkonu mömmu dreymdi að þær tvær hefðu farið í bíltúr um Suðurnesin og voru að koma heim til mömmu. Pabbi, sem er á lífi, beið við gluggann tilbúinn til að taka á móti mömmu. Vinkona hennar bisar við hjólastólinn, en þá stígur mamma út úr bílnum. Hún er ung, með ljóst sítt hár og í fallegri síðri grárri kápu. Hún og pabbi labba upp tröppurnar og skeyta engu um hjólastólinn eða vinkonu mömmu. Það er eins og himna sé á milli foreldra minna og vinkonu mömmu - þau heyra ekkert og sjá ekkert nema hvort annað. Foreldrar mínir fara inn og hurðin lokast á eftir þeim. Eftir situr vinkona mömmu með hjólastólinn. Mamma var í hjólastól bróðurpart ævi sinnar. Í von um ráðningu. Kær kveðja Gugga

Draumráðning:

Sæl Gugga. Ég skal svo sannarlega gera mitt besta til að ráða drauminn sem er afar fróðlegur og fullur af táknum sem augljóslega er ætlað að bera boð til þeirra sem hlut eiga að máli. Það hefur lengi verið trú að hlusta beri á skilaboð látinna í draumi. Það sem við verðum þó strax að velta fyrir okkur er að draumurinn getur verið táknrænn eingöngu fyrir dreymandann og að mamma þín sé þá fyrst og fremst að koma fram til að veita henni ákveðna leiðsögn, því það að dreyma látinn vin eða ættingja, og þá alveg sérstaklega ef rætt er við viðkomandi í draumnum, þá getur það bent til þess að dreymandinn þurfi að takast á við eitthvað í einkalífinu sem gæti tekið á, en þó ekki fyrirboði neinna vátíðinda. Hér getur einnig verið fyrirboði þess að dreymandinn fái fréttir af einhverjum sem ekki hefur heyrst mikið frá nýlega.

Þessi draumur getur einnig verið táknrænn fyrir þig og föður þinn og dreymandinn fyrst og fremst næmur fyrir að bera skilaboðin sem í draumnum felast. Sú skýring þykir mér mun líklegri. Það sem einkennir drauminn hvað foreldra þína varðar er að hann er mjög fallegur og hlýr. Fas móður þinnar og framkoma benda til þess að hún sé frjáls og vilji láta vita af sér og að sér líði vel. Ekkert fær skilið foreldra þína að, ekki veggurinn milli heima. Hún mun líklega koma og taka á móti honum einnig þegar hans tími kemur. Það skal þó tekið fram að draumurinn veit frekar á langlífi hans en hitt. Það fallega sem ég skynja við drauminn er sú mikla tenging sem er milli þeirra, þau falla í eigin heim í draumnum. Hvort þau hafa leift sér þessa nánd og tengingu meðan hún lifði veit ég ekki, en augljóst er að böndin milli þeirra eru sterk.

Fleiri skilaboð geta leynst í þessum draumi, en til að segja meira hefði verið gott að vita hvort þær ræddu saman í draumnum og hvort eitthvað er minnistætt úr bílferðinni. Þú nefnir einnig að draumurinn hafi komið fram með öðru sniði hjá þér. Það að skoða þinn draum einnig gæti gefið draumskýringu meiri dýft og skilning.

Vona að þessar skýringar hjálpi þér eitthvað á leið við að túlka drauminn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband