8.7.2007 | 13:02
Gleðileg málningar kaup
Þessi draumur barst í gestabókina frá: blavatn (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 7. júlí 2007
Gleðileg málningar kaup.
Sæll draumráðandi góður, aftur. Annan draum dreymdi mig síðasta dag mars mánaðar. Ég var með sambýlismanni mínum og 6 ára dóttur okkar úti í Vestmannaeyjum. Þar sem verslunarhúsið "Þingvellir" stóð fyrir eldgos, var komin löng húsaalengja af hvítum raðhúsum! Húsin voru mishá og stóðu sum fram í götuna, en önnur aftar. Var svona hálfgerður Grískur stíll á þessu, mikið af svölum og fallegum veröndum með blómum. Ætluðum við að kaupa efri hæð í einu af þessum húsum, og vorum að hitta fasteignasalann til að ganga frá kaupunum. Við förum að einu hvítu húsanna, á hurðinni stendur talan 2. Við inn og upp á loft. Íbúðin er björt, hátt til lofts og fullbúin húsgögnum. "Allir innanstokksmunir fylgja með í kaupunum" segir fasteignasalinn. Þar eru útsaumuð veggteppi og málverk á veggjum í stofu og sjónvarpsholi, fallegir smámunir í hillusamstæðum, útsaumaðir dúkar á borðum,blóm í gluggum og bækur í bókahillum. Ég undrandi á að eigandi vilji láta alla þessa góðu muni frá sér, auk allra húsgagna. En fasteignasali segir eigandann aðeins ætla að fá 4-5 myndi af ættingjum, sem eru uppi á vegg í forstofu. Við göngum frá kaupum, og ég fer að sýna dótturinni íbúðina, þar sem hún hafði ekki séð hana áður. Þrjú björt herbergi voru í íbúðinni með stórum,ljósum viðarfataskápum, baðherbergi flísalegt í bláu og ljósgulu, stórt hvítt eldhús með litlum svölum, sem voru út yfir litríka, mannmarga götuna. Stofan er stór og björt, með tvennum svölum til austurs og suðurs, og stórum blómafylltum gluggum. En norðurveggur stofunnar er nýmálaður í mildum appelsínugulbrúnum lit. Búið að hengja útprjónað veggteppi á hann (landslag), þó ekki hafi tekist að ljúka við að mála. Stór rauður flekkur, er ómálaður ofarlega á veggnum. Maður minn vill klá ra að mála, en málningarfata stendur tóm úti á suðursvölunum. Hann pirrar sig svolítið yfir því, og segist ekkert vita hvar hægt sé að versla málningu, pensla og sparsl þarna í Eyjunum. Ég segist rata í næstu málningarbúð, hann drífur sig þá úr að ofan og sest út í sólina á suðursvölunum, en ég og dóttirin drífum okkur út í málningarkaup. Úti er glaðasólskin og blíða. Mikið af fólki í litríkum sumarfötum, krakkar með blöðrur eða ís, og við mæðgurnar förum að tala um að það hljóti að vera einhver hátíðarhöld í gangi í bænum. Finnum samt opna málningarbúð, verslum málningu og pensla, og förum út. Fyrir utan geng ég í flasið á deildarstjóra mínum. Hún fegin að sjá mig. Segist hafa verið að leita að mér, því okkur hafi verið boðið á opnunarhátíðina í nýja leikhúsi þeirra Eyjamanna. Við þangað. Stendur stórt glæsilegt hús niður við höfn, þar sem eitt sinn var frystihús. Þar byrjum við á að horfa á fyrsta þátt í leiksýningu á fyrstu hæð hússins, annan þátt á annarri, þriðja á þriðju, en að lokum förum við upp grænbláar steintröppur upp á þak hússins, þar sem sýna á 4 þátt. Þar er mikið af prúðbúnu fólki, sem réttir okkur deildó kampavín að drekka, en dótturinni gosdrykk. Ég fer að horfa á okkur mæðgur, og hugsa hvort við séum rétt klæddar í fagnaðinn. En erum báðar fínar í ljósum sumarfötum, ég kremhvítum og hún gulum og ljósbleikum. Vakna. Vestmannaeyjar eru bernskustöðvar mínar, og ég flutti brott í gosi tæplega 13. ára gömul. Dreymi mikið út í Eyjar.
Draumráðning:
Kæra "blavatn", þótt þessi draumur þinn sé fullur af smáatriðum mun ég gefa þér ráðningu á honum í heild en ekki með skýringu á hverju smáatriði, því þau eru mörg hver til að gefa þér mynd af lifi þínu eða aðstæðum og skýringin felst ekki í hverju atriði fyrir sig heldur meira í þeirri skýru mynd sem draumurinn gefur. Það er almenn draumskýring að líta á hús í draumum sem dreymandann sjálfan. Í lýsingu þinni á húsinu finnurðu ákveðna lýsingu á þinni eigin persónu. Það er jákvætt við drauminn að húsið allt er bjart og í mildum björtum litum og þar sem nýtt hús er gjarnan talið fyrir gæfu dreymandans í eigin persónulegu málum er þetta mjög jákvætt. Mér finnst hins vegar nokkuð ljóst af draumnum að þú stendur á ákveðnum tímamótum í lífi þínu og einnig að einhverjir hnökrar/árekstrar eru við maka þinn sem í raun er að pirra sig á þér þegar hann lætur ókláruðu málningarvinnuna fara í taugarnar á sér. Hér eru einhver óuppgerð mál sem þarf að taka á.
Þú undirstrikar þetta síðar í draumnum þegar þú ferð í leikhúsið því þar ferð þú í gegnum ákveðna kafla lífs þíns og ert komin að nýjum kafla. Grænbláu steintröppurnar sem þú ferð upp boða gæfu, óskir munu rætast og þessu fylgir einnig vísbending um mikla sköpun, listræn gildi og góð samskipti. Það að þið mæðgur takið þátt í mannfagnaði í lok draumsins er klár vísbending um að framtíð þín og frami er meiri en þú átt von á. Að lokum, það að draumurinn tengist Vestmannaeyjum tel ég ekki það sem skiptir mestu máli að öðru leiti en því að þar er ákveðin tenging við rætur þínar og að þú skoðir lífshlaup þitt frá þeim grunni, gerir upp drauma þína og væntingar til lífsins, styrkir bara þá skoðun mína að draumurinn fjalli fyrst og fremst um þig sem persónu og hvað bíður þín.
Tel að draumurinn sé fyrirboði góðra tíma, vaxtar og nýs kafla í lífi þínu. Þú munt þó þurfa að takast á við einhverja árekstra í samskiptum við þína nánustu áður en þessum kafla er náð. Hugaðu vel að fólkinu sem næst þér stendur og ekki síður þér sjálfri, hvernig þér líður og hvort þar er eitthvað sem þú getur gert sjálf, sjálfsmat, sjálfstraust, hegðun, sem færir þig nær því lífi, nýjum kafla, sem þig langar að upplifa. Þetta er mikilvægt því þín býður kafli þar sem mikil sköpun, góð samskipti og virðing ráða för.
Vona að þessi draumskýring megi verða þér til gæfu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.