12.7.2007 | 23:32
Mig dreymdi mjög undarlegan draum
Þessi draumur barst í gestabókina frá: Dagga (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 9. júlí 2007
Kæri draumráðandi Mig dreymdi mjög undarlegan draum fyrir stuttu, draum sem situr mjög fast í mér, og ég man hann mjög vel. Ég bjó í lítilli blokk á 3 hæðum ( jarðhæð + 2 hæðir ) og ég bjó á efstu hæðinni. Nokkrir af íbúum blokkarinnar voru saman komnir úti garði og sátu á teppi og spjölluðu saman þegar ég ákvað að skreppa upp í íbúð og sækja kex. Þegar í íbúðina var komið stend ég fyrir framan skáp og ætla að ná í rauðan ritskex pakka þegar ég finn að einhver stendur fyrir aftan mig en þó sé ég engan. Ég fann strax að þarna var fyrrum tengdapabbi minn kominn (sem er löngu látinn) og hann tekur í hurðina á skápnum og skellir henni aftur af miklum krafti. Ég man að ég var ekki hrædd en mér fannst þetta mjög ónotaleg tilfinning. Ég opna skápinn aftur en þá grípur hann aftur í hurðina og skellir henni aftur með miklum látum. Eftir það gafst ég upp og fór aftur út til fólksins og sest á teppi við hliðina á konu, og ég segi henni frá því sem gerst hafði uppi í íbúðinni. Okkur er þá litið upp í glugga sem var inní íbúðina mína og sjáum við þá að ljósin inní íbúðinni blikka og blikka (eins og væri verið að hamast á rofanum) Við þessa sýn vakna ég. Ég man þennan draum mjög skýrt og hann situr mjög í mér, sérstaklega vegna þess hve vel ég fann fyrir fyrrum tengdapabba mínum, löngu látnum manni, auk þess að við vorum aldrei mjög náin þegar hann lifði. Hann virtist mjög reiður í draumnum og hef ég hugsað mikið um þetta. Með von um ráðningu Kveðja Dagga
Draumráðning:
Sæl Dagga og takk fyrir að senda drauminn þinn. Það að dreyma látinn mann getur haft fleiri en eina merkingu/skýringu. Látið fólk í draumi er stundum að koma ábendingum til dreymandans um einhverja hluti eða hreinlega að styrkja viðkomandi í trúnni um að það sé eitthvað handan þessa lífs. Reiði tengdaföðursins er þó ekki bara fyrir góðu því því hér getur verið ábending til þín um að þú þurfir að takast á við einhverja erfiðleika tengt þínum óskum og þrám eða jafnvel verðir fyrir einhverjum svikum. Hús í draumum eru oftast tákn fyrir dreymandann sjálfan og hans eigin líðan. Þennan draum þinn vil ég því fremur túlka á þann veg að þetta snúist um þig og þína líðan. Reiðin sem beinist að þér getur verið ábending um óuppgerð mál hjá þér og jafnvel áhyggjur af samskiptum þínum við tengdaföðurinn meðan hann var á lífi. Ég ráðlegg þér að leiða hugann að því hvort eitthvað hvíli á þér sem tengist tengdaföðurnum og þá að gera það upp í huganum og ræða það við þína nánustu ef þú getur. Síðan skaltu sleppa því með fyrirgefningu í huga. Hlúðu að þér sjálfri og taktu eftir draumunum þínum áfram því sé hér fyrirboði einhverra tilfinningalegra erfiðleika þá trúi ég því að draumarnir séu að leiðbeina þér hvernig þú eigir að takast á við það mótlæti á uppbyggjandi hátt og til að forðast særindi.
Þú skalt ekki leifa þessum draum að skapa þér áhyggjur, því ef þú finnur jafnvægi þitt og gerir upp þessar hugsanir þá tel ég að þú sért búin að takast á við það sem draumurinn er fyrst og fremst að segja þér.
Óska þér alls góðs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.