6.9.2007 | 19:01
Dreymdi orma koma úr kvið mannsins
Eftirfarandi draumur barst frá: Ester Gunnarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 4. sept. 2007
Komið þið sæl, mig dreymdi s.l. nótt að ég sæi kvið mannsins míns opnast og út komu ormar ljósbrúnir og lifandi. Mér varð svo við að ég hörfaði undan og draumurinn hvarf en kom síðan aftur og þá var opið ennþá stærra og margfalt fleiri ormar! þetta var mjög óhugnarlegt að sjá en ég get þess að ég sá bara kviðinn og þessa sýn en ekki heilan mann en þóttist vita í draumnum að um manninn minn væri að ræða. Hann veiktist af krabbameini í blöðruhálsi fyrir ári og fór í aðgerð og hefur verið hreinn síðan en er að basla við þvagleka sem á að fara að gera eitthvað við núna. Hvað heldurðu að þetta þýði? Kær kveðja Ester
Draumráðning:
Kæra Ester. Við skulum ekki horfa framhjá því við ráðningu á draumnum þínum að þetta geti verið sprottið af áhyggjum þínum í vöku af heilsu mannsins þíns, því oft er undirvitundin að vinna úr hugsunum og áhyggjum sem að okkur sækja. Ég treysti mér ekki til að gefa þér einhlíta skýringu á þessum draum því ormar geta haft fleiri en eina táknræna merkingu fyrir dreymandann. Algengt er að túlka orma í draumi sem keppinauta sem vilja koma viðkomandi á kné og gætu því verið tákn fyrir baráttu mannsins fyrir heilsu sinni. Þegar um heilsu er að ræða eru ormar þó oftar taldir boða veikum bata. Ég vil því fremur trúa því að þessi draumur sé góðs viti um hvernig til takist með aðgerðina og heilsu mannsins.
Vona að þetta verði þér að einhverju liði og óska ykkur alls góðs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.