26.9.2007 | 22:36
Dreymdi gróður á handarbaki og kinn
Eftirfarandi draumur barst í gestabókina frá: Aðalheiður Harðardóttir, mið. 26. sept. 2007
Sæl og blessuð. Mig dreymdi afar skrýtinn draum í fyrrinótt. Hann var á þá leið að ég og maðurinn minn bjuggum í Reykjavík (búum reyndar í Svíþjóð) og mér fannst hann koma út af baðherbergi og sýna mér plöntu sem óx upp úr handarbakinu á honum og út úr annarri kinninni (vinstri kinn en ég er ekki viss hvorri höndinni). Ég hjálpaði honum að klippa þennan gróður burt þannig að eftir stóðu litlir, grænir stubbar, þétt á handarbaki og kinn. Í draumnum hugsaði ég fyrst sem svo að þetta væri Aloe Vera plantan og fannst það bara gott mál en fór svo að skoða blöð plöntunnar betur og sá þá ekki betur en að þetta væri Hawai-rós (það uxu þó engin blóm á plöntunni). Blöðin voru fallega græn og litu vel út. Þó að ég hefði ekki áhyggjur af þessu í draumnum vildi ég samt fá skýringu og sagði við manninn minn að við yrðum að fara upp í álver (á Reyðarfirði) og hitta lækninn þar. Við komum því næst að stórri byggingu og var vísað þar til læknisstofunnar sem var í öðru stóru húsi. Húsin voru bæði björt og nýtískuleg. Þegar þangað kom var okkur sagt að læknirinn væri að fara og hefði ekki tíma til að hitta okkur en þegar hann sá hvers kyns var stoppaði hann og sagði: ,,Ég hef aldrei séð svona áður!" Þá fyrst varð ég vonsvikin því að ég hafði verið svo viss um að hann hefði skýringu og lækningu á þessu. Hann gekk síðan í burtu. Með kveðju.
Draumráðning:
Sæl Aðalheiður og takk fyrir að senda drauminn þinn. Þessi draumur er fyrirboði breytinga á högum ykkar, en hvort staðirnir sem koma við sögu eru táknrænir skal ég ekki segja um. Ég gef mér við ráðninguna að maðurinn hafi ekki kennt sársauka útaf þessum plöntum á kinn og hendi. Eins og ég skynja drauminn þá koma eingöngu jákvæð draumtákn fram. Fyrsta og einfaldasta skýringin væri að draumurinn væri fyrirboði barnsfæðingar, en hér getur þó verið um viðskipti eða atvinnu mannsins að ræða. Sé svo þá skiptir vanginn (kinnin) miklu því hún er merki þess að hann muni yfirstíga einhverja erfiðleika eða vandkvæði af eigin rammleik (höndin). Vöxt plöntunnar, sem er bara græn, tel ég góðs vita því slíkar plöntur eru jafnan heillaboði. Öðru máli hefði gengt hefði rósin verið blómguð á þessum ástíma. Ókunnugt læknishúsið sem þið farið inní getur táknað ákveðin mál sem eru óafgreidd, en jafnframt að tekið verið til hendinni við að leysa þau.
Á heildina litið tel ég drauminn jákvæðan og fyrirboða breytinga af einhverju tagi. Sé draumurinn ekki fyrirboði barnsburðar vil ég segja þér að láta þér ekki bregða þó maðurinn kæmi fram með eitthvað nýtt eða óvænt sem tæki einhvern tíma að sættast við eða meðtaka en yrði síðan til góðs eða vaxtar af einhverju tagi.
Vona að þessi draumráðning hjálpi ykkur eitthvað á braut við að skilja drauminn.
Bestu kveðjur :)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.