Að missa tennur í draumi

Eftirfarandi draumur barst frá:  Agnes (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 30. okt. 2007

Sæl, Ég rakst á þessa síðu á einhverju flakkinu, og langar svo til að prófa að biðja þig að þýða fyrir mig draum, sem mig er búið að dreyma núna 2 nætur í röð. Þannig er það, að ég er stödd í eldhúsi hjá vinkonu minni, við erum að drekka rauðvín. Allt í einu fer ég á klósettið, en þá eru margar tennurnar mínar dottnar úr mér og önnur framtönnin í efri góm er laus, og ég alltaf að tylla henni á réttan stað til þess að stelpurnar taki ekki eftir því. Passa mig á því að brosa ekki breytt, svo tönnin detti ekki úr mér. Með von um svör við þessum draum. Þakka þér kærlega fyrir

Draumráðning

Kæra Agnes. Takk fyrir að senda drauminn þinn. Ég vona bara að ég geti orðið að einhverju liði við að ráða hann. Hefðbundnar gamlar draumskýringar tengdar tönnum tengja þær gjarnan við nánustu ættingja og vini og eru þá jafnvel ákveðnar tennur tengdar börnum og aðrar foreldrum og vinum. Þannig er algengt að túlka það svo að tennur í efri góm séu fyrir karla en í neðri góm fyrir konur. Framtennur eru börn en augntennur foreldrar. Þegar horft er á slíkar skýringar á draumtáknum þá er tannmissir talin boða veikindi eða erfiðleika viðkomandi.

Í þínu tilviki tel ég þó að hér sé miklu fremur um þína sjálfsmynd að ræða. Hvítar og fallegar tennurnar eru tákn heilbrigðis og sjálfstrausts. Það að þú missir tennurnar og felur það fyrir vinkonum þínum segir mér að þú eigir við eitthvert vanmat á eigin getu að stríða eða lendir í einhverjum þeim aðstæðum að þér finnist þú ekki verðug þess sem þig dreymir um.

Mín ráðlegging til þín er að fara yfir þetta í huganum og vita hvort þetta á við rök að styðjast. Ef svo er þá skaltu reyna að efla sjálfstraustið þitt og trú á eigin getu, því enginn er öflugri, viljasterkari eða fallegri en viðkomandi ákveður að vera. Eitthvað segir mér líka að þú hafir enga ástæðu til að efast um eigin getu, útlit eða útgeislun. Vertu þú sjálf og sendu sjálfinu þínu jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir. Það gerir svo mikið gott.

Farðu vel með þig :) og ég sendi þér mínar bestu kveðjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband