12.11.2007 | 23:01
Skrúðaganga
Þessi draumur barst í gestabókina frá: Aðalheiði Haraldsdóttur, mið. 7. nóv. 2007
Sæl enn og aftur! Í nótt dreymdi mig draum sem mér líður afar vel með en það er eitt atvik í honum sem minnir á marga fyrri drauma mína sem ég skil ekki. Draumurinn hófst á því að ég vaknaði upp í stóru og björtu herbergi, það var hátt til lofts, vítt til veggja og gluggar á veggnum sem rúmið var upp við. Á veggnum gegnt rúminu voru dyr á báðum endum og þær voru opnar og sá þá beint út undir bert loft. Ég var stödd á Hornafirði (þar sem ég bjó áður) og mér fannst herbergisdyrnar vísa beint út á aðalgötu bæjarins. Eiginlega var eins og það væri bara þetta eina herbergi í byggingunni sem ég var í og í því var bara stórt rúm og kannski náttborð og slíkt, en ekkert prjál og punt og allir veggir auðir, engar gardínur eða neitt slíkt en mér leið mjög vel þarna. Maðurinn minn kom úr vinnunni og það stóð mikið til. Það var verið að fara að vígja stóra byggingu sem hann hafði verið að vinna við að byggja (auk annarra) og hafði verið að klára sitt á síðustu stundu (þetta stenst hluti sem raunverulega áttu sér stað). Við þurftum að drífa í að gera okkur klár fyrir hátíðina, en mér fannst svolítið óþægilegt að fólk sem gekk framhjá gat séð inn til mín svo að ég fór og lokaði hurðinni (það var næstum því eins og allur veggurinn væri opinn). Samt sem áður var eins og fólk gæti ennþá séð inn um rifu hjá mér. (Það er þetta atriði sem minnir á aðra drauma). Við klæddum okkur og drifum okkur út og það var mikið af fólki á ferli. Það fór skrúðganga eftir götunni, lúðrasveit og fylking hestamanna, þeir voru allir á rauðum eða jörpum hestum og klæddir hvítum buxum, bláum jökkum og með rauð bindi (fánalitirnir). Á eftir þeim kom síðan hópur fólks. Síðan erum við komin að útjaðri bæjarins og þar eru allir stopp, hestamennirnir sitja á hestum sínum og við erum að virða þá fyrir okkur. Þarna er folald, brúnt, sem maðurinn minn er að klappa og það prjónar fyrir framan hann og leggur fæturna á axlirnar á honum. Þarna eru líka tveir nokkuð stálpaðir grísir að hnusa og snöfla við fætur mér og annar þeirra stekkur allt í einu upp á mig eins og hundur. Þá kom að því er virtist eigandi grísanna og tók þá. Við hvorki meiddum okkur, hræddumst né reiddumst þessu uppátæki dýranna. Mig hefur stundum dreymt að ég sé alveg í spreng og þurfi að fara á klósettið á ókunnugum stöðum, t.d. í íþróttahúsi, skóla og slíkum almennum stöðum. Þá gerist það alltaf að það eru engar dyr fyrir klósettunum, þ.e. fyrir litlu klefunum, og jafnvel gluggar sem allt sést inn um. Stundum standa nokkur eða jafnvel fjöldamörg klósett hlið við hlið án þess að nokkrir skilveggir séu á milli þeirra og stundum hafa þau verið utandyra. Oftast eru þau þó í frekar gráu og óaðlaðandi umhverfi. Það er alltaf eitthvað ókunnugt fólk í kringum mig, jafnvel af báðum kynjum, en ég á engra annarra kosta völ en að notfæra mér þessi salerni. Svo vakna ég venjulega upp. Þetta minnir mig á atvikið í draumnum í nótt þar sem allir gátu séð inn í svefnherbergið mitt. Með fyrirfram þökk
Draumráðning:
Sæl Aðalheiður. Ég skal gera mitt besta til að ráða drauminn þinn. Bara svo við byrjum á skrúðgöngunni sem þú notar í titil draumsins þá er hún gott tákn. Almenn draumskýring er sú að það boði mikla tryggð í ástum þess er dreymandinn elskar að horfa á skrúðgöngu. Hestar í draumi eru líka jákvæð draumtákn og eru gjarnan tengdir við auðlegð og velgengni dreymandans.
En snúum okkur þá að þessu sem er sérstakt við drauminn þinn og minnir þig einnig á atvik úr fyrri draumum. Það sem ég tel að sé hér á ferðinni er að þú upplifir eitthvert varnarleysi gangvart því umhverfi/fólki sem þú umgengst. Þetta gæti verið ábending til þín um að efla sjálfstraustið þitt. Herbergið sem þig dreymir er að endurspegla sjálfa þig, hugsanir þínar og mat á eigin tilveru. Dyrnar sem standa opnar segja þér að þú átt val í lífinu og ættir ekki að láta neitt aftra þér í að fara þá leið sem þú telur þína réttu leið.
Boðskapur draumsins er sá að þú þarft að velja leiðina þína sjálf og fylgja vali þínu eftir, trúa á sjálfa þig. Þá bíður hamingjan þín. Þá muntu horfa á skrúðgönguna (upplifa tryggð í ástum) með þeim sem þú elskar mest.
Vona bara að þetta hjálpi þér við að skilja drauminn þinn.
Bestu kveðjur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.