3.12.2007 | 22:11
Fiðrildamaðurinn birtist í draumi
Þessi draumur barst frá: Ásdís Valdimarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), fös. 16. nóv. 2007
hæhæ fann þessa síðu af tilviljun, viltu ráða draum sem mig dreymdi í nótt. Ég var stödd í nýrri íbúð með stórum gluggum og svalahurð sem var með hvítan karm, ég var að loka hurðinni með lykli og vissi ekki hvernig læsingin virkaði. Öll stórfjölskyldan er í íbúðinni og er hinumegin að loka annarri hurð með lykli þá er hvíslað að okkur það þarf að renna lyklinum. Þessi rödd kom að handan og allt í einu fyllist íbúðin af fólki sem er farið. Allir verða skelkaðir og ég hugsa þetta gengur ekki. Þá svífur til mín kona (draugur) og finnst mér hún ætla að drepa mig en ég næ taki á henni og veit alveg hvað ég á að gera til þess að hún fari, svo kemur einn draugur af öðrum nema það stendur stór manneskja við hliðina á mér með svart fiðrildi yfir vinstra auganu og svartur skuggi teygist frá andlitinu þetta er kona með fjólublá sundgleraugu sem eru brotin og ég sé í æðarnar undir húðinni eins og hún hefði drukknað. Hún hvarf og þegar ég ætlaði að safna saman fólkinu mínu og ná því í hring til þess að ná alvöru sambandi við allt þetta látna fólk birtist hún aftur og mér fannst þetta vera fyrirboði hún kynnti sig sem fiðrildamanninn. Veran sat einhvernvegin yfir andliti þessara drukknuðu konu. Ég held marga miðilsfundi í draumi en aldrei þurft að berjast við neinn, ég er skyggn, en mig langar að fá útskýringu ef þú hefur tíma. Takk fyrir mig.
Draumráðning:
Sæl Ásdís og fyrirgefðu hversu seint ég tek við mér. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg að átta mig á því hvort draumurinn þinn beri einhvern boðskap til þín. Sé svo finnst mér þó líklegast að hann eigi við þig sjálfa frekar en einhverja aðra. Það hefur jafnan ekki þótt góðs viti að dreyma drauga í þeim skilningi þó margt jákvætt geti falist í því að dreyma framliðið fólk. Þegar framliðnir koma fyrir í draumum eru þeir oft að minna á sig og minna okkur á að það er eitthvað sem tekur við að þessu lífi loknu. En draugar hafa frekar verið taldir fyrirboðar einverra erfiðleika eða veikinda jafnvel og þá sérstaklega ef dreymandinn fer halloka fyrir þeim í draumi. Í þínu tilviki nærð þú tökum á aðstæðum og getur hrakið þá burt sem segir mér að þú munir sigrast á því mótlæti, hvert svo sem það kann að vera. Meira get ég því miður ekki sagt þér, en vona að þetta verði þér að einhverju liði.
Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.