3.12.2007 | 22:31
Sonur í vandræðum
Þessi draumur barst frá: Katrin Maria Magnusdottir (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 17. nóv. 2007
Sæl Mig langar að fá ráðningu á tveimur óvenjulegum draumum sem mig hefur dreymt síðustu tvær nætur og eiga ýmislegt sameiginlegt.
16. nóvember 2007: Elsti sonur minn (16 ára) hafði tekið eiturlyf og var í mjög ankannalegu ástandi. Hann stóð varla í lappirnar, skjögraði um og gat varla gert sig skiljanlegan en gat þó sagt mér að hann hefði tekið LSD. Ég reyndi að hjálpa honum að standa í lappirnar og reyndi að fá hann til að leggjast í sófa. Síðan var ég að reyna að hringja á neyðarlínuna, en tókst ekki, ekkert samband eða síminn virkaði ekki einhvern vegin. Á gólfinu var marglitt kurl, eins og glimmer eða glansskraut og ég fattaði allt í einu að þetta væru eiturlyfin. Þegar ég ætlaði að sópa því saman til að afhenda lækni þá var maðurinn minn búinn að sópa því upp og henda. Ég varð reið við hann, hundskammaði hann og skipaði honum að ná í þetta aftur.
17. nóvember 2007: Elsti sonur minn (sami og í fyrri draumi) var dáinn. Hann lá heima hjá okkur vafinn í svartan ruslapoka með mjótt reipi um hálsinn. Hann var búinn að liggja heima hjá okkur í viku og ég ákvað að ég yrði að koma honum í líkkistu sem var þarna og það yrði að jarða hann. Ég átti erfitt með að ráða við að bera hann yfir í líkkistuna þar sem hann er stærri og þyngri en ég og þegar ég fór að bisa við það fór hann að hreyfa sig. Hann kipptist við og kreppti sig saman. Ég tók pokana utan af honum og þá kom í ljós að hann var lifandi, hann leit samt út eins út eins og lík með helbláar varir. Hann opnaði augun og hreyfði sig meira og fékk eðlilegan lit í varirnar. Ég varð svo himinlifandi að ég hljóp út og hljóp um nágrennið og inn í garða nágrananna og alveg við eitt húsið. Maðurinn minn horfði á mig og sagði að ég mætti ekki fara þarna, en ég sagði að ég færi samt. Hann horfði á mig með kjánabrosi og skammaðist sín fyrir hvað ég var að gera og ég varð svo reið við hann fyrir að vera að hugsa um svona smámuni á stundu sem þessari þegar sonur okkar hafði verið heimtur úr helju. kveðja Kata
Draumráðning:
Sæl Katrín María og fyrirgefðu hve langan tíma þetta hefur tekið. Þó svo þessir draumar þínir báðir geti virkað ógnvænlegir þá tel ég ekki að þeir séu að boða veikindi né feigð eins og í draumunum. Þessi vandræði sonarins gætu þó bent til þess að einhver reyni að misnota hann eða svíkja á einhvern hátt og þá helst fjárhagslega. Reiði þín í garð mannsins þíns er bara að undirstrika traust hans í þinn garð. Hér getur þó verið vísbending einnig um að þér finnist hann smámunasamur í þinn garð í vöku. Ég tel því ekki neina ástæðu fyrir þig að óttast þessa drauma en ráðlegging til drengsins þíns væri bara að fara varlega í sínum félagahóp og þá sérstaklega ef um fjármuni er að ræða.
Vona bara að þetta komi þér að einhverju gagni.
Bestu kveðjur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.