Þrír draumar

Þessi draumur barst frá: Sigfríður Steingrímsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 8. des. 2007

Sæll draumaráðandi, mig langar að vita hvort hægt er að ráða eitthvað í þessa drauma.

Mér fannst ég vera sofandi og vakna við það að það er verið að laga ofan á mér sængina. Ég lít upp og horfi framan í eldri mann sem ég kannaðist ekkert við, hann brosir til mín strýkur mér um vangann með hlýrri en frekar hrjúfri hendi, beygir sig niður að mér og kyssir mig á ennið og hverfur síðan.

Draumur 2. Mér finnst ég vera stödd í litlu þröngu og frekar gömlu eldhúsi. Þá kemur inn sami maður og í fyrri draumnum, réttir mér höndina og leiðir mig út á að mér fannst smá stétt eða hellu fyrir framan útidyrnar, bendir mér á lítinn blikk bala sem í eru 2 silungar annar feitur og vænn en hinn lítill og hreistrið matt, og ég hugsaði með mér að hann hlyti að hafa verið dauður í neti. Beygi mig niður og skoða í tálknin og sé þá að þau eru bleik svo hann hefur verið lifandi þegar hann var veiddur. Þegar ég legg hann frá mér í balann aftur er hann orðinn gljáandi og fallegur Allt í einu tek ég eftir lítilli og frekar vesældarlegri þrílitri fjólu sem vex upp með stéttinni og aðeins utar sé ég breiðu af gleym mér ey.

Draumur 3. Enn dreymir mig að ég sé í sama eldhúsi og horfi út um glugga og sé þá sama mann sitja á stéttinni fyrir framan húsið. Ég labba til hans. Hann lítur á mig og brosir til mín tekur í höndina á mér og lætur mig setjast hjá sér, bendir mér á þrílitu fjóluna, sem mér finnst vera fölnuð og líf lítil, tekur hana svo upp og leggur í lófann á mér og lætur mig kreppa fingurna laust utan um hana smá stund, réttir svo úr hendinni á mér og brosir, þar liggur fjólan falleg og eins og ný útsprunginn, hann faðmar mig, stendur síðan upp og gengur inn í húsið. Gaman væri að fá að vita hvað er verið að segja mér eða sýna mér. Ég hef grun um hver þessi maður er því vinur minn þekkti hann af lýsingu minni. Kveðja Sigfríður Steingrímsdóttir

Draumráðning:

Kæra Sigfríður. Takk fyrir að senda mér draumana þína sem mér er sönn ánægja að ráða í, því það er ekki á hverjum degi sem maður fær svona yndislega og táknræna drauma að eiga við. Þetta eru draumar sem hver manneskja ætti að óska sér að fá að dreyma. Draumarnir þínir eru fyrst og fremst að segja þér hve miklu þú getur ráðið um líf þitt og hamingju og jafnframt að góðir hlutir bíða þín ef þú ein leifir þér. Hver svo sem þessi maður er, lífs eða liðinn, þá er hann að koma fyrir í draumum þínum sem fulltrúi leiðbeinenda þinna og verndara og er að sýna þér að þú hefur mikla vernd og jafnframt að þú býrð yfir eiginleikanum til að heila bæði líf þitt og annarra.

Bæði fjólan sem þú gefur líf og fiskarnir eru afar táknræn. Fjólan sem lifnar við er hrein vísbending þess að þú getir sjálf glætt líf þitt þeirri hamingju og ást sem þú þráir, en fjólan er boðberi þess að þú eigi enga óvini og að sú ást sem þú þráir verði endurgoldin. Fiskarnir minna þig á þessa hæfileika þína einnig og eru tákn trúar og samsvörun við tilfinningalíf þitt í vöku.

Ég endurtek því að þessir draumar þínir eru hreint yndislegir og eru að minna þig á mátt þinn og getu og þína andlegu hæfileika og mátt til að glæða líf þitt þeirri hamingju og frið sem þú ein óskar.

Bestu kveðjur og óska þér alls góðs :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæri draumaráðandi,hjartans þakkir fyrir að ráða draumana mína,þeir voru búnir að valda mér þó nokkrum heilabrotum.Bestu jóla óskir,kveðja Sigfríður Steingrímsdóttir

Sigfríður Steingrímsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband