18.2.2008 | 23:11
Bráðvantar svar við draumi
Þessi draumur barst frá: Heiða (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 18. feb. 2008
Ég. maðurinn minn og yngsta barnið mitt erum stödd í fögnuði í húsi sem vinafólk okkar á (þau eiga samt ekki heima þar í rauninni). Þetta hús þeirra var þannig staðsett að ég sá húsið mitt út úr glugganum hjá þeim. Nema hvað að ég horfi þarna út um gluggann og sé risastóran hvítan ísbjörn og dökkbrúnan skógarbjörn í götunni minni. Skógarbjörninn tekur á rás í átt þar sem við vorum. Ég hleyp inn í herbergi með barnið mitt og heyri að björninn er mjög nálægt og hann var greinilega að ganga á pallinum í kringum húsið (þetta hús minnti frekar á sumarbústað en hús). Eftir stuttan tíma þá veltir björninn húsinu um koll. Enginn slasast og björninn fer aftur í götuna mína þar sem ísbjörninn beið hans. Ég er yfir mig hrifin af fegurð dýranna og er að ræða við vinkonu mína hversu fallegir birnirnir voru. Allt í einu sé ég að það er opin svalahurðin heima hjá mér og brotin gluggi. Ég fer að ræða við manninn minn og vinkonu að greinilegt væri að birnirnir hefðu komist inn í húsið mitt. Við leggjum af stað heim (þetta var húsið mitt og gatan mín í raunveruleikanum) og þá er allt í rúst inni. Ég sest bara niður og grenja úr mér augun en þá sé ég að það var ekkert skemmt. Það var einhvernvegin bara búið að henda öllu til og frá. Nágranni minn kemur og segist hafa séð mann sem heitir Garðar inni hjá mér að rústa. Hún hefði þekkt hann þar sem hann var ber að ofan með stórt gult tattú á bakinu. Svo vaknaði ég. Tek það samt fram að ég var óskaplega hrifin af fegurð bjarnanna og var ekki hrædd við þá. Þegar skógarbjörninn velti húsinu þá fannst mér hann ekki hafa verið að gera það til að ná til mín heldur bara frekar rekist í það. Kæru draumráðendur vonandi getið þið eitthvað ráðið í þetta fyrir mig. Fyrirfram þakkir.
Draumráðning:
Sæl Heiða. Ég skal reyna að ráða í drauminn þinn, þó svo ég verði að viðurkenna að ég sé ekki alveg viss því ákveðnar andstæður birtast í draumnum og þá sérstaklega þar sem birnirnir ólíku birtast saman, ísbjörninn og skógarbjörninn. Ísbjörninn hefur gjarnan verið talinn fyrirboði þess að einhver mikilsmetinn heimsæki eða komi inní líf dreymandans meðan skógarbjörninn er frekar að vísa til þess að dreymandinn eigi eða þurfi að takast á við einhvern óvildarmann. Hér skiptir þó tilfinning þín í draumnum fyrir dýrunum miklu máli og veit það á gott að þú óttast ekki dýrin eða færð þá tilfinningu að þau ætli að gera þér mein. Mér finnst flest benda til að þessi draumur þinn snúist um þína tilveru, sjálfsmynd þína og samskipti við þína nánustu. Hús í draumum eru oftast að lýsa dreymandanum sjálfum, líðan og viðfangsefnum. Ókunnuga húsið bendir til nýrra verkefna/viðfangsefna sem þú munt takast á við en eitthvað mun þar koma uppá sem verður til þess að plön þín fara á annan veg en þú ætlaðir í upphafi. Mér er það ljóst að þar koma upp einhverjar óvæntar hindranir. Maðurinn Gestur í draumnum er staðfesting þess. Á hinn bóginn fer allt vel þó þér finnist líf þitt allt í molum þegar þú lendir í þessu (allt í óreiðu á þínu heimili, en þó óskemmt þegar betur er að gáð). Hvað þetta er sem þú munt ganga í gengum sé ég ekki, en mér er þó ljóst að það mun reyna talsvert á þig meðan það gengur yfir, en eftir stendur að allt fer vel þegar yfir líkur. Til að það sé á hreinu þá skynja ég engar hættur hér hvorki gagnvart þér eða fólkinu þínu, miklu fremur viðfangsefni sem taka ofurlítið á meðan þú ert að meðtaka að ekki er allt gull sem glóir.
Vona að ég komi þér eitthvað á sporið með þessu, sem ég vil frekar kalla vangaveltur og leiðsögn en ákveðna ráðningu á draumnum þínum. Ég trúi því líka að þú munir ná að lesa betur í drauminn þinn sjálf þegar þú hefur lesið þetta og áttir þig þegar hlutirnir fara að birtast þér, hverjir svo sem þeir eru nákvæmlega. Vertu þá á varðbergi gagnvart þeim sem birtast nýir og ætla að gleypa þig í einum bita ef svo má að orði komast. Taktu líka vel eftir draumunum þínum áfram því undirvitundin er klók og heldur áfram að senda boð og þá oft með hreinni svör við ákveðnum spurningum sem þú ert með í huga sjálf. Ef þú leggur þig eftir því þá geturðu beðið um svör gegnum draumana þína.
Bestu kveðjur og endilega sendu mér skammir ef þér finnst þetta ekki passa við þínar tilfinningar fyrir draumnum :)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.