14.5.2007 | 22:30
Að verða geggjuð
Þessi draumur barst í gestabók bloggsins
Að verða geggjuð
Ég held ég hafi aldrei vaknað og liðið svona illa/skringilega. Upp á síðkastið get ég ekki lagst til svefns nema dreyma framhjáhald. Mig dreymir að ég sé að halda framhjá kærastanum mínum en málið er að mér líður svo illa í draumnum því ég vil ekki halda framhjá honum og ég er alltaf að fá taugaáfall í hvert skipti sem ég er við það að vakna, og mér líður illa alveg soldið eftir að ég vakna.. en ég hef nákvæmlega enga löngun til að halda framhjá kærastanum, er mjög ánægð með hann og sambandið. Ég yrði virkilega þakklát ef ég gæti fengið einhver svör...Takk. kv ráðalaus
Draumráðning:
Hér er svolítið spurning um hvort þú hafir í draumnum verið að falla í freysni eða eins og þú lýsir að þetta sé gegn þínum vilja og ósk. Það að falla í freysni og halda framhjá í draumi getur verið fyrirboði einhverra deilna sem viðkomandi lendir í. Draumar um framhjáhald tákna þó oftast það gagnstæða, sérstaklega ef mann dreymir að haldi sé framhjá manni sjálfum. Það boðar velgengni hvort heldur er í ástamálum eða öðru sem viðkomandi er ofarlega í huga.
Auk þess að vera fyrirboði einhvers geta draumar líka einfaldlega verið úrvinnsla á hugsunum eða áhyggjum sem hvíla á dreymandanum. Þú ættir því að spyrja þig hvort þetta sé eitthvað sem þú óttast að geti gerst eða gæti verið gert á þinn hlut. Ef þú ferð yfir það í huganum er líklegt að þú gerir upp þessa drauma einnig séu þeir slík ábending.
Þar sem þú ert hamingjusöm og ánægð í sambandinu er þó ekki líklegt að þessir draumar hafi með framhjáhald í eiginlegum skilningi að gera. Vertu frekar viðbúin því að þú gætir lent í einhverjum erjum eða deilum þar sem þú þarft að sýna stillingu og taka á hlutunum af skynsemi og með ró í huga.
Vona að þetta verði að einhverju gagni. Þætti vænt um að sjá komment til baka um hvort þetta opnar þér einhverja sýn og hvort draumarnir haldi áfram.
Bestu kveðjur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.