Skipstjórinn

Þessi draumur barst í gestabókina frá: Sigríði Sigurðardóttur, fös. 29. júní 2007

Skipstjórinn.

Dreymdi snemma í vor, að ég væri orðin atvinnulaus. Þar sem hásumar var og blíðviðri ákvað ég að aka niður að Reykjavíkurhöfn, ganga og hugsa mitt ráð. Kemur þar útgerðarmaður aðvífandi, þar sem ég stend og horfi út á himinbláan og sléttan sjóinn. Skiptir engum togum, að hann býður mér skipstjórastarf á 120 tonna bát, sem ég þigg. Áhöfnin stendur klár, svo ég dríf mig bara á sjó med det samme. Á tveimur tímum er ég búin að fylla bátinn af fiski, svo flæðir upp úr öllum lestum, og stór hrúga er uppi á þilfari líka. Ég sigli í land og landa upp öllu saman, og skelli mér í aðra ferð út á Faxaflóann með áhöfninni. Aftur kem ég með drekkhlaðinn bát inn til löndunar. Útgerðarmaðurinn að vonum ánægður með mig, og segir að nú sé nóg komið fyrir daginn, þar sem klukkan sé orðin fimm um eftirmiðdag. Í því kemur sambýlismaður minn, og spyr hvað ég sé að brasa. Ég segi honum að ég hafi ráðið mig sem skipstjóra, og sé búin að fara tvo veiðitúra. Veiddirðu nokkuð, spyr minn maður. Ég sýni honum drekkhlaðinn bátinn sem er verið að byrja að landa úr. Hann tekur nokkra fiska og fer að raða þeim og flokka eftir sortum ofan á bretti á bryggjunni. Þar eru 4 stórir "Túnfiskar" sem búið er að gera að (, hauslausir,ekkert blóð eða slor sjáanlegt), skrautlegir stórir suðrænir fiskar (6-8 stk.) og svo 2 furðulegir sandgulir fiskar sem líta út eins og úlfaldar. Honum finnst þetta ágæt veiði, og spyr hvort þetta sé allur aflinn. Ég bendi honum á stóran vörubíl með 30 full fiskikör á pallinum, og segi þetta vera aflann úr fyrri ferðinni. Útgerðarmaður kemur, og segir að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af lönduninni, hann sjái um hana, en minnir mig á að mæta aftur til starfa daginn eftir. Vakna. Hef aldrei verið atvinnulaus, frá 13 ára aldri, er í ágætu starfi, er alin upp í sjávarþorpi, en hef aldrei starfað á sjó, enda með afbrigðum sjóveik. Kveðja, Sigga S.

Draumráðning:

Sæl Sigríður og takk fyrir að senda drauminn þinn sem er hlaðinn af draumtáknum og einkar athyglisverður. Ég tel þennan draum þinn hafa tvíþætta merkingu, annarsvegar skýr tákn sem segja hvers er að vænta hjá þér og hinsvegar er draumurinn í heild eins og stöðumat á þinni líðan og samskiptum þínum við þína nánustu.

En byrjum á draumtáknunum, því þau eru fjölmörg sem ástæða er til að staldra við:
1) Atvinnulaus
2) Veður: sumar og blíðviðri
3) Boðin vinna sem skipstjóri
4) Aflar vel
5) Útgerðarmaðurinn ánægður, hrós
6) Sambýlismaðurinn efast um getu þína
7) Fiskur, veiði
8) Túnfiskur og furðufiskarnir gulu

Atvinnuleysi í draumi veit á annríki í vöku og frami og gæfa eru gjarnan tengd við það að dreyma skipstjóra, þó geta komið hindranir á leið dreymandans sem fyrst þarf að sigrast á. Sumar er fyrir góðu og það að veiða fisk veit á velgengni. Mikið af fiski getur einnig verið fyrirboði góðrar heilsu. Skip og það að sigla getur verið mjög táknrænt og er oft tengt lífi og lífsgöngu dreymandans, en að þú siglir hér í blíðviðri er góðs viti og bendir einnig til að fjármál þín verði óvænt betri en þau hafa verið. Það að vera hrósað í draumi er hins vegar ekki alltaf jafn jákvætt því það að ókunnugur maður hrósar þér getur verið fyrirboði  afbrýðissemi frá ástvini sérstaklega ef þú veitir einhverjum mikla athygli. Getur jafnvel bent til þess að ástvinur yfirgefi dreymandann. Hér koma þó fyrir draumtákn með andstæðar merkingar því það að þú veiðir mikinn fisk er fyrirboði velgengni bæði í ástum og viðskiptum. Þú finnur vafalaust sjálf hér hvað á við í þínu tilviki. Það að sambýlismaður þinn hefur efasemdir um getu þína til að veiða getur bæði táknað að þú sért ekki metin að verðleikum, að hann trúi ekki á þig, en einnig getur þetta bara átt við sjálfsálit þitt, að þú hafir vissa minnimáttarkennd gagnvart þér sjálfri og búist ekki við að hann trúi á þig og bakki uppi í því sem býður þín. Það að þig dreymir Túnfisk bendir til að þú þurfir að vinna úr einhverri lífsreynslu til að öðlast meiri færni eða lífsfyllingu og gulu skrítnu fiskarnir tveir geta bent til nýjunga/verkefna þar sem greind þín og andleg hugsun eru lykillinn að lausn málanna.

Ef við tökum nú drauminn þinn í heild Sigríður þá tel ég hann jákvæðan fyrir þig og sé fyrirboði þess að þér muni ganga vel og eigir frama sem kannski ekki allir hafa ætlað þér. Sálarlíf þitt í vöku virðist gott og þú virðist vita hvert þú ætlar þér (siglir í blíðviðri), en einnig er ljóst að þú munt þurfa að takast á við hindranir til að ná markmiðum þínum. Ég ráðlegg þér að skoða hvort sjálfsmynd þín sé eitthvað brotin, það er hvort þú hafir ekki fulla trú á getu þína, því ef svo er þá þarftu að vinna bug á því til að ná þeim árangri og velgengni sem býður þín augljóslega. Draumurinn gefur mér einnig þá tilfinningu að maki þinn sé ekki að bakka þig að fullu uppi og gæti fjarlægst þig ef ekkert er að gert þegar þú mætir velgengni þinni. Vonandi er þetta bara ábending um hluti sem auðvelt er að sneyða hjá ef málin eru rædd. Í heild er draumurinn þinn mjög jákvæður og veit á velgengni hjá þér bæði í fjármálum, atvinnu og ástum, en eins og ávallt fer enginn þá leið án þess að leggja eitthvað að mörkum, yfirstíga hindranir á leið til þroska.

Vona að þessi skýring mín hjálpi þér og ég óska þér alls góðs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Hafðu þökk fyrir góða ráðningu.  Mér þykir höfundur snjall að ráða í draumatákn, og vil gjarnan fá að eiga höfund að, ef fleiri merka drauma ber að mínum hugarskotum næturlangt.  Er alltaf að dreyma en mismerkilega þó.

  Kveðja S.

Sigríður Sigurðardóttir, 2.7.2007 kl. 22:40

2 Smámynd: Draumar

Gott að heyra að þér líkar ráðningin. Gæti alveg þegið að fleiri sem hafa sent mér drauma kvittuðu fyrir eftir að hafa lesið ráðninguna og leifðu mér að heyra hvort hún kæmi að einhverju gagni :)
Ég lofa engu Sigríður, en ég skal alltaf reyna ef þú sendir fleiri drauma.

Draumar, 2.7.2007 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband