1.8.2007 | 22:25
Draumur Draumhildar
Eftirfarandi draumur barst frá: Draumhildur (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 31. júlí 2007
Hæ hæ væri alveg til í að fá smá útskýringu á draum sem að mig dreymdi í nótt. Man ekki mikið úr honum en það situr svo fast í mér það sem að ég man. Það sem að ég man er það að ég er inni í húsi og er að passa litla stelpu, eignlega bara ungabarn með bleyju. Það sem að situr svo fast í mér er að ég er að leggja hana í rimlarúmið sitt og er svona bara að spjalla við hana. Spyr hana hvort að ég þurfi að skipta á henni áður en hún fer að sofa en hún brosir bara og segir nei. Ég að sjálfsögðu kíki á bleyjuna og þá er hún bara stútfull af kúk eiginlega bara upp á bak. Þetta gerist 4 sinnum áður en ég næ að leggja hana niður og hún fer að sofa. Það skrítna við þetta er að mér finnst eins og að ég sé að passa sjálfa mig ! Man að ég er í húsi þar sem að allt er svona eiginlega ekki beint í drasli eða mjög skítugt, en svona hálf klárað eða hálf druslulegt. Leið ekkert svaðalega vel þarna inni og fannst eins og ég ætti að vera að taka til eða gera eitthvað meira þarna. Kannski er þetta ekki neitt en allavega situr rosalega fast í mér og ákvað að láta á þetta reyna. Annars bara takk fyrir mig og vona að þú hafir notið frísins :)
Draumráðning:
Sæl Draumhildur og takk fyrir að senda þennan áhugaverða draum þinn á draumabloggið mitt :)
Þessi draumur þinn fjallar um þig sjálfa og þína líðan í dag og er ábending um ákveðna hluti sem þú átt óuppgerða gagnvart bernsku þinni. Húsið í draumnum er táknrænt fyrir þig sjálfa og það að þú ert að annast sjálfa þig í draumnum sem barn er fyrir mér klár vísbending þess að þú sért enn að vinna með einhver særindi eða mótlæti frá bernskunni í undirvitund þinni. Ég skynja ákveðna þrá hjá þér eftir áhyggjulausu lífi bernskunnar um leið og einhver særindi eru að hindra þig í að njóta þín. Þú gætir verið að upplifa einhver vonbrigði eða jafnvel deilur eða einhvern ósigur sem tengist vali þínu og hindrar þig í að njóta þín og efla sjálfsmat þitt og sjálfstraust nú.
Draumurinn er þér hins vegar afar jákvæður og boðar betri tíma um leið og þú hefur hlúð að þessum tilfinningum og sæst við og gert upp þessi særindi frá bernskunni. Allur kúkurinn (þegar þú hlúir að þér sem barni) er fyrirboði góðra hluta, bæði velgengni og ágóða af einhverju tagi. Draumurinn segir mér einnig að þú hafir ekki verið að njóta þín sem skildi og nýta þína einstöku hæfileika til fulls vegna ákveðins vanmats á eigin gæði og getu.
Þar sem ég veit ekki hvað það er sem er að hindra þig frá fullkominni hamingju og lífsgleði nú, eða hvað það er frá bernskunni sem er undirrót þess og e.t.v. ástæða fyrir vali þínu bið ég þig að fara vel yfir þetta hvort tveggja í huganum. Þá trúi ég að þú finnir brautina þína sem bíður stráð gulli og hamingju. Um leið finnur þú sjálfsmyndina þína verða heila og sjálfstraustið koma sem þarf til að þú veljir hlutina þína inní framtíðina, því fyrir mér er alveg klárt að góðir hlutir bíða þín um leið og þú sjálf ert tilbúin að taka við þeim.
Bestu kveðjur og vona að þér gangi sem allra best, því enginn getur hindrað þig frá að ná þeim árangri nema þú sjálf ef þú ekki trúir á eigin getu og að þú eigir hamingju og velgengni skilið.
Athugasemdir
p.s. takk Draumhildur, ég naut frísins :)
Mér þætti afar vænt um að fá "komment" frá þér til baka þegar þú hefur lesið þessa draumskýringu mína, því fyrir mér er þessi draumur mjög leiðbeinandi, en enginn nema þú getur þó átt rétta svarið við því :) :)
Draumar, 1.8.2007 kl. 22:34
Sæl og takk kærlega fyrir mig Það var alveg rétt hjá þér með þetta með bernskuna. Er enn að vinna í að klára ókláraða hluti síðan í bernsku. Ætla nú ekki að fara neitt út í það hér hvað það var annað en það að ég var alin upp á drykkjuheimili og þurfti að sjá um mig og systkini mín þar sem að ég er elst. Það eru komin núna 3 ár síðan að ég skildi við barnsföður minn. Það samband var mér mikil kennsla. Barnsfaðir minn var mjög stórnsamur og hélt mér mikið niðri. Þegar við skildum var það í góðu og gert af mínu frumkvæði, jafnvel þó svo að ég hafi verið mjög smeik við það þá að fara að standa á mínum eigin fótum. Allavegana þá er starfsframi minn í góðum málum og hef ég sjaldan eða aldrei verið jafn ákveðin og ánægð með sjálfa mig eins og núna. Það er gaman að sjá að þú skulir skrifa að góðir hlutir bíði mín og meiri hamingja. En það er svo skrítið hvað með getur verið mikill snillingur í því að tefja hreinlega fyrir sér... er mikið að reyna að vinna í sjálfri mér þessa dagana og að reyna að sættast við hlutina eins og þeir eru. Maður á alltaf að gera gott úr því sem að maður er með í höndunum. Ég eyði ekki miklum tíma í velta mér upp úr hlutunum og reyni að lifa lifinu lifandi. Held svona eftir á að hyggja að þessi 4 NEI í draumnum séu bernskan og svo þessi 3 sambönd sem að ég hef verið í síðastliðin 16 ár. Held áfram að vinna í mér og að reyna að sættast við það sem að búið er.
Enn og aftur takk fyrir mig kærlega
Kveðja Draumhildur
Draumhildur (IP-tala skráð) 3.8.2007 kl. 16:52
Sæl Draumhildur og takk fyrir svarið þitt.
Það gleður mig ef ég hef orðið þér að einhverju liði með drauminn. Ég er frekar orðvar þegar ég ræð drauma , en ég hvet þig eindregið til að leifa þér að sleppa þessum sárindum bernskunnar því það er svo augljóst eins og ég nefndi að góðir hlutir og hamingja bíða þín. Fyrst þegar þú ert sátt við sjálfa þig og tilbúin að taka á móti af alhug þá gerast hlutirnir. Það er svo skrítið með okkur mannfólkið að ef við erum vön einhverju misjöfnu (t.d. slæmri reynslu á unga aldri) þá sækjum við ósjálfrátt í svipaða hluti (fólk, aðstæður) því þar höldum við að öryggið sé að finna, við einfaldlega þekkjum ekki annað og erum treg að trúa að það góða sé raunverulegt þegar það birtist. Óska þér alls hins besta því ég veit það er handan hornsins :) Mundu svo að það er mikilvægast fyrir þig að sættast við sjálfa þig, þá fyrst veistu hvort þú villt sættast við hlutina þína eins og þeir eru eða skapa sjálf þær breytingar sem færa þér velgengnina og hamingju.
Kveðja Draumar
Draumar, 3.8.2007 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.