Septemberdraumar

Eftirfarandi draumur barst frá: Dramadraumakona (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 24. sept. 2007

Sæl vertu, hef verið að velta fyrir mér mjög skýrum aðstæðum sem ég upplifði í draumi í nótt. Annars vegar var ég að borða mjög ljúffenga pizzu þegar ég fann eitthvað skringilegt bragð eða réttara sagt áferð á pizzunni. Í ljós kom að ég var að borða hár, mannshár - eiginlega heila lúku af hári með pizzunni. Hins vegar lá ég inni á læknastofu þar sem læknirinn var að sannfæra mig um að ég væri ófrísk (var eins og ég væri ekki alveg klár á því sjálf) og að það þyrfti að setja af stað fæðingu. Ég lá uppi á bekk og læknirinn stóð við endann á bekknum og skar smá flipa af stórutánni á mér. Það var vont (sá ekki blóð samt) og svo saumaði hann sárið saman. Skýring læknisins, sem var mjög glaðlegur, var sú að hann hefði gert þetta til þess að koma fæðingunni af stað. Það sem var svo skrýtið við þetta var að ég fann fyrir verkjum, einhvers konar tíðaverkjum (hef ekki eignast barn þannig að ég veit ekki hvernig hríðarverkir eru) og var mjög meðvituð um að nú ætti ég að fara að eignast barn. Þá vaknaði ég.

Draumráðning:

Sæl dramadraumakona og takk fyrir að senda drauminn þinn. Þessi draumur þinn er ekki alveg hefðbundinn draumur ef svo má segja og getur virkað ofurlítið ruglingslegur við fyrstu sýn. 

Sértu á barneignaraldri getur þessi draumur þinn þó einfaldlega verið fyrirboði barneigna, en líklegra finnst mér þó að hér sé verið að hvetja þig til að hrinda í framkvæmd einhverri hugmynd sem þú geymir innra með þér en hefur ekki haft þor til að hrinda í framkvæmd eða nægjanlega trú á eigin getu til þess. Sé svo þá eru í draumnum vísbendingar um að þú eigir að gera það og jafnframt að það muni fara vel, en þar koma bæði hárið og læknirinn við sögu. Framkvæmdin verður þó ekki alveg fyrirhafnar laus þó vel gangi.

Þar sem ég get ekki gefið þér skýrara svar hvet ég þig til að fara yfir það í huganum hvort þú alir með þér einhvern draum eða hugmynd sem þig hefur langað að láta verða að veruleika. Þegar þú gerir það trúi ég að þú fáir svörin sjálf við þessum draumi.

Bestu kveðjur :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir ráðninguna.  Ég gerði mér alveg grein fyrir því að þetta hljómaði ruglingslega en einhverra hluta mundi ég þetta svo greinilega og verkjatilfinningin var svo skrýtin...   Alla vega ráðningin á vel við.  Hugmyndin mín er þarna ...   það er fyrirhöfnin sem hefur stoppað hana af hvað varðar framkvæmd.  Ágætt að sjá að sú tilfinning mín kemur fram í ráðningunni þinni en betra að allt fari vel þrátt fyrir það.  Við höfum það að markmiði alla vega :-)

Ástarþakkir aftur og bestu kveðjur.

Dramadraumakona (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 20:32

2 Smámynd: Draumar

Gott að heyra og takk fyrir að kvitta fyrir því það er svo notarlegt að heyra þegar þetta gagnast eitthvað.

Gangi þér allt í haginn :)

Draumar, 30.9.2007 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband