Óstöðvandi blæðingar

Eftirfarandi draumur barst í gestabókina frá:
Bryndís Jónsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 9. okt. 2007

Sæl. Í leit að útskýringum við draumi mínum fann ég þessa síðu. Ég fann mikið talað um blóð og blóðmissi en ekkert sem ég get tengt beint við drauminn minn. Þetta eru tveir draumar en sama nóttin. Ég vaknaði á milli með óhug. Sá fyrri er stuttur og sat ég heima hjá mér með manninum mínum. Allt í einu finnst mér eins og hafi pissað á mig og stend upp. Sé þá dökkan lit birtast í gegnum buxurnar og hleyp á klósettið. Þetta voru óstöðvandi blæðingar og hamaðist ég við að setja ný dömubindi en ekkert dugði. Liturinn var dökkur í stað þess að vera mjög rauður. Ekkert gekk við að stöðva eða hemja blæðingarnar. Við þetta vakna ég og fer á fætur og næ úr mér hrollinum. Legg mig svo og sofna aftur. Þá kemur draumur nr.2. Ég og maðurinn minn erum í heimsókn hjá þekktum fótboltakappa ( sem við í rauninni þekkjum ekki neitt) og er þar lítill hópur af fólki. Maðurinn minn er í miklu stuði og allir að undirbúa að fara út á lífið. Ég er hljóðlát og læt lítið fyrir mér fara. Leið illa á staðnum og fann fyrir pirringi varðandi eiginmanninum. Þegar ég nefni við hann að mig langi ekkert út á djamm segir hann að það sé ekkert mál. Ég geti bara beðið þarna eftir honum á meðan hann fer út. Við það kemur vindgusa og feykir pilsinu mínu upp og þegar ég lít niður sé ég að það byrjar að blæða. Ég er sár og reið út í manninn minn og horfi á eftir honum fara. Ég hefði ekki tengt þessa tvo ef ekki hefði verið vegna blæðinganna. Eru tíðarblæðingar flokkaðar undir sama hatt og annar blóðmissir eða gæti þetta haft allt aðra þýðingu? Með von um ráðningu. Bryndís

Draumráðning:

Kæra Bryndís. Ég get því miður ekki sagt við þig að þessar blæðingar séu góðs viti, þó ég vilji ekki vekja þér óhug á nokkurn hátt. Að það blæði úr dreymandanum sjálfum dökku blóði er því miður oftast fyrir erfiðleikum, vinamissi eða jafnvel fráfalli einhvers nákomins. Óánægja í draumi veit þó oftast á ánægju í vöku og því vil ég ekki ætla að þáttur mannsins þíns í draumnum sé neitt neikvæður. Þess ber þó að geta að aðkoma fótboltakappans gæti verið vísbending um eitthvert umtal eða neikvæðar sögur sem þú yrðir fyrir eða upplifðir gagnvart manninum þínum.
Varðandi tíðablæðingarnar þá skiptir miklu í hvaða samhengi þær koma, en þær sem slíkar geta bara verið að undirstrika tímamót, endi á einhverju eða upphaf annars. Þannig að hafir þú upplifað þetta sem slíkar blæðingar gæti þetta átt við einhver þáttaskil í lífi þínu frekar en erfiðleika eða feigðarboða eins og ég nefndi í upphafi.

Ég veit ekki hvort þú ert einhverju nær um drauminn þinn, en ég hvet þig til að hugleiða hvað leitar á huga þinn þegar þú rifjar upp drauminn, því sú tilfinning sem sækir á dreymandann er oftast nær sú sem gefur bestu draumráðninguna.

Óska þér alls hins besta og farðu vel með þig :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og takk fyrir ráðningu.

Gerði mér nú grein fyrir að draumur þessi væri ekki uppfullur af góðum tíðindum

Ég ætla að fara eftir ráði þínu og hugsa drauminn minn aðeins og skoða þá þær tilfinningar sem koma upp. Við fyrstu hugsun er það bara óhugur.  Ég hef verið undir miklu vinnuálagi og ég upplifi óvenjulega mikla þreytu. Eitt af því sem ég gerði í kjölfar draumsins var að panta tíma hjá lækni fyrir allsherjar skoðun!

Ég er alla vega vakandi fyrir og kannski undirbúnari fyrir það sem koma skal, illt eða gott, eftir lesturinn.

Takk fyrir að gefa þér tíma fyrir drauminn minn. Ég kannski sendi þér skilaboð ef eitthvað gerist á næstunni sem skýrir þennan draum.

Með kveðju og þakklæti,

Bryndís

Bryndís (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 13:02

2 Smámynd: Draumar

Sæl Bryndís og takk fyrir að láta heyra frá þér aftur.

Mér segir svo hugur að þú sért þegar búin að meðtaka mikilvægustu skilaboð draumsins til þín, þ.e. að huga að heilsu þinni og á ég þá fyrst og fremst við að þú hægir ferðina og gefir líkamanum færi á að finna sitt jafnvægi og styrk.

Sterkur leikur hjá þér að fara til læknis, því ef allt er í lagi sem ég trúi, þá léttir þú af þér áhyggjum óvissunnar og getur snúið þér að því að hvíla þig og byggja upp.

Mér þætti mjög vænt um að heyra frá þér aftur hvernig hlutirnir þróast, því það hjálpar mér líka að öðlast meiri skilning á því sem ég skynjaði varðandi drauminn þinn og gerir mér þannig kleift að hjálpa haldi ég þessum draumráðningum mínum áfram.

Bestu kveðjur til þín :)

Draumar, 16.10.2007 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband