18.10.2007 | 21:53
Guð í draumi
Þessi draumur barst frá: Ásta María, mán. 15. okt. 2007
Þegar ég var ung eða svona 19 ára þá dreymdi mig draum. Mig dreymdi að Guð stæði við hliðina á mér og sagði mér að fara til þriggja manna áður en þeir myndu deyja eða um 26 ára aldur og segja þeim skilaboð. Ég spurði hver skilaboðin voru og af hverju þeir þyrftu að deyja svona ungir en hann sagði að ég myndi vita það þegar ég kæmi þangað og það væri allt í lagi að þeir myndu deyja vegna þess að sálir þeirra myndu fæðast í þremur sálum , svo sá ég konu í rúmi með þrjú börn. Mennirnir hétu Arnar, Sigurður og Jón. Ég fann þá á kaffihúsi við hringborð og fór til þeirra til að segja þeim skilaboðin en ég vissi þau aldrei en samt virtist ég segja þeim eitthvað. Arnar og Sigurður sátu við borðið en Jón stóð og var einsog hann væri að fara. Jón var dökkhærður Sigurður skollitaður og Arnar var svona ljóshærður. Arnar virtist vera aðalmaðurinn og ég talaði beint við hann en samt var ég að segja hinum þetta líka. Þegar ég skilaði til þeirra þessum mikilvægu skilaboðum frá Guði, þá sagði Arnar, æi láttu ekki svona og hann vildi ekki trúa mér. Ég sagði að Guð hefði sagt að þeir þyrftu að klára eitthvað verkefni áður en þeir myndu deyja. Þeim fannst ég vera að rugla og hlógu að mér nema Jón.
Draumráðning:
Sæl Ásta María. Þessi draumur þinn er um margt nokkuð sérstakur. Annarsvegar er hann þéttsetinn með því sem við getum litið á sem draumtákn, mannanöfnin, háralitur, kaffihús, skilaboð o.s.frv. Ég vel þó hér að fara ekki að kryfja drauminn þinn á þann hátt því mín tilfinning segir mér að hér sé um mun æðri skilaboð að ræða, visku sem sál þín þekkir og veit, en undirvitundin er að reyna að minna þig á fyrir lífsgönguna. Skilaboð um skilning á tilgangi lífsins og hvert hlutverk þitt sé í þessu lífi.
Það að dreyma guð er eitt besta draumtákn sem komið getur fyrir og boðar mikinn kærleik og tilgang í lífi þínu. Það að hann talar til þín er ennþá sterkara. Mér segir svo hugur að þú sért mjög næm persóna og vitir undir niðri margt um hluti og fólk þó þú tjáir þig kannski ekki um það dags daglega. Skilaboð draumsins til þín eru umfram annað að þér er ætlað stórt hlutverk í lífinu og jafnframt að þú munir miðla einhverri visku til fólks sem hefur tilgang og nær fram að ganga. Þú getur líka litið á mennina þrjá sem hluta af þér eða lífsgöngu þinni. Sigurður segir fyrir um erfiðu kaflana sem þú munt samt sigrast á, Jón það góða, og Arnar að fyrirætlanir þínar nái fram að ganga. Þú átt innra með þér viskuna og svörin til að takast á við hvern þann kafla. Þó þú þekkir ekki skilaboðin í dag þá muntu vita þau þegar þú þarft á þeim að halda ef þú treystir á visku þína og styrk. Þannig klárarðu hvern kafla lífs þíns eða hjalla.
Það að mennirnir muni deyja ungir, konan með börnin þrjú, og orð Guðs um að sálir þeirra muni fæðast í nýjum sálum tel ég einnig vera hér til að undirstrika fyrir þér þennan skilning á lífinu. Að þú leifir þér að nýta sálarvisku þína og reynslu fyrri tíma án þess að vantreysta.
Þetta er mjög fallegur draumur og boðar klárlega mikla gæfu fyrir þig. Mér þætti gaman að heyra hvort þessi ráðning mín "kveikir á einhverjum perum" hjá þér. Ég skal líka skoða þetta betur ef þú villt útfrá tilfinningu þinni fyrir þessari ráðningu.
Kveðja
Athugasemdir
Vá takk fyrir ráðninguna. Ég hef alltaf getað ráðið mína drauma einhvernvegin en ekki þennan allveg svona ítarlega. Ég trúði samt að ég þyrfti ekkert að vantreista að Guð segði mér satt þarna að ég myndi vit svörin þegar að kæmi. Ég hræddist ekki. Síðan ég dreymdi þennan draum hefur ýmislegt skeð sem hefur ekki alltaf verið auðvelt að skilja. Ég dreymi mjög mikið og fólki fynnst einsog ég sé að lýsa bíómyndum þegar ég segi þeim þá. Ég er mjög mikið á staðnum. Þessi draumur hefur alltaf verið samt ofrlega í huga mér. Þetta kveikir sko fullt af perum. Takk aftur.
Ásta María H Jensen, 19.10.2007 kl. 09:16
Takk fyrir kveðjuna þína Ásta María. Gleður mig að heyra að þetta kemur þér að einhverju gagni.
Bestu kveðjur
Draumar, 19.10.2007 kl. 16:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.