Draumur um börn og fortíð

Eftirfarandi draumur barst frá: Ásta Jóhanna (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 20. okt. 2007

Mig dreymdi draum sem situr i mér og mig langar mikið að fá ráðinn. Hann skiptist í þrennt.

Fyrsti partur:Ég er stödd í gamla grunnskólanum mínum. Börnin mín eru nemendur þar í dag og ég var stödd þar þeirra vegna en einnig vegna þess að ég var að koma þangað með lítið barn sem ég hafði verið að eignast og átti að fara að byrja i þessum skóla. Ég var líka ófrísk í draumnum og meðan ég var stödd í skólanum komst ég að því að ég ætti ekki bara von á þessu eina barni heldur átt ég líka von á tvíburum uþb. 5 mánuðum seinna. Ég var frekar miður mín og hálf skælandi yfir því að vera að fara að eignast öll þessi börn enda ekki á stefnuskránni að bæta við þau fjögur sem ég á fyrir. Ég hugsaði þó að ég ætti bara að bíta á jaxlinn og takast á við verkefnið enda gæti ég þetta alveg. Mér fannst samt verst að vera að binda mig yfir smábörnum þar sem ég hefði allt önnur framtíðarplön.

Partur 2:Ég er komin heim til foreldra fyrrverandi kærasta míns (vorum kærustupar í 7 ár fyrir 20 árum síðan). Þau eru að flytja og ég segi þeim að ég sé komin til að hjálpa þeim. Þau verða voða ánægð og taka mér fagnandi. Í holinu er stór motta og þegar ég lyfti henni upp sé ég að undir henni er allt morandi í svörtum pöddum. Mér fannst þær mjög óhugnanlegar en segi við fólkið sem þarna var statt að hafa ekki áhyggjur ég skuli redda þessu og hefst svo handa við að sópa saman pöddunum. Ég fór svo og náði í eitthvert efni og setti í fötu og hellti pöddunum þar út í svo þær myndu örugglega drepast sem þær gerðu en samt fannst mér að ein þeirra yrði eftir. Þegar ég er búin með pöddurnar dreg ég upp pínulítil stelpuföt og rétti fyrrverandi tengdamóður minni og spyr hana hvort hún muni ekki eftir þessum fötum. Hún hélt það nú og þakkaði mér innilega fyrir að skila þeim.

Partur3: Ég er stödd á Reykjavíkurflugvelli og er á leið til Ameríku með LOFTLEIÐUM. Flugafgreiðslan var í litlum sal og í draumnum fannst mér ekkert eðlilegra en þetta væri svona, þ.e. að þetta væri svona eins og það var í gamla daga. Þegar ég er að fara um borð í vélina kemur til mín lítil stelpa sem segir mér að hún sé líka að fara í þessari vél til Ameríku. Ég spyr hana hvar mamma hennar sé og hún segist ekki vita það og að það sé alltaf vesen á mömmu sinni. Ég ákveð að taka barnið með mér um borð og hafa hana hjá mér á leiðinni þannig að ég vissi að hún kæmist heilu á höldnu á leiðarenda. Þegar ég kem inn í vélina sé ég að maður sem ég hafði séð fara inn í vélina hafði skilið eftir pakka til mín í sæti fremst í vélinni. Ég skoða pakkann og sé að í honum er bók með myndum í og á einni myndinni stendur skrifað "mig langar að hitta þig í Ameríku". Ég legg bókina frá mér, lít á stelpuna litlu og segi " Hann setti pakkann í vitlaust sæti, hann setti hann í 1A en þar á ég alls ekki að sitja. Þar með lauk þessum þriggja parta draumi um börn og fortíðina. Ræð marga af mínum draumum sjálf en þó þessi sitji í mér hef ég ekki getað ráðið hann. Vona að þú getir það. Með fyrirfram þökk. Ásta Jóhanna.

Draumráðning

Kæra Ásta Jóhanna. Ég vona að þú takir því vel þó nokkuð sé liðið frá því þú sendir mér þennan merkilega draum þinn. Þetta er einn af þessum draumum sem maður "þarf að sofa á" og melta örlítið svo fremi að tilfinning dreymandans fyrir draumnum hafi ekki þegar átt svarið þegar viðkomandi vaknaði uppaf draumnum.

Þessi draumur þinn virðist við fyrstu sýn afar flókinn og hægt væri að drekkja sér við að reyna að túlka hvert draumtákn út af fyrir sig. Mér segir hinsvegar svo hugur að hér sért þú að fara á vit þinnar eigin æsku og margra atburða úr lífi þínu sem þú geymir í undirvitundinni og finnst að hefðu getað farið öðruvísi. Mér finnst ég finna ákveðna þrá í draumnum eftir áhyggjulausara lífi og jafnvel hlutum sem þér finnst þú hafa misst af í lífinu og á það bæði við menntun, samneyti við fólk og jafnvel ástarævintýri sem hefði átt að verða en varð ekki. Draumurinn þinn veit samt einnig á mikla velgengni sem byggist á dugnaði þínum og þrautseigju (pödduslagurinn). Eins og ég segi þá finnst mér þú vera að gera upp ákveðna kafla í lífi þínu og börnin eru þú sjálf á ákveðnum stöðum.

Ég veit þetta kann að virka torkennileg ráðning hjá mér en ég bið þig að skoða sjálf drauminn með þessu hugarfari og vita hvort þú getur ekki losað þig frá einhverju af þessum áhyggjum eða vonbrigðum. Þá fyrst finnurðu jafnvægi þegar þú sættist við það sem liðið er og vegurinn þinn verður ruddur og velgengnin ein bíður þín.

Láttu mig endilega heyra frá þér hvort sem þetta hjálpar þér eða ekki, því það er nú alltaf þannig með drauma að enginn er í jafn góðri stöðu og dreymandinn sjálfur að meta hvað er rétt tilfinning og hvað ekki fyrir slíkum draumum.

Óska þér alls hins besta og ráðlegg þér að leifa þér að lifa lífinu lifandi á eigin forsendum

Mínar bestu kveðjur :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir!

Þessi draumráðning hefur mjög mikla þýðingu fyrir mig. Takk aftur.

Bestu kveðjur, Ásta Jóhanna.

Ásta Jóhanna (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 15:01

2 Smámynd: Draumar

Takk fyrir kveðjuna Ásta Jóhanna. Það gleður mig að heyra að þessi draumráðning sé að segja þér eitthvað :)

Draumar, 12.11.2007 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband