Fólk, hús og martröð

Þessi draumur barst frá: Jóga (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 1. nóv. 2007

Sæl. Mig langar að biðja þig að ráða fyrir mig langan draum sem var eiginlega martröð. Hann er á þessa leið: Mig dreymdi að ég væri stödd á AA-fundi. Þetta var mjög stór fundur, ábyggilega 100 manns. Svo var fundurinn búinn og allir fóru út. ég var síðust út en mundi á leiðinni að ég hafði ekki gert ráðstafanir með barnapíu fyrir son minn svo ég var hrædd um að hann væri týndur. Þegar ég kem út úr húsinu þar sem fundurinn var þá er enginn þar fyrir utan, ég hraða mér heim þegar þangað er komið er húsið mitt fullt af fólki og ég kemst að því að sambýlismaður (ég á engan sambýlismann) minn Gísli, hefur boðið öllum af fundinum heim. Þarna er fólk að gramsa í mínum persónulegu skjölum og gera sig líklegt til að stela verðmætum,m.a. stoppaði ég eina með gítar. Ég verð alveg brjáluð og rek nokkra af þessum gestum á dyr. Á efri hæðinni sé ég að sonur minn, sá er ég hafði áhyggjur af, er sofandi ásamt litlu systur sinni í mínu rúmi, það virtist sem hann hefði gætt systur sinnar og komið henni í rúmið. Mér var létt við það. Á ganginum uppi sem er frekar langur og mjór, hrynja niður úr loftinu tveir karlmenn, annan kannast ég við hann heitir Davíð, hinn þekki ég ekki, þarna er maður sem ég kannast við sem heitir Viktor. Rautt pluss er á lofti efrihæðarinnar, hinir óboðnu gestir hafa rifið það frá svo að nú sést í risloft og er ég alveg hissa á því að þarna sé ris því það vissi ég ekki áður. Ég fer þangað upp og eru þá komnar í för með mér tvær vinkonur mína, Anna Lóa og Alda Kristín. Þar blasir við tiltölulega mikið rými á tveimur pöllum. Á neðri pallinum er stórt, volgt, vatnsrúm, stóll þar sem einhver situr og málaratrönur með málverki. Málverkið er stórt og allskyns rauðir og gulir tónar í því (svoldið einsog eldur) en í miðri myndinni er hringur og máluð mynd af mér inní hann þar sem ég sit með krosslagaða fætur. Á efri pallinum í þessu nýuppgötvaða risi er svartur leðursófi og sjónvarp og til hliðar er stóll þar sem situr svartur api. Ég er þarna uppi og er alveg hissa á þessu og undrast á því að fólkið sem seldi mér íbúðina skyldi hafa skilið þetta dót eftir. Önnur vinkona mín bregst hinsvegar þannig við þegar við erum að fara þarna upp að hún segist ekki fara þangað því það sé eitthvað illt á ferðinni þarna. Við þetta finn ég til ótta. Svo er ég komin aftur niður þá hitti ég þennan sambýlismann minn (er maður sem ég þekki varla, er þó barnsfaðir vinkonu minnar og er samkynhneigður auk þess sem hann hefur átt við einhver geðræn vandamál að stríða). Ég er reið honum vegna þess að hann bauð öllu þessu fólki heim til mín að mér forspurðri, ég spyr hann hvort hann eigi vatnsrúmið uppi í risi, hann kvað já við því. Ég tjái honum reiði mína vega alls þessa fólks og segi honum það vera alveg óviðeigandi að hann sé að bjóða fólki heim til mín án þess að bera það undir mig fyrst. Svo segi ég honum að ég vilji að hann flytji út strax, hann segir að ég verði þá að borga honum til baka það sem hann hafði borgað fyrir að búa þarna, ég spyr hvað það hafi verið mikið, hann segir 15.000 kr. ég segi þú varst hér í tvo daga svo ég borga þér til baka 10-13.0000. Ég segi honum að hann eigi að afhenda mér lyklana að húsinu núna. Hann þykist leita í vasa sínum og réttir mér svo lykla sem ég veit að eru ekki réttir lyklar. Ég segist vilja fá rétta lykla, hann reynir nokkrum sinnum að láta mig fá ranga lykla, að lokum segi ég að ég muni ekki borga honum til baka nema hann skili réttum lyklum. Þá fer hann ofaní kassa og sækir lyklana. Að svo búnu tekur hann mig taki og gerist líklegur til að beita mig ofbeldi. Ég finn að hann ræður ekki alveg við mig svo ég er ekki mjög hrædd og mér tekst að ná símanum hans og fer nú að reyna að hringja. Fyrst vel ég númer vinkonu minnar, Helgu, hún svarar ekki svo fer ég að reyna að hringja í fyrrverandi manninn minn en mér tekst ekki að velja númerið hans, eða það er einsog ég kunni ekki á símann. Á meðan ég er að reyna að hringja eigum við í ryskingum og þetta á sér stað í andyri hússins. Ég er á einhverju augnabliki komin með putta af manninum í munninn og var að spá í það hvort ég ætti að bíta hann af, en gerði það ekki. Þarna koma svo nokkrir af gestunum og ætla að rétta manninum hjálparhönd við að yfirbuga mig (það voru kokkar) mér tekst þó að tala einn inná það að leyfa mér að sleppa út um útidyrnar. Á leiðinni út tekst mér að ná í símann minn og þegar út er komið hringi ég í 112, það svarar um síðir og fyrst hélt símastúlkan að ég væri að gera at. Úr húsunum í kring koma gamlar konur og ein ung kona kemur hlaupandi fyrir horn og er á flótta undan einhverjum misindismönnum. Ég á erfitt með að koma upp orði en þegar mér tekst það og bið um hjálp hjá 112 þá segi ég heimilisfang þar sem vinkona mín (Helga) bjó þangað til í sumar. S.s. húsið þar sem allt gekk á var ekki mitt raunverulega heimili. (í dag býr í þessu húsi misjafnt fólk). Svona endaði þessi draumur en ég vaknaði upp og var óskaplega hrædd.

Draumráðning:

Sæl Jóga. Um leið og ég þakka þér fyrir að senda mér drauminn þinn biðst ég forláts á að hafa látið hann bíða svo lengi. Ástæða þess er kannski helst sú að mér hefur aldrei gengið neitt vel að ráða í drauma sem hafa einkenni martraðar eins og þessi draumur þinn. Slíkir draumar eru ekkert endilega að bera neinn sérstakan boðskap, eru fremur að endurspegla eitthvert álag og áreiti úr vöku.

Mér hefur ekkert gengið of vel að tengja mig við þennan draum þinn, en eitthvað segir mér þó að þú munir upplifa eða uppgötva nýja hlið á þér sjálfri sem kemur þér nokkuð á óvart. Ekkert sem ber að óttast, því hér væri þá aðeins um nýjar áherslur eða nýja hluti að ræða sem þú færir að rækta með þér. Hér gæti einnig verið ábending til þín að láta ekki hlaupa með þig í gönur eða láta stjórna þér gegn eigin vilja. Það að þig dreymi þennan mann sem eiginmann þinn getur einnig verið fyrirboði um miklar breytingar á þínum högum. Ókönnuðu vistarverurnar í húsinu eru nýju hliðarnar á þér sjálfri sem þú munt uppgötva og þá reynir á þig að láta ekki hafa neikvæð áhrif á þig.

Meira get ég því miður ekki sagt þér um þennan langa draum þinn, en vona að þetta hjálpi þér eitthvað og óska þér um leið alls hins besta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér kærlega fyrir ráðninguna. Hún hljómar mjög sennilega.  Gangi þér vel.

kv. Jóga

Jóga (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 19:47

2 Smámynd: Draumar

Takk fyrir kveðjuna Jóga og gangi þér vel :)

Draumar, 13.11.2007 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband