15.11.2007 | 23:32
Fuglar í draumi
Þessi draumur barst frá: Linda Björk Jóhannsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 14. nóv. 2007
Sæl. Ég rakst á síðuna þína á annarri heimasíðu og datt í hug að senda þér inn draum til ráðningar sem mig dreymdi aðfaranótt 8. nóvember. Ef þú hefur einhver tök á að spá aðeins í hann þá væri það vel þegið. Með fyrirfram þökk Linda Björk Jóhannsdóttir.
Mig dreymdi að ég svæfi í litlum skúr og útidyrahurðin var lokuð en hún náði ekki að hylja dyragatið fullkomlega, vantaði örugglega 20 cm upp á. Allt í einu flýgur hrafn efst á hurðina og reynir að rífa hana upp. Það sem mér fannst merkilegast við hrafninn var að hann var bæði hvítur og svartur og í draumnum hugsaði ég, sjaldséðir hvítir hrafnar, enn sjaldnari svartir og hvítir. Hrafninn náði loks að komast inn til mín og þá flaug lítill hvítur hrafn upp úr hausnum á honum. Í næsta draumi er ég greinilega enn að hugsa um þessa hrafna því þá er ég með tvo litla gára úti í garði og rekst á risastóran rauðan páfagauk sem var að vafra um í garðinum. Þegar ég er að spá í hvað allir þessir fuglar þýði (í draumnum) þá sé ég enn einn risastóran páfagauk, bláan í þetta skiptið fyrir utan garðinn og ég náði öllum páfagaukunum í fuglabúr og afhenti svo tveimur gömlum konum þá sem voru víst eigendurnir.
Draumráðning:
Sæl Linda Björk. Ég skal gera mitt besta til að ráða í drauminn þinn sem mér þykir vænt um að þú skulir senda mér. Fuglar í draumum geta haft margvíslega merkingu. Hrafnarnir eru því miður oftast tengdir sviksemi og þá oftast framhjáhaldi maka þegar þeir koma fyrir samkvæmt hefðbundnum draumskýringum. Þannig er það trú að fljúgi fuglar yfir höfði manns megi viðkomandi búast við að verða fyrir fordómum af einhverju tagi. Páfagaukarnir hinsvegar eru vísbending um að þú eigir að fara leynt með þín innstu leyndarmál, því hætta sé á að jafnvel trúnaðarvinur kjafti frá. Þrátt fyrir þetta eru þó litskrúðugir, fljúgandi fuglar gjarna gott tákn í draumum.
En að draumunum þínum. Mér segir svo hugur að þú búir við eitthvert óöryggi eða togstreitu varðandi eigin tilfinningar og þrár til lífsins. Að þú óttist að þú getir orðið fyrir einhverju mótstreymi takirðu ákvarðanir útfrá eigin brjósti og fylgir þeim. Í þeim efnum tel ég að þú hafir ekkert að óttast því draumurinn segir mér að þú ráðir bug á því og draumar þínir muni rætast. Þú fangar páfagaukana og afgreiðir þar með það sem beitt er gegn þér og stendur uppi heil. Hrafnarnir í draumnum þínum eru líka mjög sérstakir og má líkja þeim við jin og jang þar sem ljóst er í mínum huga að þau svik eða umtal sem þú verður fyrir leiða gott af sér fyrir þig þegar upp er staðið. Litli hvíti hrafninn sem flýgur úr höfði hins er vísbending þess að ljósið sigrar í þessari baráttu og að enginn fótur er fyrir því sem um þig er sagt eða látið liggja að. (Reynt að koma sökinni á þig á einhvern hátt).
Ég veit ekki hvort þetta hjálpar þér, en mér þætti vænt um að fá að heyra hvort þessi skýring mín "kveiki á einhverjum perum" hjá þér. Ef svo er þá er mikilvægt fyrir þig að hugleiða það sem kemur í hugann, því ef þú hlustar þá munu svörin við draumnum koma til þín. Þú getur líka gefið mér frekari upplýsingar um hvaða tilfinningu þú færð, eða meira um aðstæður þínar, því þá get ég kannski gefið þér nánari svör við draumnum.
Þú skalt ekki óttast þennan draum, frekar en eitthvert mótlæti sem þú kannt að verða fyrir, því ég er viss um að það er eitthvað sem þú afgreiðir farsællega fyrir þig sjálfa.
Óska þér alls hins besta :)
Athugasemdir
Takk fyrir draumráðninguna. Hún kveikti ekki beint ljós við aðstæðum mínum núna en ég er að reyna að finna út með sjálfri mér hvað ég vil í lífinu og það er eflaust það sem draumurinn gengur aðallega út á. Þúsund þakkir, kveðja Linda.
Linda Björk Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 15:54
Sæl Linda. Það er gott ef þú ert sjálf að fá tilfinningu fyrir draumnum þínum. Það veit á gott og yfirleitt það sem gefur dreymandanum bestu draumráðninguna.
Bestu kveðjur og gangi þér vel :)
Draumar, 21.11.2007 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.