Ferðalag, tigrisdýr fljót og fleira í draumi

Þessi draumur barst frá:  Sigríður Sigurðardóttir, laugard. 1. des. 2007

Sæll kæri draumráðandi, Hef sent þér drauma áður og fengið góðar ráðningar. Langaði að senda þér einn frá í nótt, sem ég næ ekki alveg áttum með. Var stödd við mikið fljót í mið-Afríku, sem streymdi til suðurs. Var í ferðahóp með mér yngra fólki, sem ég þekkti ekkert. Ungur maður um þrítugt er leiðsögumaður hópsins. Hann bendir okkur á fallegt tígrisdýr sem er austan megin við fljótið (við vorum á bakkanum vestan megin). Tígrisdýrið stingur sér í fljótið og leikur sér í því. Syndir síðan niður með lygnu fljótinu til suðurs. Við fylgjum því eftir gangandi, og leiðsögumaður talar um að tígrisdýr séu í útrýmingarhættu, því maðurinn mengi fljót öll svo illilega, að vatnagróður og slý sé orðið eitrað fyrir tígrisdýr. Ég hef áhyggjur af dýrinu, en því virðist ekki verða meint af sundinu, og syndir eftir endilöngu fljótinu alla leið til Suður-Afríku. Þar fer það í land í skógarþykkni, austan megin, en við höldum áfram niður eftir, alveg niður að bæ syðst út við sjóinn. Þar rétt fyrir ofan bæinn smá minnkar fljótið og hverfur okkur loks með öllu, svo þurr farvegur og skraufþurr ós blasir við. Þetta segir leiðsögumaður vera sök mannanna. Þeir hafi byggt ríkra manna bæ þarna út við ströndina og sett fljótið í neðanjarðargöng mikil, og virkjað það. Nú séu fyrri íbúar bæjarins og bændur úr sveitinni í kring á heljarþröm sökum vatnsskorts. Við förum yfir girðingu inn í ríkra manna bæinn. Þar stór einbýlishús með stórum sundlaugum fullum af blátæru vatni, og stórum fallegum görðum, en utar fátæklegir kofar á skraufþurrum melum. Þar býr þjónustufólk þeirra ríku. Leiðsögumaður úthúðar ríka fólkinu fyrir vatnseyðsluna í sundlaugarnar, en segir að því miður sé móðir hans ein af þessu ríka pakki sem þarna búi, og eyði öllu vatninu í sundlaugar og rafmagn. Við komum að fallegu húsi hennar, og förum inn. Þar inni er allt ríkmannlegt, snyrtilegt og bjart, og útsýni fallegt út á sjóinn. Við förum út að sundlaug móðurinnar, og samferðafólk mitt stekkur fullklætt út í laugina ( man sérstaklega eftir svartklæddri ungri stúlku), en ég fer úr sokkum og skóm og kæli aðeins fæturna í hitanum. Móðirin (ljóshærð kona) kemur heim skömmu síðar, og segir syni sínum, að nú megi hann vera ánægður með sig. Hún sé farin að fá ríka fólkið til að spara rafmagn, með því að fá það til að kaupa ódýrar og rafmagnssparandi dyrabjöllur! Honum finnst þetta ekki mjög merkilegt framtak. En móðirin segir: "En þetta er allavega byrjunin, og það er alltaf gott að byrja smátt". Vakna. Hef aðeins komið til norður-Afríku í vöku, hef dálæti á kattardýrum, stórum sem smáum og á kisu. Þætti gaman að fá ráðningu, þá þú hefur orku og tíma. Með þakklæti og góðum óskum, Kveðja S.

Draumráðning:

Sæl Sigríður og takk fyrir að senda þennan merkilega draum þinn. Ég get ekki sagt að ég sé viss hvernig beri að túlka þennan draum þinn, sem getur í senn verið með ákveðin skilaboð til þín um leið og hann er varnaðarorð gagnvart þeirri samfélagsþróun sem við höfum orðið svo áberandi áskynja síðustu ár. En fyrst að draumtáknum. Fyrst ber að nefna tígrisdýrið sem er gott draumtákn og er gjarnan boðberi trausts og góðrar vináttu svo lengi sem það ekki ræðst á viðkomandi í draumi. Vatn í draumi getur haft margar draumskýringar og því mikilvægt að setja það í samband við önnur draumtákn. Gruggugt eða mengað vatn er gjarnan fyrir veikindum eða mótlæti og þá sérstaklega ef viðkomandi er í vatninu. Uppþornuð á eða fljót er oft tákn eða fyrirboði vonbrigða eða getuleysis á einhvern hátt. Fljótið í þessum draumi þínum getur einnig verið merking tímaáss sem þú fylgir, eða ákveðinnar þróunar sem skeður í tíma.

Sé þessi draumur táknrænn fyrir þig sjálfa þá munt þú upplifa traust og stuðning á komandi tímabili. Þú gerir þér einnig fulla grein fyrir þeim villum sem samfélagið er á vissan hátt að stefna í og tekur ekki þátt í því (þú bleytir aðeins tærnar í lauginni meðan samferðamennirnir kasta sér í vatnið).

Boðskapur um samfélagið er þessi:
Meðan gengið er nær og nær náttúrunni og okkar umhverfi í þágu auðs, versna aðstæður fleiri og fleiri í heiminum. Þeir ríku eru þó að byrja að fá samviskubit yfir gjörðum sínum og grípa þá til ráða til að friða samviskuna og kaupa sér bætta ímynd. Þetta sjáum við ekki bara með dyrabjöllum draumsins, heldur er þetta hvað stærst í nýjasta æðinu þar sem fólk og fyrirtæki kaupa sér kolefnisjöfnun með ræktun skóga og aka um á lífdisel eða Biodisel. Hvort tveggja hljómar vel eins og rafmagnssparandi dyrabjöllurnar, en gallinn er bara sá að bæði atriðin auka enn á eymd þeirra sem minna hafa því í báðum tilvikum er gengið á matvælaforða heimsins og möguleikana til að brauðfæða alla. Ræktun belgjurta til eldsneytisframleiðslu hækkar landverð og gerir matvælaframleiðslu þriðja heimsins ósamkeppnisfæra. Sama er að segja um kolefnisjöfnunina sem gerir í raun ekkert fyrir jafnvægið þar sem hún tekur auðlindina sem landið er og bindur undir skóg. Þannig gera þessar aðgerðir ekkert gott fyrir mannkynið, þar sem aðeins er verið að fela og fresta vandanum. Kaupa sig frá gjörðum sínum. Þetta eru aðeins dæmi eða dæmisögur.

Ég veit þessi draumráðning mín hljómar meir eins og pistill um misskilin umhverfismál og vaxandi stéttaskiptingu heimsins heldur en hrein draumtúlkun. En málið er að ég held að þetta sé það sem draumurinn er að vekja þig til umhugsunar um og benda þér á, að þú eigir og munir láta þig þessi mál varða á einhvern hátt. Af draumnum er fyrir mér ljóst að þú verðir leidd áfram og njótir traust, látir þú verða af því.

Bið þig að taka þessu eins og það er og "láttu mig bara heyra það óþvegið" ef þér finnst þetta alveg "út í hött" hvað þig varðar. Leifðu mér endilega að heyra til baka hvort þetta hjálpi þér eitthvað á leið við að túlka drauminn þinn. Þú ein veist hvort þetta hefur sannleikskorn eða ekki. Tilfinning þín mun svara því.

Bestu kveðjur og óska þér alls góðs :)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Kæri draumráðandi,

  Þakka þér kærlega ráðningu þína.  Er sem mig grunaði, að ég fæ iðulega skilaboð um framtíð samfélagsins í draumum mínum.  Og draumar mínir því ekki alltaf mjög vísandi á mitt nánasta umhverfi, ástvini og ættingja.  Veit þó að tígrisdýrið er "til mín" og er það vel.  Því vinátta og stuðningur ætíð góður í lífinu. Glæsilega einnig, tengt hjá þér, þetta með "rafmagnssparandi dyrabjölluna", og get ég algerlega verið sammála þeirri ráðningu þinni.  En verð að segja að hvað "ég" og "náttúruverndarmál" eigum eftir saman að sælda, er mér alveg hulið í dag, nema að ég umturni alveg mínu lífi og komi mér í einhverja þá stöðu, þ.s. ég get haft áhrif á gang þeirra mála.  Starfa við hjúkrun í dag, og þó ég sé mjög hlynnt nátturuverndarsinnum, hef ég nóg að starfa í minni vinnu, og á svo sex ára dóttur í ofanálag, sem þarf óspart athygli múttu sinnar.  En brilliant ráðning, og segir mér ýmislegt um hvar ég stend í lífinu.

  Kærar þakkir enn og aftur, og gott að vita af þér í bloggheimum.

    Jólakveðjur, S.

Sigríður Sigurðardóttir, 6.12.2007 kl. 17:29

2 Smámynd: Draumar

Sæl Sigríður

Bestu þakkir fyrir að leifa mér að heyra um draumráðninguna. Það gleður mig mikið að þetta falli í góðan jarðveg. Geymdu þetta með "þig og umhverfismálin" bara með þér en láttu þér ekkert bregða daginn sem þú ert allt í einu farin að lesa um og láta þig þetta varða á einhvern hátt. Það er heldur ekkert svo fráleitt að það geti tengst þinni vinnu því margt af því sem þú ert að fást við eru afleiðingar af hraða og streitu samfélagsins og því hve fólk er að fjarlægjast tengingu við náttúruna í sínu daglega lífi og amstri.

Gangi þér allt í haginn og gleymdu ekki að knúsa litlu prinsessuna þína alla daga, hversu mikið sem þú hefur að gera.

Bros og kveðja :)

Draumar, 6.12.2007 kl. 23:36

3 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Þakka góðar kveðjur.  Fæ að eiga draumráðanda af, þegar draumar mínir verða mér ofviða í ráðningu.  Er ein af þeim sem fæ skilaboð frá handanheimum reglulega, og táknin oft furðuleg og skrítin.  Sú stutta fær knús alla daga, minnst fimm sinnum.  Vona svo að þú eigir gleðileg Jól og sanna jólagleði.

  Ljós til þín og bestu óskir,

           Kveðja Sigga.

Sigríður Sigurðardóttir, 7.12.2007 kl. 15:54

4 Smámynd: Draumar

Takk Sigga :) og gleðileg jól.

Draumar, 7.12.2007 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband