27.1.2008 | 21:19
Appelsínugulur draumur sem situr fast í mér
Þessi draumur barst frá: Hulda Ólafsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 21. jan. 2008
Sæll kæri draumaáhugamaður. Mig langar að biðja þig að ráða draum sem mig dreymdi. Mér finnst ég sé í sjónum með syni mínum sem er 11 ára. Ég tek eftir því að sjórinn er áberandi appelsínugulur og segir sonur minn að það sé gos í sjónum. Þá sé ég nokkra reykjarbólstra bera við himinn og síðan sé ég gap í sjónum sem við berumst hægt að en ég verð ekki áberandi hrædd. Við komumst án áreynslu frá gapinu og svo færumst við frá. Ég og sonur minn erum að mér finnst 2 persónur í einum líkama eða einhvernvegin samofin. Svo færumst við áfram í appelsínugulum sjónum sem er með töluvert af öldum og ég hugsa hvað sé langt þar til við náum landi. Samt alveg róleg. Allt í einu sé ég ljós í fjarska sem er á sveitabæ og erum komin um leið á þurrt land. Stígum létt yfir girðingu og sonur minn labbar inn og sest við eldhúsborð en ég horfi á að utan (hluti hússins er úr gleri) og ég finn fyrir smá tómleikatilfinningu. Ég hef tilfinningu fyrir erfiðleikum sem ég næ að leysa en væri gaman að fá annan til að lesa út úr draumnum. Bestu þakkir, Hulda Ólafsdóttir
Draumráðning:
Sæl Hulda og takk fyrir að senda drauminn þinn. Ég trúi að þú hafir hitt naglann á höfuðið með að draumurinn boði einhverja erfiðleika sem þú munir ganga í gegnum, en jafnframt að þú sigrist á þeim. Það að synda í sjó er fyrirboði erfiðleika eða mótlætis, en sjórinn gæti hér einnig átt við skap þitt gagnvart því sem þú tekst á við. Appelsínuguli liturinn getur hér táknað að ekki verði miklar breytingar hjá þér um nokkurn tíma en liturinn getur líka verið að vísa til sjálfstrausts, sköpunar og tilfinninga þinna. Það að þið komið heim á sveitabæ er góðs viti og getur vísað til þess að verkefni sem þú tekst á við muni ganga vel ef þú leggur þig fram. Ég er ekki jafn viss um tilvist sonarins í draumnum og að þú horfir á að utan með tómleikatilfinningu, en það segir mér þó að þú munir fjarlægjast hann á einhvern hátt, en þó bara tímabundið.
Tel þetta ekki draum sem þú hafir ástæðu til að óttast, en vertu viðbúin að vinna í þínum málum á þann veg einn sem þú kýst að þeim ljúki. Ég vil heldur ekki útiloka að þessi draumur þinn sé fyrirboði eldgoss í eða nálægt sjó.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.