31.12.2007 | 01:11
Rúm 89 prósent trúa á merkingu drauma
Draumar og draumráðningar hafa fylgt Íslendingum allt frá örófi alda ekki síður en öðrum þjóðum. Drauma er víða getið í fornsögum okkar og kristnum ritum og svo lengi sem þekkt er hafa menn og konur reynt að ráða í drauma.
Hér á draumablogginu hefur verið skoðanakönnun í gangi þar sem spurt er hvort fólk trúi því að draumar geti verið fyrirboðar einhvers. Niðurstöðurnar eru afgerandi og áhugaverðar því 89,4 prósent þeirra sem taka þátt trúa því eða hafa af því reynslu.
Aðeins 3,3 % eru hlutlaus og 7,4 % segjast ekki vita það meðan enginn svarar neitandi.
Þegar þessi samantekt er gerð hafa 122 svarað og getur þessi könnun því talist ágætis vísbending, allavega í þeim hópi sem leitar að slíku á netinu.
draumar.blog.is vill nota þetta tækifæri til að þakka þeim fjölmörgu sem staldrað hafa við á síðunni og þá sérstaklega þeim sem hafa lagt inn drauma sína í gestabók bloggsins til ráðningar. Það að fá alla þessa drauma hefur verið síðuritara ómetanlegt. Bæði hefur verið einstaklega gaman að fá jákvæð viðbrögð og þakklæti fyrir draumráðningar og einnig hefur þetta gefið mér tækifæri til að auka innsýn mína í margbreytileika drauma til muna.
Óska öllum góðs komandi árs og þakka það sem er að líða.
Draumar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.12.2007 | 00:35
Vinir
Þessi draumur barst frá: Guðrún Magnúsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 15. des. 2007
Sæll kæri draumráðandi, mig dreymdi draum sem ég man nú ekki í smáatriðum en það sitja nokkur atriði úr honum fast í mér og ég vildi kanna hvort þú gætir eitthvað ráðið í hann. Ég var með einum vini mínum, sem er búinn að vera búsettur í útlöndum í haust, og vinkonu minni, sem var að fara til útlanda. Vinur minn brosti mikið en tennurnar hans voru allar í brúnum blettum. Vinkona mín var komin með tattú á höndina og undir því var hún frekar loðin, það var í sterkum rauðum og svörtum lit og hafði fallegan gljáa. Umhverfið var bjart og fallegt og þau voru bæði mjög glöð. Ég get þó ekki munað hvar við vorum eða hvernig mér leið. Þætti gaman að fá ráðningu, kv. Guðrún M.
Draumráðning:
Sæl Guðrún.
Mér þykir leitt að hafa ekki skoðað þennan draum þinn fyrr sem einhvernvegin fór framhjá mér. Ekki get ég gefið þér neina einhlíta skýringu útfrá þessum stutta draumi, en tennur hafa þó allajafna ábendingu um vini viðkomandi og nánustu.
Vitna hér fyrst í fyrri draumskýringu mína:
"Hefðbundnar gamlar draumskýringar tengdar tönnum tengja þær gjarnan við nánustu ættingja og vini og eru þá jafnvel ákveðnar tennur tengdar börnum og aðrar foreldrum og vinum. Þannig er algengt að túlka það svo að tennur í efri góm séu fyrir karla en í neðri góm fyrir konur. Framtennur eru börn en augntennur foreldrar. Þegar horft er á slíkar skýringar á draumtáknum þá er tannmissir talin boða veikindi eða erfiðleika viðkomandi"
Að tennurnar séu með brúnum blettum vil ég túlka á þá leið að einhver veikindi eða erfiðleikar steðji að í vinahópi/fjölskyldu þessa manns. Tattú er því miður heldur ekki neitt gott merki, því það er oftast túlkað sem ákveðin viðvörun til viðkomandi og þá sérstaklega á þann veg að flana ekki að neinu. Meira get ég því miður ekki sagt þér útfrá þessum litla texta sem þú gefur mér, en vona að þetta komi þér eitthvað á sporið með að skilja drauminn. Þér er einnig velkomið að senda mér frekari spurningar ef þetta kveikir einhverjar hugmyndir hjá þér.
Bestu kveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2007 | 23:32
Þrír draumar
Þessi draumur barst frá: Sigfríður Steingrímsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 8. des. 2007
Sæll draumaráðandi, mig langar að vita hvort hægt er að ráða eitthvað í þessa drauma.
Mér fannst ég vera sofandi og vakna við það að það er verið að laga ofan á mér sængina. Ég lít upp og horfi framan í eldri mann sem ég kannaðist ekkert við, hann brosir til mín strýkur mér um vangann með hlýrri en frekar hrjúfri hendi, beygir sig niður að mér og kyssir mig á ennið og hverfur síðan.
Draumur 2. Mér finnst ég vera stödd í litlu þröngu og frekar gömlu eldhúsi. Þá kemur inn sami maður og í fyrri draumnum, réttir mér höndina og leiðir mig út á að mér fannst smá stétt eða hellu fyrir framan útidyrnar, bendir mér á lítinn blikk bala sem í eru 2 silungar annar feitur og vænn en hinn lítill og hreistrið matt, og ég hugsaði með mér að hann hlyti að hafa verið dauður í neti. Beygi mig niður og skoða í tálknin og sé þá að þau eru bleik svo hann hefur verið lifandi þegar hann var veiddur. Þegar ég legg hann frá mér í balann aftur er hann orðinn gljáandi og fallegur Allt í einu tek ég eftir lítilli og frekar vesældarlegri þrílitri fjólu sem vex upp með stéttinni og aðeins utar sé ég breiðu af gleym mér ey.
Draumur 3. Enn dreymir mig að ég sé í sama eldhúsi og horfi út um glugga og sé þá sama mann sitja á stéttinni fyrir framan húsið. Ég labba til hans. Hann lítur á mig og brosir til mín tekur í höndina á mér og lætur mig setjast hjá sér, bendir mér á þrílitu fjóluna, sem mér finnst vera fölnuð og líf lítil, tekur hana svo upp og leggur í lófann á mér og lætur mig kreppa fingurna laust utan um hana smá stund, réttir svo úr hendinni á mér og brosir, þar liggur fjólan falleg og eins og ný útsprunginn, hann faðmar mig, stendur síðan upp og gengur inn í húsið. Gaman væri að fá að vita hvað er verið að segja mér eða sýna mér. Ég hef grun um hver þessi maður er því vinur minn þekkti hann af lýsingu minni. Kveðja Sigfríður Steingrímsdóttir
Draumráðning:
Kæra Sigfríður. Takk fyrir að senda mér draumana þína sem mér er sönn ánægja að ráða í, því það er ekki á hverjum degi sem maður fær svona yndislega og táknræna drauma að eiga við. Þetta eru draumar sem hver manneskja ætti að óska sér að fá að dreyma. Draumarnir þínir eru fyrst og fremst að segja þér hve miklu þú getur ráðið um líf þitt og hamingju og jafnframt að góðir hlutir bíða þín ef þú ein leifir þér. Hver svo sem þessi maður er, lífs eða liðinn, þá er hann að koma fyrir í draumum þínum sem fulltrúi leiðbeinenda þinna og verndara og er að sýna þér að þú hefur mikla vernd og jafnframt að þú býrð yfir eiginleikanum til að heila bæði líf þitt og annarra.
Bæði fjólan sem þú gefur líf og fiskarnir eru afar táknræn. Fjólan sem lifnar við er hrein vísbending þess að þú getir sjálf glætt líf þitt þeirri hamingju og ást sem þú þráir, en fjólan er boðberi þess að þú eigi enga óvini og að sú ást sem þú þráir verði endurgoldin. Fiskarnir minna þig á þessa hæfileika þína einnig og eru tákn trúar og samsvörun við tilfinningalíf þitt í vöku.
Ég endurtek því að þessir draumar þínir eru hreint yndislegir og eru að minna þig á mátt þinn og getu og þína andlegu hæfileika og mátt til að glæða líf þitt þeirri hamingju og frið sem þú ein óskar.
Bestu kveðjur og óska þér alls góðs :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2007 | 22:48
Ferðalag, tigrisdýr fljót og fleira í draumi
Þessi draumur barst frá: Sigríður Sigurðardóttir, laugard. 1. des. 2007
Sæll kæri draumráðandi, Hef sent þér drauma áður og fengið góðar ráðningar. Langaði að senda þér einn frá í nótt, sem ég næ ekki alveg áttum með. Var stödd við mikið fljót í mið-Afríku, sem streymdi til suðurs. Var í ferðahóp með mér yngra fólki, sem ég þekkti ekkert. Ungur maður um þrítugt er leiðsögumaður hópsins. Hann bendir okkur á fallegt tígrisdýr sem er austan megin við fljótið (við vorum á bakkanum vestan megin). Tígrisdýrið stingur sér í fljótið og leikur sér í því. Syndir síðan niður með lygnu fljótinu til suðurs. Við fylgjum því eftir gangandi, og leiðsögumaður talar um að tígrisdýr séu í útrýmingarhættu, því maðurinn mengi fljót öll svo illilega, að vatnagróður og slý sé orðið eitrað fyrir tígrisdýr. Ég hef áhyggjur af dýrinu, en því virðist ekki verða meint af sundinu, og syndir eftir endilöngu fljótinu alla leið til Suður-Afríku. Þar fer það í land í skógarþykkni, austan megin, en við höldum áfram niður eftir, alveg niður að bæ syðst út við sjóinn. Þar rétt fyrir ofan bæinn smá minnkar fljótið og hverfur okkur loks með öllu, svo þurr farvegur og skraufþurr ós blasir við. Þetta segir leiðsögumaður vera sök mannanna. Þeir hafi byggt ríkra manna bæ þarna út við ströndina og sett fljótið í neðanjarðargöng mikil, og virkjað það. Nú séu fyrri íbúar bæjarins og bændur úr sveitinni í kring á heljarþröm sökum vatnsskorts. Við förum yfir girðingu inn í ríkra manna bæinn. Þar stór einbýlishús með stórum sundlaugum fullum af blátæru vatni, og stórum fallegum görðum, en utar fátæklegir kofar á skraufþurrum melum. Þar býr þjónustufólk þeirra ríku. Leiðsögumaður úthúðar ríka fólkinu fyrir vatnseyðsluna í sundlaugarnar, en segir að því miður sé móðir hans ein af þessu ríka pakki sem þarna búi, og eyði öllu vatninu í sundlaugar og rafmagn. Við komum að fallegu húsi hennar, og förum inn. Þar inni er allt ríkmannlegt, snyrtilegt og bjart, og útsýni fallegt út á sjóinn. Við förum út að sundlaug móðurinnar, og samferðafólk mitt stekkur fullklætt út í laugina ( man sérstaklega eftir svartklæddri ungri stúlku), en ég fer úr sokkum og skóm og kæli aðeins fæturna í hitanum. Móðirin (ljóshærð kona) kemur heim skömmu síðar, og segir syni sínum, að nú megi hann vera ánægður með sig. Hún sé farin að fá ríka fólkið til að spara rafmagn, með því að fá það til að kaupa ódýrar og rafmagnssparandi dyrabjöllur! Honum finnst þetta ekki mjög merkilegt framtak. En móðirin segir: "En þetta er allavega byrjunin, og það er alltaf gott að byrja smátt". Vakna. Hef aðeins komið til norður-Afríku í vöku, hef dálæti á kattardýrum, stórum sem smáum og á kisu. Þætti gaman að fá ráðningu, þá þú hefur orku og tíma. Með þakklæti og góðum óskum, Kveðja S.
Draumráðning:
Sæl Sigríður og takk fyrir að senda þennan merkilega draum þinn. Ég get ekki sagt að ég sé viss hvernig beri að túlka þennan draum þinn, sem getur í senn verið með ákveðin skilaboð til þín um leið og hann er varnaðarorð gagnvart þeirri samfélagsþróun sem við höfum orðið svo áberandi áskynja síðustu ár. En fyrst að draumtáknum. Fyrst ber að nefna tígrisdýrið sem er gott draumtákn og er gjarnan boðberi trausts og góðrar vináttu svo lengi sem það ekki ræðst á viðkomandi í draumi. Vatn í draumi getur haft margar draumskýringar og því mikilvægt að setja það í samband við önnur draumtákn. Gruggugt eða mengað vatn er gjarnan fyrir veikindum eða mótlæti og þá sérstaklega ef viðkomandi er í vatninu. Uppþornuð á eða fljót er oft tákn eða fyrirboði vonbrigða eða getuleysis á einhvern hátt. Fljótið í þessum draumi þínum getur einnig verið merking tímaáss sem þú fylgir, eða ákveðinnar þróunar sem skeður í tíma.
Sé þessi draumur táknrænn fyrir þig sjálfa þá munt þú upplifa traust og stuðning á komandi tímabili. Þú gerir þér einnig fulla grein fyrir þeim villum sem samfélagið er á vissan hátt að stefna í og tekur ekki þátt í því (þú bleytir aðeins tærnar í lauginni meðan samferðamennirnir kasta sér í vatnið).
Boðskapur um samfélagið er þessi:
Meðan gengið er nær og nær náttúrunni og okkar umhverfi í þágu auðs, versna aðstæður fleiri og fleiri í heiminum. Þeir ríku eru þó að byrja að fá samviskubit yfir gjörðum sínum og grípa þá til ráða til að friða samviskuna og kaupa sér bætta ímynd. Þetta sjáum við ekki bara með dyrabjöllum draumsins, heldur er þetta hvað stærst í nýjasta æðinu þar sem fólk og fyrirtæki kaupa sér kolefnisjöfnun með ræktun skóga og aka um á lífdisel eða Biodisel. Hvort tveggja hljómar vel eins og rafmagnssparandi dyrabjöllurnar, en gallinn er bara sá að bæði atriðin auka enn á eymd þeirra sem minna hafa því í báðum tilvikum er gengið á matvælaforða heimsins og möguleikana til að brauðfæða alla. Ræktun belgjurta til eldsneytisframleiðslu hækkar landverð og gerir matvælaframleiðslu þriðja heimsins ósamkeppnisfæra. Sama er að segja um kolefnisjöfnunina sem gerir í raun ekkert fyrir jafnvægið þar sem hún tekur auðlindina sem landið er og bindur undir skóg. Þannig gera þessar aðgerðir ekkert gott fyrir mannkynið, þar sem aðeins er verið að fela og fresta vandanum. Kaupa sig frá gjörðum sínum. Þetta eru aðeins dæmi eða dæmisögur.
Ég veit þessi draumráðning mín hljómar meir eins og pistill um misskilin umhverfismál og vaxandi stéttaskiptingu heimsins heldur en hrein draumtúlkun. En málið er að ég held að þetta sé það sem draumurinn er að vekja þig til umhugsunar um og benda þér á, að þú eigir og munir láta þig þessi mál varða á einhvern hátt. Af draumnum er fyrir mér ljóst að þú verðir leidd áfram og njótir traust, látir þú verða af því.
Bið þig að taka þessu eins og það er og "láttu mig bara heyra það óþvegið" ef þér finnst þetta alveg "út í hött" hvað þig varðar. Leifðu mér endilega að heyra til baka hvort þetta hjálpi þér eitthvað á leið við að túlka drauminn þinn. Þú ein veist hvort þetta hefur sannleikskorn eða ekki. Tilfinning þín mun svara því.
Bestu kveðjur og óska þér alls góðs :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.12.2007 | 22:31
Sonur í vandræðum
Þessi draumur barst frá: Katrin Maria Magnusdottir (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 17. nóv. 2007
Sæl Mig langar að fá ráðningu á tveimur óvenjulegum draumum sem mig hefur dreymt síðustu tvær nætur og eiga ýmislegt sameiginlegt.
16. nóvember 2007: Elsti sonur minn (16 ára) hafði tekið eiturlyf og var í mjög ankannalegu ástandi. Hann stóð varla í lappirnar, skjögraði um og gat varla gert sig skiljanlegan en gat þó sagt mér að hann hefði tekið LSD. Ég reyndi að hjálpa honum að standa í lappirnar og reyndi að fá hann til að leggjast í sófa. Síðan var ég að reyna að hringja á neyðarlínuna, en tókst ekki, ekkert samband eða síminn virkaði ekki einhvern vegin. Á gólfinu var marglitt kurl, eins og glimmer eða glansskraut og ég fattaði allt í einu að þetta væru eiturlyfin. Þegar ég ætlaði að sópa því saman til að afhenda lækni þá var maðurinn minn búinn að sópa því upp og henda. Ég varð reið við hann, hundskammaði hann og skipaði honum að ná í þetta aftur.
17. nóvember 2007: Elsti sonur minn (sami og í fyrri draumi) var dáinn. Hann lá heima hjá okkur vafinn í svartan ruslapoka með mjótt reipi um hálsinn. Hann var búinn að liggja heima hjá okkur í viku og ég ákvað að ég yrði að koma honum í líkkistu sem var þarna og það yrði að jarða hann. Ég átti erfitt með að ráða við að bera hann yfir í líkkistuna þar sem hann er stærri og þyngri en ég og þegar ég fór að bisa við það fór hann að hreyfa sig. Hann kipptist við og kreppti sig saman. Ég tók pokana utan af honum og þá kom í ljós að hann var lifandi, hann leit samt út eins út eins og lík með helbláar varir. Hann opnaði augun og hreyfði sig meira og fékk eðlilegan lit í varirnar. Ég varð svo himinlifandi að ég hljóp út og hljóp um nágrennið og inn í garða nágrananna og alveg við eitt húsið. Maðurinn minn horfði á mig og sagði að ég mætti ekki fara þarna, en ég sagði að ég færi samt. Hann horfði á mig með kjánabrosi og skammaðist sín fyrir hvað ég var að gera og ég varð svo reið við hann fyrir að vera að hugsa um svona smámuni á stundu sem þessari þegar sonur okkar hafði verið heimtur úr helju. kveðja Kata
Draumráðning:
Sæl Katrín María og fyrirgefðu hve langan tíma þetta hefur tekið. Þó svo þessir draumar þínir báðir geti virkað ógnvænlegir þá tel ég ekki að þeir séu að boða veikindi né feigð eins og í draumunum. Þessi vandræði sonarins gætu þó bent til þess að einhver reyni að misnota hann eða svíkja á einhvern hátt og þá helst fjárhagslega. Reiði þín í garð mannsins þíns er bara að undirstrika traust hans í þinn garð. Hér getur þó verið vísbending einnig um að þér finnist hann smámunasamur í þinn garð í vöku. Ég tel því ekki neina ástæðu fyrir þig að óttast þessa drauma en ráðlegging til drengsins þíns væri bara að fara varlega í sínum félagahóp og þá sérstaklega ef um fjármuni er að ræða.
Vona bara að þetta komi þér að einhverju gagni.
Bestu kveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007 | 22:11
Fiðrildamaðurinn birtist í draumi
Þessi draumur barst frá: Ásdís Valdimarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), fös. 16. nóv. 2007
hæhæ fann þessa síðu af tilviljun, viltu ráða draum sem mig dreymdi í nótt. Ég var stödd í nýrri íbúð með stórum gluggum og svalahurð sem var með hvítan karm, ég var að loka hurðinni með lykli og vissi ekki hvernig læsingin virkaði. Öll stórfjölskyldan er í íbúðinni og er hinumegin að loka annarri hurð með lykli þá er hvíslað að okkur það þarf að renna lyklinum. Þessi rödd kom að handan og allt í einu fyllist íbúðin af fólki sem er farið. Allir verða skelkaðir og ég hugsa þetta gengur ekki. Þá svífur til mín kona (draugur) og finnst mér hún ætla að drepa mig en ég næ taki á henni og veit alveg hvað ég á að gera til þess að hún fari, svo kemur einn draugur af öðrum nema það stendur stór manneskja við hliðina á mér með svart fiðrildi yfir vinstra auganu og svartur skuggi teygist frá andlitinu þetta er kona með fjólublá sundgleraugu sem eru brotin og ég sé í æðarnar undir húðinni eins og hún hefði drukknað. Hún hvarf og þegar ég ætlaði að safna saman fólkinu mínu og ná því í hring til þess að ná alvöru sambandi við allt þetta látna fólk birtist hún aftur og mér fannst þetta vera fyrirboði hún kynnti sig sem fiðrildamanninn. Veran sat einhvernvegin yfir andliti þessara drukknuðu konu. Ég held marga miðilsfundi í draumi en aldrei þurft að berjast við neinn, ég er skyggn, en mig langar að fá útskýringu ef þú hefur tíma. Takk fyrir mig.
Draumráðning:
Sæl Ásdís og fyrirgefðu hversu seint ég tek við mér. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg að átta mig á því hvort draumurinn þinn beri einhvern boðskap til þín. Sé svo finnst mér þó líklegast að hann eigi við þig sjálfa frekar en einhverja aðra. Það hefur jafnan ekki þótt góðs viti að dreyma drauga í þeim skilningi þó margt jákvætt geti falist í því að dreyma framliðið fólk. Þegar framliðnir koma fyrir í draumum eru þeir oft að minna á sig og minna okkur á að það er eitthvað sem tekur við að þessu lífi loknu. En draugar hafa frekar verið taldir fyrirboðar einverra erfiðleika eða veikinda jafnvel og þá sérstaklega ef dreymandinn fer halloka fyrir þeim í draumi. Í þínu tilviki nærð þú tökum á aðstæðum og getur hrakið þá burt sem segir mér að þú munir sigrast á því mótlæti, hvert svo sem það kann að vera. Meira get ég því miður ekki sagt þér, en vona að þetta verði þér að einhverju liði.
Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2007 | 22:21
Draumarnir bíða
Þeir tveir draumar sem bíða ráðningar verða því miður að bíða eitthvað lengur. Mér þykir það leitt en ég hef bara ekki orkuna í þá núna, en það kemur vonandi fljótt.
:) og kveðja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007 | 23:32
Fuglar í draumi
Þessi draumur barst frá: Linda Björk Jóhannsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 14. nóv. 2007
Sæl. Ég rakst á síðuna þína á annarri heimasíðu og datt í hug að senda þér inn draum til ráðningar sem mig dreymdi aðfaranótt 8. nóvember. Ef þú hefur einhver tök á að spá aðeins í hann þá væri það vel þegið. Með fyrirfram þökk Linda Björk Jóhannsdóttir.
Mig dreymdi að ég svæfi í litlum skúr og útidyrahurðin var lokuð en hún náði ekki að hylja dyragatið fullkomlega, vantaði örugglega 20 cm upp á. Allt í einu flýgur hrafn efst á hurðina og reynir að rífa hana upp. Það sem mér fannst merkilegast við hrafninn var að hann var bæði hvítur og svartur og í draumnum hugsaði ég, sjaldséðir hvítir hrafnar, enn sjaldnari svartir og hvítir. Hrafninn náði loks að komast inn til mín og þá flaug lítill hvítur hrafn upp úr hausnum á honum. Í næsta draumi er ég greinilega enn að hugsa um þessa hrafna því þá er ég með tvo litla gára úti í garði og rekst á risastóran rauðan páfagauk sem var að vafra um í garðinum. Þegar ég er að spá í hvað allir þessir fuglar þýði (í draumnum) þá sé ég enn einn risastóran páfagauk, bláan í þetta skiptið fyrir utan garðinn og ég náði öllum páfagaukunum í fuglabúr og afhenti svo tveimur gömlum konum þá sem voru víst eigendurnir.
Draumráðning:
Sæl Linda Björk. Ég skal gera mitt besta til að ráða í drauminn þinn sem mér þykir vænt um að þú skulir senda mér. Fuglar í draumum geta haft margvíslega merkingu. Hrafnarnir eru því miður oftast tengdir sviksemi og þá oftast framhjáhaldi maka þegar þeir koma fyrir samkvæmt hefðbundnum draumskýringum. Þannig er það trú að fljúgi fuglar yfir höfði manns megi viðkomandi búast við að verða fyrir fordómum af einhverju tagi. Páfagaukarnir hinsvegar eru vísbending um að þú eigir að fara leynt með þín innstu leyndarmál, því hætta sé á að jafnvel trúnaðarvinur kjafti frá. Þrátt fyrir þetta eru þó litskrúðugir, fljúgandi fuglar gjarna gott tákn í draumum.
En að draumunum þínum. Mér segir svo hugur að þú búir við eitthvert óöryggi eða togstreitu varðandi eigin tilfinningar og þrár til lífsins. Að þú óttist að þú getir orðið fyrir einhverju mótstreymi takirðu ákvarðanir útfrá eigin brjósti og fylgir þeim. Í þeim efnum tel ég að þú hafir ekkert að óttast því draumurinn segir mér að þú ráðir bug á því og draumar þínir muni rætast. Þú fangar páfagaukana og afgreiðir þar með það sem beitt er gegn þér og stendur uppi heil. Hrafnarnir í draumnum þínum eru líka mjög sérstakir og má líkja þeim við jin og jang þar sem ljóst er í mínum huga að þau svik eða umtal sem þú verður fyrir leiða gott af sér fyrir þig þegar upp er staðið. Litli hvíti hrafninn sem flýgur úr höfði hins er vísbending þess að ljósið sigrar í þessari baráttu og að enginn fótur er fyrir því sem um þig er sagt eða látið liggja að. (Reynt að koma sökinni á þig á einhvern hátt).
Ég veit ekki hvort þetta hjálpar þér, en mér þætti vænt um að fá að heyra hvort þessi skýring mín "kveiki á einhverjum perum" hjá þér. Ef svo er þá er mikilvægt fyrir þig að hugleiða það sem kemur í hugann, því ef þú hlustar þá munu svörin við draumnum koma til þín. Þú getur líka gefið mér frekari upplýsingar um hvaða tilfinningu þú færð, eða meira um aðstæður þínar, því þá get ég kannski gefið þér nánari svör við draumnum.
Þú skalt ekki óttast þennan draum, frekar en eitthvert mótlæti sem þú kannt að verða fyrir, því ég er viss um að það er eitthvað sem þú afgreiðir farsællega fyrir þig sjálfa.
Óska þér alls hins besta :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2007 | 23:36
Fólk, hús og martröð
Þessi draumur barst frá: Jóga (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 1. nóv. 2007
Sæl. Mig langar að biðja þig að ráða fyrir mig langan draum sem var eiginlega martröð. Hann er á þessa leið: Mig dreymdi að ég væri stödd á AA-fundi. Þetta var mjög stór fundur, ábyggilega 100 manns. Svo var fundurinn búinn og allir fóru út. ég var síðust út en mundi á leiðinni að ég hafði ekki gert ráðstafanir með barnapíu fyrir son minn svo ég var hrædd um að hann væri týndur. Þegar ég kem út úr húsinu þar sem fundurinn var þá er enginn þar fyrir utan, ég hraða mér heim þegar þangað er komið er húsið mitt fullt af fólki og ég kemst að því að sambýlismaður (ég á engan sambýlismann) minn Gísli, hefur boðið öllum af fundinum heim. Þarna er fólk að gramsa í mínum persónulegu skjölum og gera sig líklegt til að stela verðmætum,m.a. stoppaði ég eina með gítar. Ég verð alveg brjáluð og rek nokkra af þessum gestum á dyr. Á efri hæðinni sé ég að sonur minn, sá er ég hafði áhyggjur af, er sofandi ásamt litlu systur sinni í mínu rúmi, það virtist sem hann hefði gætt systur sinnar og komið henni í rúmið. Mér var létt við það. Á ganginum uppi sem er frekar langur og mjór, hrynja niður úr loftinu tveir karlmenn, annan kannast ég við hann heitir Davíð, hinn þekki ég ekki, þarna er maður sem ég kannast við sem heitir Viktor. Rautt pluss er á lofti efrihæðarinnar, hinir óboðnu gestir hafa rifið það frá svo að nú sést í risloft og er ég alveg hissa á því að þarna sé ris því það vissi ég ekki áður. Ég fer þangað upp og eru þá komnar í för með mér tvær vinkonur mína, Anna Lóa og Alda Kristín. Þar blasir við tiltölulega mikið rými á tveimur pöllum. Á neðri pallinum er stórt, volgt, vatnsrúm, stóll þar sem einhver situr og málaratrönur með málverki. Málverkið er stórt og allskyns rauðir og gulir tónar í því (svoldið einsog eldur) en í miðri myndinni er hringur og máluð mynd af mér inní hann þar sem ég sit með krosslagaða fætur. Á efri pallinum í þessu nýuppgötvaða risi er svartur leðursófi og sjónvarp og til hliðar er stóll þar sem situr svartur api. Ég er þarna uppi og er alveg hissa á þessu og undrast á því að fólkið sem seldi mér íbúðina skyldi hafa skilið þetta dót eftir. Önnur vinkona mín bregst hinsvegar þannig við þegar við erum að fara þarna upp að hún segist ekki fara þangað því það sé eitthvað illt á ferðinni þarna. Við þetta finn ég til ótta. Svo er ég komin aftur niður þá hitti ég þennan sambýlismann minn (er maður sem ég þekki varla, er þó barnsfaðir vinkonu minnar og er samkynhneigður auk þess sem hann hefur átt við einhver geðræn vandamál að stríða). Ég er reið honum vegna þess að hann bauð öllu þessu fólki heim til mín að mér forspurðri, ég spyr hann hvort hann eigi vatnsrúmið uppi í risi, hann kvað já við því. Ég tjái honum reiði mína vega alls þessa fólks og segi honum það vera alveg óviðeigandi að hann sé að bjóða fólki heim til mín án þess að bera það undir mig fyrst. Svo segi ég honum að ég vilji að hann flytji út strax, hann segir að ég verði þá að borga honum til baka það sem hann hafði borgað fyrir að búa þarna, ég spyr hvað það hafi verið mikið, hann segir 15.000 kr. ég segi þú varst hér í tvo daga svo ég borga þér til baka 10-13.0000. Ég segi honum að hann eigi að afhenda mér lyklana að húsinu núna. Hann þykist leita í vasa sínum og réttir mér svo lykla sem ég veit að eru ekki réttir lyklar. Ég segist vilja fá rétta lykla, hann reynir nokkrum sinnum að láta mig fá ranga lykla, að lokum segi ég að ég muni ekki borga honum til baka nema hann skili réttum lyklum. Þá fer hann ofaní kassa og sækir lyklana. Að svo búnu tekur hann mig taki og gerist líklegur til að beita mig ofbeldi. Ég finn að hann ræður ekki alveg við mig svo ég er ekki mjög hrædd og mér tekst að ná símanum hans og fer nú að reyna að hringja. Fyrst vel ég númer vinkonu minnar, Helgu, hún svarar ekki svo fer ég að reyna að hringja í fyrrverandi manninn minn en mér tekst ekki að velja númerið hans, eða það er einsog ég kunni ekki á símann. Á meðan ég er að reyna að hringja eigum við í ryskingum og þetta á sér stað í andyri hússins. Ég er á einhverju augnabliki komin með putta af manninum í munninn og var að spá í það hvort ég ætti að bíta hann af, en gerði það ekki. Þarna koma svo nokkrir af gestunum og ætla að rétta manninum hjálparhönd við að yfirbuga mig (það voru kokkar) mér tekst þó að tala einn inná það að leyfa mér að sleppa út um útidyrnar. Á leiðinni út tekst mér að ná í símann minn og þegar út er komið hringi ég í 112, það svarar um síðir og fyrst hélt símastúlkan að ég væri að gera at. Úr húsunum í kring koma gamlar konur og ein ung kona kemur hlaupandi fyrir horn og er á flótta undan einhverjum misindismönnum. Ég á erfitt með að koma upp orði en þegar mér tekst það og bið um hjálp hjá 112 þá segi ég heimilisfang þar sem vinkona mín (Helga) bjó þangað til í sumar. S.s. húsið þar sem allt gekk á var ekki mitt raunverulega heimili. (í dag býr í þessu húsi misjafnt fólk). Svona endaði þessi draumur en ég vaknaði upp og var óskaplega hrædd.
Draumráðning:
Sæl Jóga. Um leið og ég þakka þér fyrir að senda mér drauminn þinn biðst ég forláts á að hafa látið hann bíða svo lengi. Ástæða þess er kannski helst sú að mér hefur aldrei gengið neitt vel að ráða í drauma sem hafa einkenni martraðar eins og þessi draumur þinn. Slíkir draumar eru ekkert endilega að bera neinn sérstakan boðskap, eru fremur að endurspegla eitthvert álag og áreiti úr vöku.
Mér hefur ekkert gengið of vel að tengja mig við þennan draum þinn, en eitthvað segir mér þó að þú munir upplifa eða uppgötva nýja hlið á þér sjálfri sem kemur þér nokkuð á óvart. Ekkert sem ber að óttast, því hér væri þá aðeins um nýjar áherslur eða nýja hluti að ræða sem þú færir að rækta með þér. Hér gæti einnig verið ábending til þín að láta ekki hlaupa með þig í gönur eða láta stjórna þér gegn eigin vilja. Það að þig dreymi þennan mann sem eiginmann þinn getur einnig verið fyrirboði um miklar breytingar á þínum högum. Ókönnuðu vistarverurnar í húsinu eru nýju hliðarnar á þér sjálfri sem þú munt uppgötva og þá reynir á þig að láta ekki hafa neikvæð áhrif á þig.
Meira get ég því miður ekki sagt þér um þennan langa draum þinn, en vona að þetta hjálpi þér eitthvað og óska þér um leið alls hins besta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2007 | 23:01
Skrúðaganga
Þessi draumur barst í gestabókina frá: Aðalheiði Haraldsdóttur, mið. 7. nóv. 2007
Sæl enn og aftur! Í nótt dreymdi mig draum sem mér líður afar vel með en það er eitt atvik í honum sem minnir á marga fyrri drauma mína sem ég skil ekki. Draumurinn hófst á því að ég vaknaði upp í stóru og björtu herbergi, það var hátt til lofts, vítt til veggja og gluggar á veggnum sem rúmið var upp við. Á veggnum gegnt rúminu voru dyr á báðum endum og þær voru opnar og sá þá beint út undir bert loft. Ég var stödd á Hornafirði (þar sem ég bjó áður) og mér fannst herbergisdyrnar vísa beint út á aðalgötu bæjarins. Eiginlega var eins og það væri bara þetta eina herbergi í byggingunni sem ég var í og í því var bara stórt rúm og kannski náttborð og slíkt, en ekkert prjál og punt og allir veggir auðir, engar gardínur eða neitt slíkt en mér leið mjög vel þarna. Maðurinn minn kom úr vinnunni og það stóð mikið til. Það var verið að fara að vígja stóra byggingu sem hann hafði verið að vinna við að byggja (auk annarra) og hafði verið að klára sitt á síðustu stundu (þetta stenst hluti sem raunverulega áttu sér stað). Við þurftum að drífa í að gera okkur klár fyrir hátíðina, en mér fannst svolítið óþægilegt að fólk sem gekk framhjá gat séð inn til mín svo að ég fór og lokaði hurðinni (það var næstum því eins og allur veggurinn væri opinn). Samt sem áður var eins og fólk gæti ennþá séð inn um rifu hjá mér. (Það er þetta atriði sem minnir á aðra drauma). Við klæddum okkur og drifum okkur út og það var mikið af fólki á ferli. Það fór skrúðganga eftir götunni, lúðrasveit og fylking hestamanna, þeir voru allir á rauðum eða jörpum hestum og klæddir hvítum buxum, bláum jökkum og með rauð bindi (fánalitirnir). Á eftir þeim kom síðan hópur fólks. Síðan erum við komin að útjaðri bæjarins og þar eru allir stopp, hestamennirnir sitja á hestum sínum og við erum að virða þá fyrir okkur. Þarna er folald, brúnt, sem maðurinn minn er að klappa og það prjónar fyrir framan hann og leggur fæturna á axlirnar á honum. Þarna eru líka tveir nokkuð stálpaðir grísir að hnusa og snöfla við fætur mér og annar þeirra stekkur allt í einu upp á mig eins og hundur. Þá kom að því er virtist eigandi grísanna og tók þá. Við hvorki meiddum okkur, hræddumst né reiddumst þessu uppátæki dýranna. Mig hefur stundum dreymt að ég sé alveg í spreng og þurfi að fara á klósettið á ókunnugum stöðum, t.d. í íþróttahúsi, skóla og slíkum almennum stöðum. Þá gerist það alltaf að það eru engar dyr fyrir klósettunum, þ.e. fyrir litlu klefunum, og jafnvel gluggar sem allt sést inn um. Stundum standa nokkur eða jafnvel fjöldamörg klósett hlið við hlið án þess að nokkrir skilveggir séu á milli þeirra og stundum hafa þau verið utandyra. Oftast eru þau þó í frekar gráu og óaðlaðandi umhverfi. Það er alltaf eitthvað ókunnugt fólk í kringum mig, jafnvel af báðum kynjum, en ég á engra annarra kosta völ en að notfæra mér þessi salerni. Svo vakna ég venjulega upp. Þetta minnir mig á atvikið í draumnum í nótt þar sem allir gátu séð inn í svefnherbergið mitt. Með fyrirfram þökk
Draumráðning:
Sæl Aðalheiður. Ég skal gera mitt besta til að ráða drauminn þinn. Bara svo við byrjum á skrúðgöngunni sem þú notar í titil draumsins þá er hún gott tákn. Almenn draumskýring er sú að það boði mikla tryggð í ástum þess er dreymandinn elskar að horfa á skrúðgöngu. Hestar í draumi eru líka jákvæð draumtákn og eru gjarnan tengdir við auðlegð og velgengni dreymandans.
En snúum okkur þá að þessu sem er sérstakt við drauminn þinn og minnir þig einnig á atvik úr fyrri draumum. Það sem ég tel að sé hér á ferðinni er að þú upplifir eitthvert varnarleysi gangvart því umhverfi/fólki sem þú umgengst. Þetta gæti verið ábending til þín um að efla sjálfstraustið þitt. Herbergið sem þig dreymir er að endurspegla sjálfa þig, hugsanir þínar og mat á eigin tilveru. Dyrnar sem standa opnar segja þér að þú átt val í lífinu og ættir ekki að láta neitt aftra þér í að fara þá leið sem þú telur þína réttu leið.
Boðskapur draumsins er sá að þú þarft að velja leiðina þína sjálf og fylgja vali þínu eftir, trúa á sjálfa þig. Þá bíður hamingjan þín. Þá muntu horfa á skrúðgönguna (upplifa tryggð í ástum) með þeim sem þú elskar mest.
Vona bara að þetta hjálpi þér við að skilja drauminn þinn.
Bestu kveðjur.
Bloggar | Breytt 13.11.2007 kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)