Draumur um börn og fortíð

Eftirfarandi draumur barst frá: Ásta Jóhanna (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 20. okt. 2007

Mig dreymdi draum sem situr i mér og mig langar mikið að fá ráðinn. Hann skiptist í þrennt.

Fyrsti partur:Ég er stödd í gamla grunnskólanum mínum. Börnin mín eru nemendur þar í dag og ég var stödd þar þeirra vegna en einnig vegna þess að ég var að koma þangað með lítið barn sem ég hafði verið að eignast og átti að fara að byrja i þessum skóla. Ég var líka ófrísk í draumnum og meðan ég var stödd í skólanum komst ég að því að ég ætti ekki bara von á þessu eina barni heldur átt ég líka von á tvíburum uþb. 5 mánuðum seinna. Ég var frekar miður mín og hálf skælandi yfir því að vera að fara að eignast öll þessi börn enda ekki á stefnuskránni að bæta við þau fjögur sem ég á fyrir. Ég hugsaði þó að ég ætti bara að bíta á jaxlinn og takast á við verkefnið enda gæti ég þetta alveg. Mér fannst samt verst að vera að binda mig yfir smábörnum þar sem ég hefði allt önnur framtíðarplön.

Partur 2:Ég er komin heim til foreldra fyrrverandi kærasta míns (vorum kærustupar í 7 ár fyrir 20 árum síðan). Þau eru að flytja og ég segi þeim að ég sé komin til að hjálpa þeim. Þau verða voða ánægð og taka mér fagnandi. Í holinu er stór motta og þegar ég lyfti henni upp sé ég að undir henni er allt morandi í svörtum pöddum. Mér fannst þær mjög óhugnanlegar en segi við fólkið sem þarna var statt að hafa ekki áhyggjur ég skuli redda þessu og hefst svo handa við að sópa saman pöddunum. Ég fór svo og náði í eitthvert efni og setti í fötu og hellti pöddunum þar út í svo þær myndu örugglega drepast sem þær gerðu en samt fannst mér að ein þeirra yrði eftir. Þegar ég er búin með pöddurnar dreg ég upp pínulítil stelpuföt og rétti fyrrverandi tengdamóður minni og spyr hana hvort hún muni ekki eftir þessum fötum. Hún hélt það nú og þakkaði mér innilega fyrir að skila þeim.

Partur3: Ég er stödd á Reykjavíkurflugvelli og er á leið til Ameríku með LOFTLEIÐUM. Flugafgreiðslan var í litlum sal og í draumnum fannst mér ekkert eðlilegra en þetta væri svona, þ.e. að þetta væri svona eins og það var í gamla daga. Þegar ég er að fara um borð í vélina kemur til mín lítil stelpa sem segir mér að hún sé líka að fara í þessari vél til Ameríku. Ég spyr hana hvar mamma hennar sé og hún segist ekki vita það og að það sé alltaf vesen á mömmu sinni. Ég ákveð að taka barnið með mér um borð og hafa hana hjá mér á leiðinni þannig að ég vissi að hún kæmist heilu á höldnu á leiðarenda. Þegar ég kem inn í vélina sé ég að maður sem ég hafði séð fara inn í vélina hafði skilið eftir pakka til mín í sæti fremst í vélinni. Ég skoða pakkann og sé að í honum er bók með myndum í og á einni myndinni stendur skrifað "mig langar að hitta þig í Ameríku". Ég legg bókina frá mér, lít á stelpuna litlu og segi " Hann setti pakkann í vitlaust sæti, hann setti hann í 1A en þar á ég alls ekki að sitja. Þar með lauk þessum þriggja parta draumi um börn og fortíðina. Ræð marga af mínum draumum sjálf en þó þessi sitji í mér hef ég ekki getað ráðið hann. Vona að þú getir það. Með fyrirfram þökk. Ásta Jóhanna.

Draumráðning

Kæra Ásta Jóhanna. Ég vona að þú takir því vel þó nokkuð sé liðið frá því þú sendir mér þennan merkilega draum þinn. Þetta er einn af þessum draumum sem maður "þarf að sofa á" og melta örlítið svo fremi að tilfinning dreymandans fyrir draumnum hafi ekki þegar átt svarið þegar viðkomandi vaknaði uppaf draumnum.

Þessi draumur þinn virðist við fyrstu sýn afar flókinn og hægt væri að drekkja sér við að reyna að túlka hvert draumtákn út af fyrir sig. Mér segir hinsvegar svo hugur að hér sért þú að fara á vit þinnar eigin æsku og margra atburða úr lífi þínu sem þú geymir í undirvitundinni og finnst að hefðu getað farið öðruvísi. Mér finnst ég finna ákveðna þrá í draumnum eftir áhyggjulausara lífi og jafnvel hlutum sem þér finnst þú hafa misst af í lífinu og á það bæði við menntun, samneyti við fólk og jafnvel ástarævintýri sem hefði átt að verða en varð ekki. Draumurinn þinn veit samt einnig á mikla velgengni sem byggist á dugnaði þínum og þrautseigju (pödduslagurinn). Eins og ég segi þá finnst mér þú vera að gera upp ákveðna kafla í lífi þínu og börnin eru þú sjálf á ákveðnum stöðum.

Ég veit þetta kann að virka torkennileg ráðning hjá mér en ég bið þig að skoða sjálf drauminn með þessu hugarfari og vita hvort þú getur ekki losað þig frá einhverju af þessum áhyggjum eða vonbrigðum. Þá fyrst finnurðu jafnvægi þegar þú sættist við það sem liðið er og vegurinn þinn verður ruddur og velgengnin ein bíður þín.

Láttu mig endilega heyra frá þér hvort sem þetta hjálpar þér eða ekki, því það er nú alltaf þannig með drauma að enginn er í jafn góðri stöðu og dreymandinn sjálfur að meta hvað er rétt tilfinning og hvað ekki fyrir slíkum draumum.

Óska þér alls hins besta og ráðlegg þér að leifa þér að lifa lífinu lifandi á eigin forsendum

Mínar bestu kveðjur :)

 


Skrýtinn draumur

Eftirfarandi draumur barst frá: Kristín (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 31. okt. 2007

Vinkonu mína dreymdi mig og ég var alltaf að kyssa hana beint á munninn og biðja hana um að koma með mér til Köben í helgarferð. Síðan sagði ég að við værum ekki alltaf svona ungar og ferskar og ættum að nota tímann vel og svo ætlaði ég alveg að éta vinkonu mína og kyssti hana aftur og aftur ??? Óska hér með eftir ráðningu á þessum skrýtna en skemmtilega draumi.

Draumráðning

Sæl Kristín og takk fyrir að senda drauminn þinn. Kossar í draumi eru ekkert einfalt draumtákn að eiga við því þeir geta bæði boðað sátt og frið eða deilur, sviksemi og vonbrigði í ástum. Þegar kossar koma við sögu er því mikilvægt að taka efir öðrum draumtáknum til að túlka draumana. Í tilviki vinkonu þinnar er einnig mikilvægt varðandi ráðninguna hvernig henni leið með þetta í draumnum.

Ferðalagið sem þig langar í er hins vegar fyrirboði þess að þig dreymi um að ná fram einhverjum breytingum á þínum högum og að þú reynir að fá vinkonu þína með þér með þessum "vinalátum" getur einnig bent til þess að hún (dreymandinn) tengis því á einhvern hátt, en einhvernvegin óttast ég pínu að þetta tengist einhverjum vonbrigðum í ástum og þá frekar hjá henni en þér.

Því miður kemst ég ekki lengra með þennan draum vinkonu þinnar, en með meiri upplýsingum um tilfinningar hennar í draumnum og hvort þið töluðuð saman gæti hjálpað.

Bestu kveðjur :)


Að missa tennur í draumi

Eftirfarandi draumur barst frá:  Agnes (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 30. okt. 2007

Sæl, Ég rakst á þessa síðu á einhverju flakkinu, og langar svo til að prófa að biðja þig að þýða fyrir mig draum, sem mig er búið að dreyma núna 2 nætur í röð. Þannig er það, að ég er stödd í eldhúsi hjá vinkonu minni, við erum að drekka rauðvín. Allt í einu fer ég á klósettið, en þá eru margar tennurnar mínar dottnar úr mér og önnur framtönnin í efri góm er laus, og ég alltaf að tylla henni á réttan stað til þess að stelpurnar taki ekki eftir því. Passa mig á því að brosa ekki breytt, svo tönnin detti ekki úr mér. Með von um svör við þessum draum. Þakka þér kærlega fyrir

Draumráðning

Kæra Agnes. Takk fyrir að senda drauminn þinn. Ég vona bara að ég geti orðið að einhverju liði við að ráða hann. Hefðbundnar gamlar draumskýringar tengdar tönnum tengja þær gjarnan við nánustu ættingja og vini og eru þá jafnvel ákveðnar tennur tengdar börnum og aðrar foreldrum og vinum. Þannig er algengt að túlka það svo að tennur í efri góm séu fyrir karla en í neðri góm fyrir konur. Framtennur eru börn en augntennur foreldrar. Þegar horft er á slíkar skýringar á draumtáknum þá er tannmissir talin boða veikindi eða erfiðleika viðkomandi.

Í þínu tilviki tel ég þó að hér sé miklu fremur um þína sjálfsmynd að ræða. Hvítar og fallegar tennurnar eru tákn heilbrigðis og sjálfstrausts. Það að þú missir tennurnar og felur það fyrir vinkonum þínum segir mér að þú eigir við eitthvert vanmat á eigin getu að stríða eða lendir í einhverjum þeim aðstæðum að þér finnist þú ekki verðug þess sem þig dreymir um.

Mín ráðlegging til þín er að fara yfir þetta í huganum og vita hvort þetta á við rök að styðjast. Ef svo er þá skaltu reyna að efla sjálfstraustið þitt og trú á eigin getu, því enginn er öflugri, viljasterkari eða fallegri en viðkomandi ákveður að vera. Eitthvað segir mér líka að þú hafir enga ástæðu til að efast um eigin getu, útlit eða útgeislun. Vertu þú sjálf og sendu sjálfinu þínu jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir. Það gerir svo mikið gott.

Farðu vel með þig :) og ég sendi þér mínar bestu kveðjur.


Draumráðningar fljótlega :)

Um leið og ég þakka fyrir alla fallegu og fróðlegu draumana sem streymt hafa inní gestabókina mína verð ég að biðja ykkur kæru lesendur um að sýna mér þolinmæði gagnvart ráðningum á draumunum, þar sem þetta er bara áhugamálið mitt og tíminn ekki alltaf að hjálpa mér þessa dagana.

15-7-2006-8551Ég vona að ég geti tekið til við þá þrjá drauma sem bíða ráðningar fljótlega, kannski á morgun hver veit. Ég þarf bæði fallegt kertaljós og næði til að gera þetta af alhug. En aftur bestu þakkir fyrir að lesa bloggið mitt og leyfa mér að rýna í draumana sem margir eru afar spennandi og gefa mér mikið í leit minni við að upplýsa draumaveröldina.

Kærleikskveðjur til allra sem þetta lesa og hikið ekki við að senda fleiri drauma í gestabókina.

:) og kveðja Draumar


Himnastigi í draumi

Þessi draumur barst frá: hrefna (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 22. okt. 2007

Sæl aftur Mig dreymdi að ég væri að ganga upp mjög háan stiga (himnastigi en ég var á leið í leikhús) og það var fullt af fólki á sömu leið og ég. En margir duttu út af stiganum þar sem engin handrið voru. Ég horfi á eftir fólki detta og það var mjög langt niður. Fyrir neðan var hafið en það var stillt. Þegar ég kom upp þá voru svona einstigi yfir í lokastaðinn. Ég sá fólk detta niður af honum og mér fannst ég ekki hafa neinar áhyggjur af því að komast ekki yfir. En ég fór ekki yfir en fannst eins og ég færir yfir engu að síður. En þyrfti bara ekkert að óttast. Ein þeirra sem fór út á einstigið var kona að nafni Þóra og hún datt niður. Mér fannst þetta vera frænka mín sem heitir Þóra en ég sá hana samt ekki. Þessi draumur er mér hugleikin þessa stundina og yrði ég þakklát ef þú gætir hjálpað mér að skilja hann. Kkv. HI

Draumráðning:

Þessi draumur þinn er afar táknrænn og um leið skemmtilegur. Það að þig dreymir stigann og þessa einstigu merkir að þú munt sigrast á einhverju sem þú ert að takast á við. Þú munt þannig ná markmiðum þínum en það er þó ekki víst að það verði alveg þrautalaust. Þú gætir þurft á þolinmæðinni að halda og vissu áræði til að fara alla leið, en það engin spurning í mínum huga að þangað muntu fara. Það að þú ert á leið í leikhús getur hins vegar verið ofurlítið tvíbent því leikhús veit oft á eitthvað sem er ekki raunverulegt eða öðruvísi en ætlað var. Ég tel þó hér að þar sé ekkert neikvætt á ferð þar sem stiginn er svo ákveðið tákn til þín. Þú kannt efalaust að finna betri skýringu á því ef þú áttar þig á því hvað hér er á ferðinni sem þú ert að takast á við. Að þig dreymir frænku þína veit bara á hjálpsemi frá hennar hálfu. Tel ekki að hennar innkoma hafi aðra merkingu hér.

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað við að skilja drauminn þinn.
Bestu kveðjur


Mannanöfn í draumum

Þessi fyrirspurn barst í gestabókina 

Getur þú sagt mér hvað nöfnin Ingunn og Friðjón tákna. Mig hefur nú dreymt þetta fólk í þrígang síðustu mánuði. Þetta eru foreldrar gamals skólafélaga, konan er á lífi en maðurinn látinn. Mig dreymir að ég hitti þau og þau taka mér afar vel. Kveðja

Svar

Mannanöfn í draumum eru oft mjög táknræn fyrir þann sem þau dreymir og eru þá oft ábending um eitthvað sem tengist beint viðkomandi fólki lifandi eða liðnu. Þannig þurfa nöfn ekki endilega að tákna eitthvað ákveðið þó til séu hefðbundnar draumskýringar á mörgum nöfnum. Ef svo er er mikilvægt að horfa eftir öðrum táknum í viðkomandi draum til að skynja hver skilaboðin séu.

En ef við horfum bara á nöfnin en ekki persónurnar þá er nafnið Ingunn afar gott draumtákn og boðar góða hluti fyrir dreymandann. Hinsvegar kann ég engar sérstakar draumskýringar tengdar nafninu Friðjón. Það eina sem ég gæti ráðlagt þér er að leita upplýsinga um þennan gamla skólafélaga þinn sértu ekki þegar í einhverju sambandi við hann, því hér gæti verið ábending til þín um að hann þarfnist þess á einhvern hátt.

Með bestu kveðju


Minn meiddi skrokkur datt

Þessi draumur barst frá:  

Málið er að það er búið að spengja á mér bakið sem er ekki í frásögur færandi, nema það að ég er búin að vera með stanslausa verki þangað til í jan. s.l. þá fékk ég nýtt lyf sem að sló á verkina, en ég þarf samt að spara mig en ofsa gleði, ég hef haft verki í baki í 27 ár og þreytan orðin ansi mikil. Svo dreymir mig í feb. draum sem að situr í mér ennþá. Ég er úti að ganga og er ekki í alfaraleið og ég dett illa og járnin standa út úr bakinu á mér og ég gat ekki hreyft mig og það leið langur tími þar til ég fannst. Og þá vaknaði ég. Kveðja Sóla

Draumráðning:

Kæra Sóla. Þennan draum skaltu ekki óttast, því hann er nokkuð örugglega andhverfa þess sem þú munt upplifa. Draumurinn er einnig vafalítið að endurspegla ákveðinn ótta þinn um að bakið muni einhveratíma bresta og þannig verði komið fyrir þér að þú getir ekki hjálpað þér sjálf. Ég ætla þó ekki að útiloka að þú gætir orðið fyrir einhverri niðurlægingu, en samt ekki þannig að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því.

Þetta snýst alla vega ekki um sjálft bakið á þér í vöku, svo mikið er ég viss um.

Bestu kveðjur og gangi þér vel.


Refur og minnkur í garðinum mínum

Þessi draumur barst frá: Jóna Sigurbjartsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 16. okt. 2007

Kæri draumaráðandi, Í nótt svaf ég mjög illa, og þegar ég náði að festa blund, dreymdi mig að minkur stökk á stofugluggann, illilegur á svip, þegar ég aðgætti betur sá ég að hann var að eltast við ref í garðinum mínum, að mér fannst í draumnum. Það næsta sem ég man er að ég leit út um gluggann og sá bæði ref og mink liggja dauða í garðinum og manninn minn ganga að refnum og athuga hvort hann væri ekki örugglega dauður. Og svo vaknaði ég auðvita með hjartslátt. Mér finnst þetta óhuggulegur draumur, og get varla um annað hugsað í dag, með von um ráðningu, kveðja Jóna.

Draumráðning:

Kæra Jóna. Ekki veit ég hvað það er sem mun sækja á þig, en ljóst er þó að einhverjar deilur eða erjur eru í aðsigi (refurinn) en Minkurinn er hins vegar boðberi betri hluta, jafnvel upphefðar af einhverju tagi. Að refurinn liggur í valnum getur einnig verið happamerki.

Mikilvægast er þó fyrir þig að skoða hvað hug þú berð til þessara dýra, því þau koma vafalítið fyrir í draumnum til að vekja hjá þér ákveðna tilfinningu sem gefur þér sjálfri svarið við draumnum. Þannig getur þú ein fundið réttu draumtáknin fyrir dýrin í þínu tilviki.

Meira get ég því miður ekki gert fyrir þig við ráðningu á þessum draum.

Kær kveðja


Barnalán ömmu minnar

Þessi draumur barst frá: Júlía Atladóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 16. okt. 2007 

Góðan dag. Amma mín lést fyrir um ári síðan og í síðust viku dreymdi mig hana svo skýrt. Ég fór til hennar uppá Grund þar sem hún sat prúðbúin, búin að lita á sér hárið og leit miklu betur út en á meðan hún lifði. Ég talaði við ömmu og sá þá barn liggja í rúminu hennar og ég sagði já amma alveg rétt þú átt barn. Barnið var lítið og hafði greinilega ekki verið mikið örvað, var um 3 ára. Ég spjallaði við barnið og sá þá annað barn í rúminu sem var minna. Amma sagði ég ertu með annað barn, amma var að hálf fela þetta barn en samt virtust starfmenn elliheimilisins vita af því. Amma sagði já þetta er barnið mitt sem ég fæddi þegar ég var 13 ára og það kom til mín aftur. Ég kvaddi ömmu og á leiðinni út stökk hvítur köttur á löppina á mér og ég vaknaði við að ég var að reyna að hrista köttinn af mér :) Með von um ráðningu á þessum sérkennilega draumi, bestu kveðjur Júlía Atladóttir.

Draumráðning:

Kæra Júlía. Ég held ekki að þessi draumur þinn sé að boða neitt sérstakt sem muni henda þig, heldur er amma þín að vitja þín í draumi til að segja þér hluti sem hún gat ekki sagt þér í lifanda lífi og vill forða þér frá að lenda í slíkum aðstæðum eða vera þátttakandi í slíkum aðstæðum. Ég veit ekki alveg hvað þetta er, en það er eins og amma þín hafi á einhvern hátt verið rænd barnæskunni (kötturinn), en jafnframt að barnæskan og einnig eitthvert tímabil unglingsáranna hafi verið henni erfitt, en að hún sé búin að finna sína sátt og uppgjör á þeim tíma. Litaða hárið hennar vitnar um ákveðinn hégóma eða yfirlæti eins og hún hafi falið þetta fyrir öðrum.

Ábending draumsins er að þú eigir að hrista af þér köttinn sem reynir að ræna þig barninu í þér sjálfri sem þarf að fá að dafna alla lífsgönguna. Það er það sem hún amma þín vill kenna þér.

Bestu kveðjur til þín :)


Guð í draumi

Þessi draumur barst frá:  Ásta María, mán. 15. okt. 2007

Þegar ég var ung eða svona 19 ára þá dreymdi mig draum. Mig dreymdi að Guð stæði við hliðina á mér og sagði mér að fara til þriggja manna áður en þeir myndu deyja eða um 26 ára aldur og segja þeim skilaboð. Ég spurði hver skilaboðin voru og af hverju þeir þyrftu að deyja svona ungir en hann sagði að ég myndi vita það þegar ég kæmi þangað og það væri allt í lagi að þeir myndu deyja vegna þess að sálir þeirra myndu fæðast í þremur sálum , svo sá ég konu í rúmi með þrjú börn. Mennirnir hétu Arnar, Sigurður og Jón. Ég fann þá á kaffihúsi við hringborð og fór til þeirra til að segja þeim skilaboðin en ég vissi þau aldrei en samt virtist ég segja þeim eitthvað. Arnar og Sigurður sátu við borðið en Jón stóð og var einsog hann væri að fara. Jón var dökkhærður Sigurður skollitaður og Arnar var svona ljóshærður. Arnar virtist vera aðalmaðurinn og ég talaði beint við hann en samt var ég að segja hinum þetta líka. Þegar ég skilaði til þeirra þessum mikilvægu skilaboðum frá Guði, þá sagði Arnar, æi láttu ekki svona og hann vildi ekki trúa mér. Ég sagði að Guð hefði sagt að þeir þyrftu að klára eitthvað verkefni áður en þeir myndu deyja. Þeim fannst ég vera að rugla og hlógu að mér nema Jón.

Draumráðning:

Sæl Ásta María. Þessi draumur þinn er um margt nokkuð sérstakur. Annarsvegar er hann þéttsetinn með því sem við getum litið á sem draumtákn, mannanöfnin, háralitur, kaffihús, skilaboð o.s.frv. Ég vel þó hér að fara ekki að kryfja drauminn þinn á þann hátt því mín tilfinning segir mér að hér sé um mun æðri skilaboð að ræða, visku sem sál þín þekkir og veit, en undirvitundin er að reyna að minna þig á fyrir lífsgönguna. Skilaboð um skilning á tilgangi lífsins og hvert hlutverk þitt sé í þessu lífi.

Það að dreyma guð er eitt besta draumtákn sem komið getur fyrir og boðar mikinn kærleik og tilgang í lífi þínu. Það að hann talar til þín er ennþá sterkara. Mér segir svo hugur að þú sért mjög næm persóna og vitir undir niðri margt um hluti og fólk þó þú tjáir þig kannski ekki um það dags daglega. Skilaboð draumsins til þín eru umfram annað að þér er ætlað stórt hlutverk í lífinu og jafnframt að þú munir miðla einhverri visku til fólks sem hefur tilgang og nær fram að ganga. Þú getur líka litið á mennina þrjá sem hluta af þér eða lífsgöngu þinni. Sigurður segir fyrir um erfiðu kaflana sem þú munt samt sigrast á, Jón það góða, og Arnar að fyrirætlanir þínar nái fram að ganga. Þú átt innra með þér viskuna og svörin til að takast á við hvern þann kafla. Þó þú þekkir ekki skilaboðin í dag þá muntu vita þau þegar þú þarft á þeim að halda ef þú treystir á visku þína og styrk. Þannig klárarðu hvern kafla lífs þíns eða hjalla.

Það að mennirnir muni deyja ungir, konan með börnin þrjú, og orð Guðs um að sálir þeirra muni fæðast í nýjum sálum tel ég einnig vera hér til að undirstrika fyrir þér þennan skilning á lífinu. Að þú leifir þér að nýta sálarvisku þína og reynslu fyrri tíma án þess að vantreysta.

Þetta er mjög fallegur draumur og boðar klárlega mikla gæfu fyrir þig. Mér þætti gaman að heyra hvort þessi ráðning mín "kveikir á einhverjum perum" hjá þér. Ég skal líka skoða þetta betur ef þú villt útfrá tilfinningu þinni fyrir þessari ráðningu.

Kveðja


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband