Heilaæxli í draumi

Þessi draumur barst frá: Betty (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 5. feb. 2008

Mig dreymdi að ég væri með heilaæxli, og það væri ástæðan fyrir því að mér væri alltaf illt hér og þar. Svo er ég alltaf með hjartslátt vinstra megin í hausnum, hausverk og svima. Hef nú bara haldið að það væri vegna næringarskort, mígreni eða þreytu. Ég efast nú um að ég sé í alvöru með heilaæxli hehe. En í draumnum var svo rakað smá af hárinu á mér og mér gefið raflost með e-rjum löngum pinna sem að var með 2 pinnum út úr endanum, á skallann. Og þá lagaðist ég og var "Allt önnur manneskja" eins og mamma sagði við mig í draumnum. Ég var með fastar fléttur og rauðbrúnt hár í draumnum en er samt með mjöööööög sítt alveg ljóst hár í alvörunni og ALDREI með neitt í því. Ég fæ innilokunarkennd ef að ég set e-ð í hárið á mér, þess vegna var þetta svo furðulegt. En ég var ekki að upplifa þetta sjálf í draumnum heldur var ég að horfa á þetta. S.s. að horfa á mig eins og þetta hafi verið í sjónvarpinu. Hvað þýðir þetta?

Draumráðning:

Sæl Betty og takk fyrir að senda mér þennan draum þinn. Til að vera viss þá verð ég að setja fram smá spurningar um það hvar skilin eru milli þess sem þú upplifðir í draumnum og þess sem þú ert að upplifa í vöku. Ertu í vöku "alltaf með hjartslátt vinstra meginn í höfðinu, hausverk og svima"? eða er það hluti af draumnum einnig? Sértu að upplifa þetta í vöku ættirðu ekki að leiða hugann hjá því og bara kenna þreytu, mígreni eða næringarskorti um. Það getur allt efalaust verið ástæða, en sé svo ættir þú að gera eitthvað í þínum málum; fara og tala við lækninn þinn ef þú hefur ekki þegar gert það. Ég ætla ekki að hrella þig með þessu en það er engin ástæða fyrir þig að búa við slíkar þjáningar og í ofanálag álagið sem fylgir efasemdunum um hver gæti verið ástæðan fyrir þessu.

En þá að draumnum þínum. Það að dreyma eigin veikindi er almennt góðs viti í draumi og boðar sjaldan veikindi í vöku. Við verðum samt að hafa í huga að draumtákn eru oft einstaklingsbundin og eru oft á þann veg sem líklegast er að dreymandinn sjálfur skilji eða meðtaki sem leiðsögn frá sínu innra sjálfi. Í þínu tilviki vil ég því ætla að heilaæxlið geti verið ábending til þín um að huga að eigin heilsu og um leið andlegu jafnvægi; Hreinlega að hlusta á þegar líkaminn kvartar og bregðast við því. Verkir og vanlíðan eru einfaldlega gaumljós líkamans til að kalla á hvíld, lækningu eða rétt mataræði og hreyfingu svo eitthvað sé nefnt.

Það eru fleiri tákn í draumnum þínum sem vert er að huga að. Fléttaða hárið þitt er ákveðin viðvörun til þín um samskipti við einhvern af hinu kyninu sem gæti valdið þér sársauka eða erfiðleikum af einhverju tagi, en um leið má lesa að hárið boði tilvist nýrra vina eða breytinga á þínum högum og þá jákvæðar. Það hvernig móðir þín talar til þín í draumi er ábending um eitthvað sem þú ert ekki fyllilega sátt við sjálf í eigin fari, en hefur engu að síður enga ástæðu til að hafa áhyggjur af. Eitthvað með þitt eigið mat á árangri eða líðan.

Á heildina litið vil ég segja að þú hafir ekkert að óttast við þennan draum þinn, en þú mátt samt alveg búast við að einhverjar breytingar og jafnvel skyndilegar verði í þínum vinahóp. Þar er lækningin sem þú færð í draumnum sterk vísbending. Mín ráðlegging til þín er að þú farir vel með þig og veiti þér þá hvíld og athygli sem þú sjálf þarft á að halda og svo í lokin "drífðu þig til læknis" því bara það eitt að þú fáir vissu fyrir því að ekkert alvarlegt ami að þér kemur þér hratt á sporið með að bæta heilsu þína og líðan til mikilla muna :)

Óska þér alls hins besta kæra Betty og bið þig að leifa mér að heyra frá þér þegar þú hefur lesið þetta, hvort þetta hjálpi þér við að skilja drauminn eða hvort þér finnist ég vera að "vaða reyk" :)

Bestu kveðjur


Missa tönn og krabbamein í draumi

Þessi draumur barst frá: Hrefna (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 4. feb. 2008

Mig dreymdi að ég hafi misst jaxl og hann hafi farið inn í sár á puttanum mínum. Ég þrýsti í sárið og tönnin kom út. Ég sýndi pabba hana og hann sagði mér að setja hana undir koddann. Kvöldið eftir dreymir mig að ég sé í skólanum og er að tala við vini mína, ég er með hárkollu því ég var með krabbamein og búin að missa hárið. Ég missti hárkolluna af mér og mér líður illa en tvær vinkonur mínar eru eftir hjá mér og segja mér að vera bara sköllótt og að það fari mér alveg en ég set hana aftur á mig. Hvað þýðir þetta ? Er þetta eitthvað hræðilegt ?

Draumráðning:

Kæra Hrefna. Ég skal með glöðu geði reyna að ráða í drauminn þinn. Ég tel næsta víst að þessi draumur þinn sé ekki að boða þér neitt hræðilegt eins og ég skynja að þú óttist. Draumurinn þinn er með mörg sterk draumtákn sem vert er að huga að; tannmissirinn, krabbameinið og hárkollan. Það að missa tönnina getur vissulega boðað vinamissi eða veikindi en þegar horft er á drauminn í heild tel ég hann snúast meir um þig og þína sjálfsmynd. Það er góðs viti að dreyma sig með krabbamein því það er andhverfa og boðar hreysti og jafnvel sigra einhverskonar t.d. í íþróttum. Hárkollan er hins vegar tákn ákveðins falsleika eða að þú sért að flýja þína persónu eða raunveruleikann á einhvern hátt, eða viljir jafnvel breyta þér. Mér segir svo hugur að eitthvað vanti uppá sjálfsálitið hjá þér og draumurinn þinn sé fyrst og fremst með ábendingar til þín um að það sé einungis í þínum eigin huga. Aðrir sjá þig ekki eins og þú. Vinkonur þínar meta þig mikils eins og þú ert og fyrir það sem þú stendur.

Ég vil því segja við þig að þú skulir skoða þínar tilfinningar og sjálfsmat og líta kokhraust í spegilinn og vera ánægðari með þig sjálfa, því þá nærðu meiri árangri og gleðin brosir við þér. Vertu samt viðbúin því að eitthvað geti komið uppá í vinahópnum, einhver missir eða veikindi, því tannmissirinn er að benda á eitthvað í vinahópnum en ekki innan fjölskyldunnar.

Vona að þetta hjálpi þér að skilja drauminn þinn og ég hvet þig til að hlusta á tilfinningar þínar fyrir draumnum þegar þú hefur lesið þetta, því þín eigin skynjun fyrir því sem þig dreymir er einatt besta draumráðningin sem völ er á.

Bestu kveðjur :)


Nekt í draumi

Þessi draumur barst frá: jóga (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 2. feb. 2008

Mig dreymdi að ég sæti nakin á grasbala á mótum nokkurra gatna í Vesturbæ Reykjavíkur, þetta var snemma morguns. Þá gengur framhjá mér (hinu megin götu) vinkona mín allsnakin og vinur okkar full klæddur. Ég hugsa með mér, jæja þau hafa verið saman í nótt (en hann hefur verið hrifinn af henni lengi án þess að það sé endurgoldið). Hefur þessi draumur einhverja merkingu? kv. Jóga

Draumráðning:

Sæl Jóga og takk fyrir drauminn þinn. Ég treysti mér ekki til að ráða þennan draum þinn með óyggjandi hætti þar sem nekt í draumi getur haft fleiri en eina merkingu og ekki endilega þá sömu fyrir alla sem slíkt dreymir. Í stað þess að koma með eina ákveðna ráðningu skal ég gefa þér dæmi um hvað slíkt getur þýtt í draumum og læt þér eftir að huga að því hvað geti átt við í þínu tilviki.

Ef við snúum okkur að þér fyrst, sem dreymandanum, þá er það að dreyma sig nakta (nakinn) á almannafæri oft talið vísbending um að viðkomandi eigi eftir að vekja á sér athygli eða eftirtekt á einhvern hátt og þá jákvæðan. Nekt getur á hinn bóginn einnig verið fyrirboði um að viðkomandi verði fyrir niðurlægingu eða lendi í erfiðleikum og þá sérstaklega tengt fjármunum. 

Það að dreyma vin nakinn er oft talið boðberi rifrildis eða ósættis og það að vinkona þín er nakin með þessum manni gæti þýtt að hún verði fyrir einhverri niðurlægingu eða að hún sjálf opinberi sig á einhvern hátt. Hér er hinsvegar einnig mögulegt að þessi vinur sé einmitt sá rétti sem leiði hana í átt til þeirrar athygli, viðurkenningar og eftirtektar sem hún þráir og á skilið að upplifa.

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað við að skilja þennan draum þinn, en ég er viss um að þú getur best fundið út sjálf hvað er réttast í þínu tilviki. Ef þú villt þá máttu gjarnan gefa mér meiri upplýsingar um ykkur vinkonurnar, hver tengsl ykkar eru, hvort þið eruð í samböndum og hvort þessi maður er vinur í raun að ykkar mati. Þá ætti ég að geta hjálpað þér betur með þennan draum.

Leifðu mér að heyra hvort þetta kemur þér eitthvað á sporið

Bestu kveðjur :)


Kynlíf í draumi

Þessi draumur barst frá: Svava (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 28. jan. 2008

Hæ :) Ég fór í bólið með manni sem ég er mjög spennt fyrir í fyrsta skiptið. Svo um nóttina þá dreymir mig að hann sé ekki fyrr búinn að vera með mér að þá fer hann í næsta herbergi og ríður annarri konu og svo finnst mér ég vera stödd í sjoppu og sé hann út um gluggann að hann sé í bíl sem er stopp horfandi svaka cool og í þessu sama augnabliki koma 2 svaka skvísur labbandi dálitið frá og keyrir af stað ??? veit ekki meira. getur þú hjálpað mér að ráða þennan draum :) er eitthvað varið í þennan mann eða á maður bara að gleyma honum P.S hef verið mjög berdreyminn og er skíthrædd um að hafa rétt fyrir mér í þetta sinn: Með kveðju, Anna

Draumráðning:

Sæll og takk fyrir að senda mér drauminn þinn Anna.

Draumar um kynlíf eins og þessi draumur þinn geta í senn verið að endurspegla þrár í vöku og einnig leið undirvitundarinnar til að losa um slíka spennu. Það er ekkert neikvætt við slíkan draum og engin óheillamerki tengd því að dreyma kynlíf sé það einlægt og fallegt eins og það á að vera í vöku.

Framhjáhald eða að makinn / elskuhuginn sé ótrúr í draumi er í lang flestum tilvikum öfugdreymi, það er vísbending um trygglindi í vöku. Það sem getur hér einnig haft áhrif er þitt eigið hugarástand í vöku, hvort þú óttist að slíkt geti gerst og getur þá alteins verið ábending til þín að skoða þína eingin sjálfsmynd og hver staða þín er í sambandinu. Þar sem ég veit ekki hvort hér er um raunverulegan elskanda eða einstakling að ræða sem þú laðast að í vöku eða bara "draumaprins" treysti ég mér ekki til að fara nánar út í þetta.

Þér er velkomið að senda mér meiri upplýsingar ef þér finnst þú þurfa frekari skýringar.
Óska þér alls hins besta og vona að þetta hjálpi þér að ráða í drauminn þinn.

Bestu kveðjur :)


Áhugaverður draumur

Þessi draumur barst frá: Guðný P (Óskráður, IP-tala skráð), sun. 27. jan. 2008

Mig dreymdi að ég væri gift Pálma Gestssyni leikara, við bjuggum í stóru einbýli með stórum garði og áttum saman tvö lítil börn. Pálmi var með einhverja stríðni (sem ég veit ekki hver var) sem gerði það að verkum að ég skeit í buxurnar :/ Þegar ég kem út í garð, til að skammast í honum, glottir hann til mín, ég horfi á hann og finn hvað ég elska hann gífurlega mikið. Ég fer að hlæja með honum, ég enda á hækjum mér í keng af hlátri, þá vakna ég :) Vonandi getur þú séð eittvað út úr þessu Með bestu kveðju Guðný

Draumráðning:

Sæl Guðný og takk fyrir að senda drauminn þinn. Ég er ekki alveg viss um að ég geti ráðið í hann en ég skal reyna. Gott hefði verið að vita hvort þú ert í sambúð eða ekki. Þessi draumur þinn getur að sjálfsögðu verið afleiðing af einhverjum áreiti í vöku, en ég tel þó að í honum geti falist skilaboð til þín.

Að vera gift maka annars er gjarnan talið boða miklar breytingar í lífi viðkomandi sé dreymandinn giftur eða í sambandi. Í vissum tilvikum getur þetta verið fyrirboði einhverra veikinda einnig, en ég tel það þó ekki líklegt hér. Að þetta er leikari getur verið ábending til þín um að gæta þín í daglega lífinu, eða að það vanti einlægni í sambandið (sértu í sambúð), ábending um að vera þú sjálf. Það að þér er strítt í draumnum bendir til að einhver komist að þínum innstu þrám og draumum og að um þær verði rætt, en jafnframt að þær muni rætast.

Vona að þetta komi þér eitthvað á sporið með að skilja drauminn þinn :)


Draumur í dós

Þessi draumur barst frá: Gulla (Óskráður, IP-tala skráð), sun. 27. jan. 2008

Sæl.. Ég er berdreymin og hef skrifað niður drauma sem að sitja í mér í nokkur ár. Þennan draum dreymdi mig árið 2004 og hef ég aldrei verið sátt við hann. Kannski þú getir eitthvað hjálpað mér að skilja hann. "Við unnusti minn (nú eiginmaður minn) erum á leið með Herjólfi til Vestmannaeyja. Það er mikið af fólki í kringum okkur og finnst mér þetta alveg eins geta verið þjóðhátíð. Þegar við komum til Eyja göngum við um bæinn og enn er mikið af fólki. Því næst erum við stödd á salernisbásum þar sem að opið er niður við gólfið. Ég veit að unnustinn er á bás hægra megin við mig. Ég sé þvagbunu frá honum þar sem að hann pissar á gólfið. Mér leið mjög illa og skynja að eitthvað mikið sé að hjá honum. Því næst erum við stödd í Herjólfi aftur en nú gerir brjálað veður með miklum öldugangi og drungalegheitum. Skipið veltist til og frá og ég skynja mikla hættu. Því næst er ég stödd við íslenska strönd þar sem að allt er svo kyrrt og hljótt. Sjórinn spegilsléttur og tær. Unnustinn er ekki með mér. En það er fullt af fólki að ganga fjörurnar og allir að leita að einhverju. Í sjónum sé ég tvo mjög stóra gullkrossa. Þeir virka sem einn og hálfur meter og þungir. Ég kalla á hjálp og þá kemur til mín maður sem að ég þekki ekki en veit að er í björgunarsveit og veður útí sjóinn og nær öðrum krossinum. Þegar hann kemur til baka er hann með krossinn í lófanum og hann er orðinn lítill eins og hálsmen. Hann réttir mér krossinn og ég sé að þetta er krossinn sem að ég gaf unnusta mínum þegar fyrsta barnið okkar fæddist. Keðjan var slitin. Ég finn fyrir doða tilfinningu þar sem að ég stend með krossinn í lófanum og finn að hinn krossinn sem að lá á botninum snerti mig ekki." Segir þessi draumur þér eitthvað mín kæra ?

Draumráðning:

Takk fyrir að senda mér þennan draum þinn Gulla. Ég vona svo sannarlega að hann sé ekki búinn að valda þér miklum áhyggjum því þennan draum skynja ég bara með góð skilaboð til þín. Það sem draumurinn hefur viljað koma til þín þegar þig dreymdi hann er skilaboð um að þú sért búin að finna þér maka sem verði þér traustur og góður. Það að dreyma drukknun annarra boðar gott og gullkrossinn er bara innsigli þessa að viðkomandi eigi eða eignist góðan maka og upplifi hamingju.
Það að keðjan er slitin er þó merki þess að einhverjir brestir geti komið og er raun það eina neikvæða sem ég skynja tengt draumnum. Þvagbuna mannsins getur bent til að hann hafi samviskubit yfir einhverju eða hann hafi þörf fyrir að trúa einhverjum fyrir leyndarmáli. En í heild tel ég drauminn þinn boða gott.

Vona svo sannarlega að þetta komi þér að gagni og endilega leifðu mér að heyra hvaða tilfinningu þú færð þegar þú lest þessa ráðningu mína.


Fugl í draumi

Þessi draumur barst frá: Ella (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 26. jan. 2008

Er eitthvað að marka þennan draum ?? Er stödd í kennslustofu og er að loka öllum gluggum því ég hef það á tilfinningunni að það sé einhver á eftir mér. Allt í einu stendur fugl, stór hrafn, á einu borðanna. Hann er alveg rólegur og ég geng að honum og opna einn af gluggunum og hann flýgur út. Endir. Með fyrirfram þökk fyrir draumráðninguna, Ella

Draumráðning:

Kæra Ella, takk fyrir að trúa mér fyrir draumnum þínum. Þó fuglar í draumum séu oftast fyrir frelsi og góðum hlutum þá er hrafninn því miður oft boðberi sviksemi og þá oftast framhjáhalds maka dreymandans. Hvað sem þetta er hér þá er þó ljóst að þú leysir þetta farsællega þar sem þú losar þig við hrafninn átakalaust.

Óska þér alls hins besta og bið þig að hugleiða þetta vel áður en þú dregur einhverjar ályktanir. Hugaðu vel að tilfinningum þínum fyrir draumnum, því þær segja oftast mest ef manni tekst að hlusta á þær.

 


Frekar ógeðfelldur draumur

Þessi draumur barst frá: Eva Björk Jónsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 21. jan. 2008

Í nótt dreymdi mig að ég hefði stórt kýli/bólu, á bakinu, hún var rauð og ógeðsleg. Ég sagði í draumnum að hún væri í laginu eins og muffins (fáránlegt ég veit:) ) svo var þrýst á hana og úr henni vall þykk blóðlituð leðja. Þetta situr fast í höfðinu á mér. Gætir þú hjálpað mér að ráða í þetta?? með fyrirfram þökk Eva Björk

Draumráðning:

Kæra Eva Björk. Ég skal reyna að ráða í þennan draum þinn. Einhverja erfiðleika eða þjáningar muntu þurfa að takast á við ef marka má drauminn þinn. Hættast er við að það tengist einverjum félaga eða félögum sem standa ekki með þér eins og þú hefðir vænst. Ég tel ekki að þetta sé þó neitt til að óttast og frekar sé um eitthvert mótlæti á tilfinningasviðinu að ræða en að þetta varði heilsu. Vertu bara opin en um leið grandvör gagnvart þeim sem þú telur vini þína, en ert kannski ekki viss um hvar þú hefur.

Gangi þér allt í haginn og endilega láttu heyra í þér aftur ef ég get eitthvað hjálpað þér meir. Kannski vakna einhverjar spurningar við þessa ráðningu mína.

 


Appelsínugulur draumur sem situr fast í mér

Þessi draumur barst frá: Hulda Ólafsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 21. jan. 2008

Sæll kæri draumaáhugamaður. Mig langar að biðja þig að ráða draum sem mig dreymdi. Mér finnst ég sé í sjónum með syni mínum sem er 11 ára. Ég tek eftir því að sjórinn er áberandi appelsínugulur og segir sonur minn að það sé gos í sjónum. Þá sé ég nokkra reykjarbólstra bera við himinn og síðan sé ég gap í sjónum sem við berumst hægt að en ég verð ekki áberandi hrædd. Við komumst án áreynslu frá gapinu og svo færumst við frá. Ég og sonur minn erum að mér finnst 2 persónur í einum líkama eða einhvernvegin samofin. Svo færumst við áfram í appelsínugulum sjónum sem er með töluvert af öldum og ég hugsa hvað sé langt þar til við náum landi. Samt alveg róleg. Allt í einu sé ég ljós í fjarska sem er á sveitabæ og erum komin um leið á þurrt land. Stígum létt yfir girðingu og sonur minn labbar inn og sest við eldhúsborð en ég horfi á að utan (hluti hússins er úr gleri) og ég finn fyrir smá tómleikatilfinningu. Ég hef tilfinningu fyrir erfiðleikum sem ég næ að leysa en væri gaman að fá annan til að lesa út úr draumnum. Bestu þakkir, Hulda Ólafsdóttir

Draumráðning:

Sæl Hulda og takk fyrir að senda drauminn þinn. Ég trúi að þú hafir hitt naglann á höfuðið með að draumurinn boði einhverja erfiðleika sem þú munir ganga í gegnum, en jafnframt að þú sigrist á þeim. Það að synda í sjó er fyrirboði erfiðleika eða mótlætis, en sjórinn gæti hér einnig átt við skap þitt gagnvart því sem þú tekst á við. Appelsínuguli liturinn getur hér táknað að ekki verði miklar breytingar hjá þér um nokkurn tíma en liturinn getur líka verið að vísa til sjálfstrausts, sköpunar og tilfinninga þinna. Það að þið komið heim á sveitabæ er góðs viti og getur vísað til þess að verkefni sem þú tekst á við muni ganga vel ef þú leggur þig fram. Ég er ekki jafn viss um tilvist sonarins í draumnum og að þú horfir á að utan með tómleikatilfinningu, en það segir mér þó að þú munir fjarlægjast hann á einhvern hátt, en þó bara tímabundið.

Tel þetta ekki draum sem þú hafir ástæðu til að óttast, en vertu viðbúin að vinna í þínum málum á þann veg einn sem þú kýst að þeim ljúki. Ég vil heldur ekki útiloka að þessi draumur þinn sé fyrirboði eldgoss í eða nálægt sjó.

 


Tannmissir í draumi

Þessi draumur barst í gestabókina frá: Telma Karen (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 31. des. 2007

sæll draumráðandi, mig langar að vita hvort það sé eitthvað hægt að ráða i þennan draum því hann situr alveg fastur í hausnum á mér. Ég var á handboltaleik með nokkrum krökkum i skólanum og nokkrum kennurum. Ég var að labba inni eitthvert herbergi þegar ég dett og rek muninn laust i borð held ég. Þegar ég stend upp finn ég að tennurnar eru lausar og ég get bara tekið þær með höndunum úr mér, ég tek þær allar nema jaxlana og finnst einhverjar alltaf vera lausar uppí mér. Ég set tennurnar i poka og bind við löppina á mér og labba út að bíða eftir mömmu minni og það var slabb úti, kv telma

Draumráðning:

Sæl Telma og takk fyrir að senda mér drauminn þinn.

Ég gef mér að þú sért ung þar sem þú ert með krökkunum í skólanum og bíður svo mömmu þinnar. Það að tennur losni á þennan hátt getur haft fleiri en eina merkingu. Ég hef áður skrifað um tennur sem erfiðleika og vinamissi nánustu en í þínu tilfelli tel ég þetta vera nokkuð á annan veg. Tennurnar eins og brosið okkar eru hluti af góðri sjálfsmynd og það er einmitt það sem ég held að þessi draumur sé að segja þér. Það vantar eitthvað á sjálfstraustið þitt og að þú trúir á eigin getu.

Þú hefur tennurnar með þér og bindur þær við fótinn sem segir mér að þú munir halda áfram og getir og eigir að treysta á ástvini þína í þessu. Mikilvægt er hér hvaða tilfinningu þú hefur fengið sjálf fyrir draumnum þínum, en ég tel hann alls ekki boða neitt slæmt, heldur sé hér þessi leiðbeining til þín: trúðu betur á eigin getu og þá mun sjálfstraustið þitt og sjálfsmyndin vaxa. Þú átt einnig að leita hjálpar ástvina þinna við þetta, því þá hjálp áttu vísa.

Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn á nýju ári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband