18.10.2007 | 21:48
Veggirnir voru grænir mér til mikillar undrunar
Þessi draumur barst frá: hrefna (Óskráður, IP-tala skráð), fös. 12. okt. 2007
Halló Mig dreymdi að ég kæmi labbandi inn í hús þar sem elskhugi minn býr og var hann búin að mála mjög marga veggi í grænum litum. Ég varð mjög hissa og fannst þetta ekki endilega það flottasta. Með von um draumráðningu. kv.
Ég gleymi etv. en litirnir voru bjartir og pastel litir.
Draumráðning:
Kæra Hrefna. Til að ráða drauminn þinn af einhverju öryggi hefði verið gott að vita hvort húsið var þér kunnuglegt eða ókunnugt í draumnum, þ.e. hvort þetta hús sem elskhugi þinn býr í sé hans eigið hús. Það að hann málar húsið getur verið fyrirboði veikinda en einnig að hér sé verið að benda þér á eitthvað í samskiptum ykkar sem getur valdi árekstrum. Þetta getur einnig verið ábending til þín um að hann sé að leyna þig einhverju. Líklegra finnst mér þó að komið sé að einhverjum kafla í sambandi ykkar þar sem breytingar verða og þá er græni liturinn mjög jákvæður þar sem hann bendir til vaxtar eða grósku af einhverju tagi.
Ef þú sérð ekkert út úr þessari ráðningu sem gefur þér tilfinningu fyrir hvað draumurinn er að segja þér geturðu reynt að senda mér nákvæmari lýsingu ef eitthvað fleira hefur komið fyrir.
Bestu kveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2007 | 00:05
Hús í draumi
Eftirfarani draumur barst frá: Gislina Erlendsdottir (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 11. okt. 2007
Ég og Guðrún Jóna bloggvinkona mín sem ég hef aldrei hitt augliti til auglitis vorum saman í húsi, húsið var lítið og ferkantað og ég gat séð húsið að utan, það var hvítt með svörtum röndum í kringum gluggana og hurðina, allir gluggarnir og hurðin voru lokuð og hvít á litin. Við Guðrún vorum inn í húsinu og það var nótt, það var tómt að innan og okkur var kalt og leið ekki vel. Veðrið var vont og húsið hélt hvorki vatni né vindum svo við ákváðum að henda því og búa til nýtt.....sem við og gerðum. Fengum alveg nýtt hús sem leit alveg eins út og hið fyrra en í þessu húsi var hlýtt og við náðum að sofna. Gíslína Erlendsdóttir - er með ólæknandi krabbamein á 4. stigi.
Draumráðning:
Kæra Gíslína
Þessi draumur þinn er í raun mjög skýr, því húsið sem þig dreymir ert þú sjálf. Hvíti litur hússins táknar þinn innri frið og góð öfl sem umvefja þig. Þrátt fyrir að augun séu lokuð og baugótt þá eru stóru skilaboð draumsin þau að hjálpin er með þér og þú átt eftir að upplifa húsið þitt uppljómað hlýju á ný. Draumurinn er að segja þér að gefa aldrei upp vonina því það sem þú getur gert sjálf með huganum og styrkri hjálp vina, jafnvel þegar vindar blása og regnið dynur á, hleypir geyslum sólar að á ný. Sál þín á eftir að eiga sér hlýtt og fallegt hús.
Guð veri með þér og þínu fólki
Kveðja Draumar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2007 | 23:29
Slysfarir í draumi
Þessi draumur barst frá: Sigurveig (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 10. okt. 2007
Góðan daginn. Hvað merkir ef son minn dreymir að við foreldrar hans og sonur hans farist í bílslysi. Ég hef alltaf heyrt talað um að það sé ekki fyrir slæmu að dreyma að fólk látist, en þetta hvílir á honum og vill ekki að við tökum strákinn með í bíltúr. Hvað segir þú um það. Kveðja Sigurveig
Draumráðning:
Sæl Sigurveig og takk fyrir að senda drauminn þinn. Það er engin einhlýt skýring sem á við þegar fólk dreymir dauða því margt annað í draumnum eins og litir og tilfinningar geta ráðið þar meiru. Algengasta skýringin er þó sú, þegar einhvern dreymir dauða nákominna eins og í þessu tilfelli sé það fyrirboði um langlífi. Bílslys sem slík geta þó verið fyrirboði veikinda eða einhverra erfiðleika þeirra sem fyrir koma. Gott hefði verið að vita hvort þessi draumur var myndrænn á einhvern hátt og einnig hvort eitthvað var sagt við dreymandann. Ef sonur þinn getur lýst draumnum nákvæmar eða þeim tilfinningum sem hann fékk þá gæti ég e.t.v. gefið betri ráðningu.
Ég tel ekkert í þessum draum vera sem bendi til þess að hætta steðji að drengnum eða ykkur afanum og ömmunni. Hér verður þó faðirinn að treysta á sín hugboð því ég ætla ekki að svara þeirri spurningu hvort hann eigi að senda drenginn með ykkur í bíl eða ekki. Draumurinn getur þannig einfaldlega verið að segja honum eitthvað allt annað en ég er að skynja útfrá þessum fáu táknum, hluti eins og að hann eigi að hafa meiri gætur sjálfur á drengnum og eyða með honum meiri tíma sjálfur. Þannig getur dauðinn verið vísbending um að hann sé að fjarlægjast drenginn á einhvern hátt.
Vona að þetta hjálpi ykkur eitthvað.
Bestu kveðjur Draumar :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2007 | 22:56
Óstöðvandi blæðingar
Eftirfarandi draumur barst í gestabókina frá:
Bryndís Jónsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 9. okt. 2007
Sæl. Í leit að útskýringum við draumi mínum fann ég þessa síðu. Ég fann mikið talað um blóð og blóðmissi en ekkert sem ég get tengt beint við drauminn minn. Þetta eru tveir draumar en sama nóttin. Ég vaknaði á milli með óhug. Sá fyrri er stuttur og sat ég heima hjá mér með manninum mínum. Allt í einu finnst mér eins og hafi pissað á mig og stend upp. Sé þá dökkan lit birtast í gegnum buxurnar og hleyp á klósettið. Þetta voru óstöðvandi blæðingar og hamaðist ég við að setja ný dömubindi en ekkert dugði. Liturinn var dökkur í stað þess að vera mjög rauður. Ekkert gekk við að stöðva eða hemja blæðingarnar. Við þetta vakna ég og fer á fætur og næ úr mér hrollinum. Legg mig svo og sofna aftur. Þá kemur draumur nr.2. Ég og maðurinn minn erum í heimsókn hjá þekktum fótboltakappa ( sem við í rauninni þekkjum ekki neitt) og er þar lítill hópur af fólki. Maðurinn minn er í miklu stuði og allir að undirbúa að fara út á lífið. Ég er hljóðlát og læt lítið fyrir mér fara. Leið illa á staðnum og fann fyrir pirringi varðandi eiginmanninum. Þegar ég nefni við hann að mig langi ekkert út á djamm segir hann að það sé ekkert mál. Ég geti bara beðið þarna eftir honum á meðan hann fer út. Við það kemur vindgusa og feykir pilsinu mínu upp og þegar ég lít niður sé ég að það byrjar að blæða. Ég er sár og reið út í manninn minn og horfi á eftir honum fara. Ég hefði ekki tengt þessa tvo ef ekki hefði verið vegna blæðinganna. Eru tíðarblæðingar flokkaðar undir sama hatt og annar blóðmissir eða gæti þetta haft allt aðra þýðingu? Með von um ráðningu. Bryndís
Draumráðning:
Kæra Bryndís. Ég get því miður ekki sagt við þig að þessar blæðingar séu góðs viti, þó ég vilji ekki vekja þér óhug á nokkurn hátt. Að það blæði úr dreymandanum sjálfum dökku blóði er því miður oftast fyrir erfiðleikum, vinamissi eða jafnvel fráfalli einhvers nákomins. Óánægja í draumi veit þó oftast á ánægju í vöku og því vil ég ekki ætla að þáttur mannsins þíns í draumnum sé neitt neikvæður. Þess ber þó að geta að aðkoma fótboltakappans gæti verið vísbending um eitthvert umtal eða neikvæðar sögur sem þú yrðir fyrir eða upplifðir gagnvart manninum þínum.
Varðandi tíðablæðingarnar þá skiptir miklu í hvaða samhengi þær koma, en þær sem slíkar geta bara verið að undirstrika tímamót, endi á einhverju eða upphaf annars. Þannig að hafir þú upplifað þetta sem slíkar blæðingar gæti þetta átt við einhver þáttaskil í lífi þínu frekar en erfiðleika eða feigðarboða eins og ég nefndi í upphafi.
Ég veit ekki hvort þú ert einhverju nær um drauminn þinn, en ég hvet þig til að hugleiða hvað leitar á huga þinn þegar þú rifjar upp drauminn, því sú tilfinning sem sækir á dreymandann er oftast nær sú sem gefur bestu draumráðninguna.
Óska þér alls hins besta og farðu vel með þig :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2007 | 23:14
Draumráðningar - annað kvöld
Kæru lesendur þessa bloggs sem hafið lagt inn drauma í gestabókina. Ég mun setjast niður annað kvöld við kertaljós og ráða í þá drauma sem nú bíða úrlausnar. Ætla að sofa á þeim í nótt eins og maður segir :)
kveðja Draumar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2007 | 22:36
Dreymdi gróður á handarbaki og kinn
Eftirfarandi draumur barst í gestabókina frá: Aðalheiður Harðardóttir, mið. 26. sept. 2007
Sæl og blessuð. Mig dreymdi afar skrýtinn draum í fyrrinótt. Hann var á þá leið að ég og maðurinn minn bjuggum í Reykjavík (búum reyndar í Svíþjóð) og mér fannst hann koma út af baðherbergi og sýna mér plöntu sem óx upp úr handarbakinu á honum og út úr annarri kinninni (vinstri kinn en ég er ekki viss hvorri höndinni). Ég hjálpaði honum að klippa þennan gróður burt þannig að eftir stóðu litlir, grænir stubbar, þétt á handarbaki og kinn. Í draumnum hugsaði ég fyrst sem svo að þetta væri Aloe Vera plantan og fannst það bara gott mál en fór svo að skoða blöð plöntunnar betur og sá þá ekki betur en að þetta væri Hawai-rós (það uxu þó engin blóm á plöntunni). Blöðin voru fallega græn og litu vel út. Þó að ég hefði ekki áhyggjur af þessu í draumnum vildi ég samt fá skýringu og sagði við manninn minn að við yrðum að fara upp í álver (á Reyðarfirði) og hitta lækninn þar. Við komum því næst að stórri byggingu og var vísað þar til læknisstofunnar sem var í öðru stóru húsi. Húsin voru bæði björt og nýtískuleg. Þegar þangað kom var okkur sagt að læknirinn væri að fara og hefði ekki tíma til að hitta okkur en þegar hann sá hvers kyns var stoppaði hann og sagði: ,,Ég hef aldrei séð svona áður!" Þá fyrst varð ég vonsvikin því að ég hafði verið svo viss um að hann hefði skýringu og lækningu á þessu. Hann gekk síðan í burtu. Með kveðju.
Draumráðning:
Sæl Aðalheiður og takk fyrir að senda drauminn þinn. Þessi draumur er fyrirboði breytinga á högum ykkar, en hvort staðirnir sem koma við sögu eru táknrænir skal ég ekki segja um. Ég gef mér við ráðninguna að maðurinn hafi ekki kennt sársauka útaf þessum plöntum á kinn og hendi. Eins og ég skynja drauminn þá koma eingöngu jákvæð draumtákn fram. Fyrsta og einfaldasta skýringin væri að draumurinn væri fyrirboði barnsfæðingar, en hér getur þó verið um viðskipti eða atvinnu mannsins að ræða. Sé svo þá skiptir vanginn (kinnin) miklu því hún er merki þess að hann muni yfirstíga einhverja erfiðleika eða vandkvæði af eigin rammleik (höndin). Vöxt plöntunnar, sem er bara græn, tel ég góðs vita því slíkar plöntur eru jafnan heillaboði. Öðru máli hefði gengt hefði rósin verið blómguð á þessum ástíma. Ókunnugt læknishúsið sem þið farið inní getur táknað ákveðin mál sem eru óafgreidd, en jafnframt að tekið verið til hendinni við að leysa þau.
Á heildina litið tel ég drauminn jákvæðan og fyrirboða breytinga af einhverju tagi. Sé draumurinn ekki fyrirboði barnsburðar vil ég segja þér að láta þér ekki bregða þó maðurinn kæmi fram með eitthvað nýtt eða óvænt sem tæki einhvern tíma að sættast við eða meðtaka en yrði síðan til góðs eða vaxtar af einhverju tagi.
Vona að þessi draumráðning hjálpi ykkur eitthvað á braut við að skilja drauminn.
Bestu kveðjur :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2007 | 21:42
Septemberdraumar
Eftirfarandi draumur barst frá: Dramadraumakona (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 24. sept. 2007
Sæl vertu, hef verið að velta fyrir mér mjög skýrum aðstæðum sem ég upplifði í draumi í nótt. Annars vegar var ég að borða mjög ljúffenga pizzu þegar ég fann eitthvað skringilegt bragð eða réttara sagt áferð á pizzunni. Í ljós kom að ég var að borða hár, mannshár - eiginlega heila lúku af hári með pizzunni. Hins vegar lá ég inni á læknastofu þar sem læknirinn var að sannfæra mig um að ég væri ófrísk (var eins og ég væri ekki alveg klár á því sjálf) og að það þyrfti að setja af stað fæðingu. Ég lá uppi á bekk og læknirinn stóð við endann á bekknum og skar smá flipa af stórutánni á mér. Það var vont (sá ekki blóð samt) og svo saumaði hann sárið saman. Skýring læknisins, sem var mjög glaðlegur, var sú að hann hefði gert þetta til þess að koma fæðingunni af stað. Það sem var svo skrýtið við þetta var að ég fann fyrir verkjum, einhvers konar tíðaverkjum (hef ekki eignast barn þannig að ég veit ekki hvernig hríðarverkir eru) og var mjög meðvituð um að nú ætti ég að fara að eignast barn. Þá vaknaði ég.
Draumráðning:
Sæl dramadraumakona og takk fyrir að senda drauminn þinn. Þessi draumur þinn er ekki alveg hefðbundinn draumur ef svo má segja og getur virkað ofurlítið ruglingslegur við fyrstu sýn.
Sértu á barneignaraldri getur þessi draumur þinn þó einfaldlega verið fyrirboði barneigna, en líklegra finnst mér þó að hér sé verið að hvetja þig til að hrinda í framkvæmd einhverri hugmynd sem þú geymir innra með þér en hefur ekki haft þor til að hrinda í framkvæmd eða nægjanlega trú á eigin getu til þess. Sé svo þá eru í draumnum vísbendingar um að þú eigir að gera það og jafnframt að það muni fara vel, en þar koma bæði hárið og læknirinn við sögu. Framkvæmdin verður þó ekki alveg fyrirhafnar laus þó vel gangi.
Þar sem ég get ekki gefið þér skýrara svar hvet ég þig til að fara yfir það í huganum hvort þú alir með þér einhvern draum eða hugmynd sem þig hefur langað að láta verða að veruleika. Þegar þú gerir það trúi ég að þú fáir svörin sjálf við þessum draumi.
Bestu kveðjur :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2007 | 19:01
Dreymdi orma koma úr kvið mannsins
Eftirfarandi draumur barst frá: Ester Gunnarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 4. sept. 2007
Komið þið sæl, mig dreymdi s.l. nótt að ég sæi kvið mannsins míns opnast og út komu ormar ljósbrúnir og lifandi. Mér varð svo við að ég hörfaði undan og draumurinn hvarf en kom síðan aftur og þá var opið ennþá stærra og margfalt fleiri ormar! þetta var mjög óhugnarlegt að sjá en ég get þess að ég sá bara kviðinn og þessa sýn en ekki heilan mann en þóttist vita í draumnum að um manninn minn væri að ræða. Hann veiktist af krabbameini í blöðruhálsi fyrir ári og fór í aðgerð og hefur verið hreinn síðan en er að basla við þvagleka sem á að fara að gera eitthvað við núna. Hvað heldurðu að þetta þýði? Kær kveðja Ester
Draumráðning:
Kæra Ester. Við skulum ekki horfa framhjá því við ráðningu á draumnum þínum að þetta geti verið sprottið af áhyggjum þínum í vöku af heilsu mannsins þíns, því oft er undirvitundin að vinna úr hugsunum og áhyggjum sem að okkur sækja. Ég treysti mér ekki til að gefa þér einhlíta skýringu á þessum draum því ormar geta haft fleiri en eina táknræna merkingu fyrir dreymandann. Algengt er að túlka orma í draumi sem keppinauta sem vilja koma viðkomandi á kné og gætu því verið tákn fyrir baráttu mannsins fyrir heilsu sinni. Þegar um heilsu er að ræða eru ormar þó oftar taldir boða veikum bata. Ég vil því fremur trúa því að þessi draumur sé góðs viti um hvernig til takist með aðgerðina og heilsu mannsins.
Vona að þetta verði þér að einhverju liði og óska ykkur alls góðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2007 | 18:31
Dreymdi nafnið Alexa
Eftirfarandi draumur barst frá: Telma Aníka (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 6. sept. 2007
Í nótt dreymdi mig draum, ekkert gerðist í rauninni í draumnum (að ég muni) en ég sá nafnið "ALEXA" með stórum feitletruðum stöfum. Mér leið eins og einhver væri að gefa mér nafnið. Litla frænka mín, sem að ég hef aldrei séð þar sem að hún býr í annarri heimsálfu, ber nafnið Alexa Romina, en bar nafnið Ana Romina til að byrja með. Ég er búin að vera nokkuð áhyggjufull í dag, hvers vegna sé ég nafnið hennar fyrir mér? Er ekki allt í lagi með hana? Mig langar líka að segja frá því að í sumar fór ég að undra mig á því að fólk sjái eitthvað skrifað í draumum, ég fór að undra mig á því að það hafi ég aldrei séð. Í von um svar. -Telma
Draumráðning:
Sæl Telma og takk fyrir að senda drauminn þinn. Ég skal gera mitt besta til að ráð í hann. Það að dreyma nöfn eða eitthvað sem er skrifað geta verið skilaboð til dreymandans ekkert síður en þegar talað er í draumi. Því er full ástæða til að horfa á þann möguleika að verið sé að koma til þín skilaboðum sem tengjast þessari litlu frænku þinni. Líklegast þykir mér að þú munir fá einhverjar fréttir af henni fljótlega. Nafnið hennar eitt og sér er mjög jákvætt draumtákn, því Alexa líkt og Alexander er mikið gæfu tákn. Ég sé ekkert sem bendir til að draumurinn sé að segja þér að eitthvað sé að. Frekar vil ég túlka drauminn sem boðbera gæfu fyrir þig og/eða að verið sé að minna þig á frænkuna. Til að taka frá þér allan ótta er langbest fyrir þig að leita bara frétta af litlu frænku þinni.
Með bestu kveðju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2007 | 18:24
Meira af hári í draumi
Þessi draumur barst frá: Þórey (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 23. ágú. 2007
kæri draumráðandi. Ég var einmitt að reyna að finna út hvað draumur minn þýddi og endaði á þessari síðu en nýlega virðist þú hafa ráðið í draum um hár. Minn draumur fólst einmitt í óeðlilegum hárvexti í andliti en aðeins á hálfu andliti, þ.e hægra megin. Hárið var skjannahvítt að lit, frekar eins og yfirvaraskegg sem var svo aðeins hægra megin. Nokkrar svartar rendur voru í hárinu. Ég var mjög ánægð með þennan óeðlilega hárvöxt. Það væri gaman að fá að heyra hvað þú telur með þennan draum, þ.e ef hann á annað borð merkir eitthvað. bestu kveðjur, Tóa
Draumráðning:
Sæl Þórey. Ég hef hugleitt þennan draum þinn nokkuð, en verð að viðurkenna að ég á enga stóra skýringu á honum að gefa þér. Ég fæ hreinlega ekki þá tilfinningu að hann sé að bera þér einhver mikilvæg boð, en mér kann þó að skjátlast með það.
Það eina sem ég vil segja þér er að það eru engin merki þess að þessi draumur sé að boða neitt slæmt. Þvert á móti eru í honum ákveðin heillamerki. Hvíti litur hársins og það að þér fellur þetta vel í draumnum er hvort tveggja mjög jákvætt. Hvítt hár er alltaf heillamerki og mikill hárvöxtur er fyrir auðlegð. Það að hárvöxturinn er svona óvenjulegur getur þó verið fyrirboði einhvers sem þú reiknar ekki með en tekur fegins hendi.
Annað hef ég ekki um drauminn þinn að segja.
Bestu kveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)