25.8.2007 | 18:58
Draumur draumadísar - framhald
Sæll og takk fyrir ráðninguna á draumnum. Þegar ég las þetta yfir sá ég að ég hafði sleppt því að kunningjakona mín (sem ég er í litlu sambandi við) sem heitir Auður var frammi á biðstofunni með mér hjá lækninum...veit ekkert hvort það skiptir máli en fannst í lagi að taka það fram. Meiri upplýsingar um hagi mína - ég er rúmlega þrítug og hef verið í sambúð í tæp 5 ár. Við höfum reynt að verða barnshafandi á annað ár og gengið illa. Var reyndar að komast að því að ég er orðin barnshafandi :0) :0)...þannig að mikið mótlæti og svo jákvæðar breytingar..á nú vel við:0).
Vona að þetta hjálpi og segi þér eitthvað. Kærar þakkir fyrir að standa í þessu!
bestu kveðjur draumadís
Draumráðning:
Sæl Draumadís og takk fyrir viðbótar upplýsingarnar. Mér þykir leitt hve langur tími hefur liðið, en ég hef ekki verið iðinn við tölvuheimana undanfarið.
Ég held þú sért í raun búin að upplifa ráðninguna á draumnum þínum, það að þú ert ólétt eftir "langa bið" eða ákveðið mótlæti. Það að þú ert á þessum aldri og átt ekki barn fyrir styrkir þá ráðningu mjög og það eina sem ég verð að bæta við er að þú skalt ekki láta þér bregða þó þú gengir með tvíbura. Það að Auður vinkona þín er til staðar er bara jákvætt, því nafnið hennar er sterkur fyrirboði um bata, framfarir og þá á það sérstaklega við hamingju og velgengni á andlega sviðinu frekar en á því veraldlega.
Læt þetta nægja og óska ykkur alls hins besta með fréttirnar :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2007 | 01:20
Óhuggulegur draumur
Þessi draumur barst frá: Draumadís (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 9. ágú. 2007
Sæll kæri draumráðandi. Mig dreymdi frekar óhuggnanlegan draum og situr það sem ég man úr honum ansi fast í mér. Ég er sem sagt stödd hjá lækni og er barnshafandi (sem ég er ekki í raun). Hann segir við mig að hann sé búin að setja mig af stað og ég eigi að hafa strax samband við hann ef það fer að blæða úr gómnum á mér. Í þeim orðum fer að fossa út úr mér hárautt blóð. Ég man ennþá blóðbragðið og verkinn sem fylgdi. Ég virtist gera mér grein fyrir því að þetta var ekki úr gómnum heldur eitthvað verra. Í draumnum man ég að ég hugsaði með mér..." þetta á ég ekki eftir að lifa af"...og þarna vaknaði ég. Frekar óhuggnanlegur draumur.... kveðja Draumadís
Draumráðning:
Kæra draumadís. Ég skil vel að þessi draumur valdi þér vissum áhyggjum. Til að ráða hann hefði verið gott að vita ögn meira um þína hagi, því hér getur skipt nokkru hvort þú ert ung eða gömul, átt börn fyrir eða ekki svo eitthvað sé nefnt. En ég skal reyna að ráða drauminn útfrá því sem ég get lesið af honum.
Það er mín trú að almennt sé gott að dreyma lækni og jafnframt að hlusta beri á það sem þeir segja í draumi ekki síður en um aðra er tala til manns í draumi. Það að dreyma lækni getur verið vísbending um að þú hafir einhverjar áhyggjur af eigin heilsu, sem þú ættir ekki að hafa. Það að þú ert barnshafandi í draumnum, gæti verið boði þess að þú missir fljótt meydóminn ef þú ert enn ung, en líklegasta skýringin fyrir mér er þó að þetta boði eitthvað nýtt, ný verkefni, ný viðfangsefni eða breytingar. Það að læknirinn setur þig af stað getur þannig bara verið ábending til þín að bíða ekki með eitthvað sem þig dreymir um að gera skapandi eða varðandi breytingar á þínu lífi.
Það að þig dreymir blóð er ekki jafn jákvætt og annað í draumnum, því blæði fólki veit það oft á veikindi eða erfiðleika af einhverju tagi, jafnvel vinamissi eða fráfall einhvers náins. Í þínu tilviki kemur þó fram að blóðið er hárautt sem er gott því þá getur það verið merki einhverra breytinga sem eru jákvæðar, en þó með þeim formerkjum að líklegt er að þú lendir í einhverju mótlæti áður en þú uppskerð það sem breytingarnar færa þér.
Eins og þú sérð af skrifum mínum á ég ofurlítið erfitt með að gefa þér einhlíta skýringu á draumnum þínum, en ég bið þig þó að láta drauminn ekki vekja hjá þér ótta. Ég hef þá trú að hann boði ekki slæmt fyrir þig, en vil ekki útiloka að hann sé að búa þig undir vinaslit af einhverju tagi, eða jafnvel missi einhvers nákomins. Gæti hér átt við þitt eigið ástarlíf ef það á við að þú verðir fyrir einhverjum svikum eða uppgötvir að hlutirnir séu ekki eins og þú ætlaðir. Eigirðu ekki barn fyrir getur draumurinn verið ábending til þín um að vara þig á einhverjum sem þú berð hug til. Hér getur líka bara verið um það að ræða að draumurinn boði breytta tíma með uppsprettu nýrra hugmynda og tækifæra sem þú átt að grípa.
Ef þú villt þá geturðu sent mér "komment" með örlítið meiri upplýsingum um þig; aldur, hjúskaparstöðu o.s.frv. því þá gæti ég e.t.v. ráðið meir í drauminn þinn, þ.e. hvað þessi draumtákn vilja segja þér.
Vona að þú hafir eitthvert gagn af þessu og óska þér alls hins besta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2007 | 23:44
Allt er í spýtnabraki og drasli
Eftirfarandi draumur barst frá: Sigríður (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 7. ágú. 2007
Kæri draumráðandi, Manninn minn dreymdi athyglisverðan draum í nótt sem situr í honum og við erum bæði mjög forvitin um hvernig hægt er að ráða í hann. Í draumnum fer hann út úr húsinu okkar og uppgötvar þá að verið er að rífa húsið við hliðina á okkur. Allt er í spýtnahraki og drasli. Hann labbar niður götuna og hittir þar gamlan vinnufélaga sem á að hafa verið nýfluttur í hverfið. Þessi vinnufélagi heitir Gestur og húsið sem hann hafði flutt í var gult og hvítt. Á leiðinni tilbaka sér hann að verið er að rífa fleiri hús í götunni (en þó ekki okkar hús). Hann hittir nágranna en fær ekki almennileg svör um hvað stendur til. Hann hafði samt á tilfinningunni að byggja ætti ný hús í staðinn fyrir þau gömlu. Þegar hann kemur að húsinu okkar aftur eru fjórir brúnir fuglar með stóra gogga fyrir innganginum í húsið. Þegar hann reynir inngöngu flýgur einn fuglinn á hann og honum verður svo mikið um að hann hrekkur upp úr svefninum. Með von um ráðningu :) Kveðja, Sigríður
Draumráðning:
Hús í draumum eru yfirleitt táknræn fyrir persónuna sem dreymir. Þannig er það gjarnan túlkað að dreymi menn eigið hús þá sé það ábending um að þar sé hamingjuna að finna. Húsin sem verið er að rífa vita hins vegar ekki á gott og geta verið feigðarboðar eða ávísun á einhverja erfiðleika hjá einhverjum nákomnum, skildum, eða vinum. Það að hann dreymir Gest gamlan vinnufélaga er þó jákvætt, því nafnið eitt veit á góða hluti og vináttu. Þessi draumur er ekki augljós eða auðveldur að ráða því í honum eru ákveðnar andstæður. Draumurinn getur einnig haft fleiri en eina merkingu, en eftirfarandi skýring kemur til mín og bið ég ykkur að hugleiða hana vel.
Ég tek það fram að ég held ekki að maðurinn þinn hafi verið þér ótrúr, en miklu fremur að hugurinn hafi leitt hann eitthvað af braut eða gæti gert það ef ekki er brugðist við. Þarf ekki að vera annað en einhverjar vangaveltur um að einhverstaðar geti verið grænna. Ég vil túlka drauminn sem ákveðna ábendingu til hans um að hamingjuna sé að finna heimafyrir og ef hann félli í freistni, þá myndi hann verða fyrir miklum vonbrigðum og erfiðleikum og ekki eiga auðvelda leið til baka. Önnur skýring sem gæti átt við er að hér sé einungis verið að benda á jafnvægi hans og sálarástand nú og fuglarnir sem hindra honum inngöngu, séu einungis hans eigin fjötrar sem hindra hann frá að finna sjálfan sig og sitt jafnvægi. Með þessari draumskýringu vil ég þó ekki útiloka það sem ég vék að í upphafi að hér sé fyrirboði einhverra erfiðleika eða jafnvel feigðarboði í vinahóp eða meðal ættingja.
Ég bið ykkur að hugleiða þessar draumskýringar mínar vel og gæta að hvort þær hugsanlega leiði ykkur að þeirri skýringu sem við á í hans tilfelli. Því oftast er það nú svo að innst inni veit dreymandinn hvort draumskýring sem fyrir hann er borin sé rétt eða ekki. Ef sú tilfinning er ekki fyrir hendi skulið þið bara leiða þennan draum hjá ykkur því hér gæti einnig verið um að ræða draum sem er afleiðing streitu eða jafnvel einhverrar óþægilegrar upplifunar, jafnvel bara úr bíómynd.
Vona að þetta verði að einhverju gagni og óska ykkur alls hins besta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2007 | 22:25
Draumur Draumhildar
Eftirfarandi draumur barst frá: Draumhildur (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 31. júlí 2007
Hæ hæ væri alveg til í að fá smá útskýringu á draum sem að mig dreymdi í nótt. Man ekki mikið úr honum en það situr svo fast í mér það sem að ég man. Það sem að ég man er það að ég er inni í húsi og er að passa litla stelpu, eignlega bara ungabarn með bleyju. Það sem að situr svo fast í mér er að ég er að leggja hana í rimlarúmið sitt og er svona bara að spjalla við hana. Spyr hana hvort að ég þurfi að skipta á henni áður en hún fer að sofa en hún brosir bara og segir nei. Ég að sjálfsögðu kíki á bleyjuna og þá er hún bara stútfull af kúk eiginlega bara upp á bak. Þetta gerist 4 sinnum áður en ég næ að leggja hana niður og hún fer að sofa. Það skrítna við þetta er að mér finnst eins og að ég sé að passa sjálfa mig ! Man að ég er í húsi þar sem að allt er svona eiginlega ekki beint í drasli eða mjög skítugt, en svona hálf klárað eða hálf druslulegt. Leið ekkert svaðalega vel þarna inni og fannst eins og ég ætti að vera að taka til eða gera eitthvað meira þarna. Kannski er þetta ekki neitt en allavega situr rosalega fast í mér og ákvað að láta á þetta reyna. Annars bara takk fyrir mig og vona að þú hafir notið frísins :)
Draumráðning:
Sæl Draumhildur og takk fyrir að senda þennan áhugaverða draum þinn á draumabloggið mitt :)
Þessi draumur þinn fjallar um þig sjálfa og þína líðan í dag og er ábending um ákveðna hluti sem þú átt óuppgerða gagnvart bernsku þinni. Húsið í draumnum er táknrænt fyrir þig sjálfa og það að þú ert að annast sjálfa þig í draumnum sem barn er fyrir mér klár vísbending þess að þú sért enn að vinna með einhver særindi eða mótlæti frá bernskunni í undirvitund þinni. Ég skynja ákveðna þrá hjá þér eftir áhyggjulausu lífi bernskunnar um leið og einhver særindi eru að hindra þig í að njóta þín. Þú gætir verið að upplifa einhver vonbrigði eða jafnvel deilur eða einhvern ósigur sem tengist vali þínu og hindrar þig í að njóta þín og efla sjálfsmat þitt og sjálfstraust nú.
Draumurinn er þér hins vegar afar jákvæður og boðar betri tíma um leið og þú hefur hlúð að þessum tilfinningum og sæst við og gert upp þessi særindi frá bernskunni. Allur kúkurinn (þegar þú hlúir að þér sem barni) er fyrirboði góðra hluta, bæði velgengni og ágóða af einhverju tagi. Draumurinn segir mér einnig að þú hafir ekki verið að njóta þín sem skildi og nýta þína einstöku hæfileika til fulls vegna ákveðins vanmats á eigin gæði og getu.
Þar sem ég veit ekki hvað það er sem er að hindra þig frá fullkominni hamingju og lífsgleði nú, eða hvað það er frá bernskunni sem er undirrót þess og e.t.v. ástæða fyrir vali þínu bið ég þig að fara vel yfir þetta hvort tveggja í huganum. Þá trúi ég að þú finnir brautina þína sem bíður stráð gulli og hamingju. Um leið finnur þú sjálfsmyndina þína verða heila og sjálfstraustið koma sem þarf til að þú veljir hlutina þína inní framtíðina, því fyrir mér er alveg klárt að góðir hlutir bíða þín um leið og þú sjálf ert tilbúin að taka við þeim.
Bestu kveðjur og vona að þér gangi sem allra best, því enginn getur hindrað þig frá að ná þeim árangri nema þú sjálf ef þú ekki trúir á eigin getu og að þú eigir hamingju og velgengni skilið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.8.2007 | 21:29
Snuð í aðalhlutverki
Eftirfarandi draumur barst frá: Guðlaug Sigrún (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 25. júlí 2007
25 ára dóttur mína dreymdi draum í fyrrinótt. Ég veit ekki hvort það skiptir máli, en hún flutti að heiman og fór að búa sjálfstætt í vikunni. Systir hennar, sem er í hlutverki í draumunum, er fjögurra ára. En draumurinn er eftirfarandi: "Það var stríð og það var flóð. Ég var föst í einhverskonar risastórum tanki og það var mikill straumur. Þegar ég gáði betur sá ég að straumnum olli veður/sjó/vatnsgyðja einhvers konar sem var að reyna að drekkja fólkinu vegna synda þeirra og heimsku. Hún hafði búið til hringiðu sem allir soguðust í. Ég var alveg að sogast inn í þegar hún hlífði mér vegna þess að ég gat leyst gátu. Gátan snerist um það hvernig maður átti að forðast hringiðuna. Ég forðaði mér semsagt með því að vera réttum megin við og flaut að einum vegg tanksins. Gyðjan sneri í norður, eins og pólstjarnan. Allt í einu sé ég að gyðjan er systir mín. Hún sagðist geta breytt sér í hvað sem er. Ég bað hana um að breyta sér í sel. Hún sagði OK og var skyndilega komin í fiskabúr sem var eins og skál í laginu og náði henni upp í handarkrika. Henni fannst það mjög fyndið. Svo lét hún sig fljóta til mín. Þá bað ég hana um að breyta sér í hval. Hún þurfti snudduna sína til þess. Það var gat framan á snuddunni sem ég vissi að táknaði öndunargatið á baki hvalsins. Hún missti snudduna ofan í vatnið. Hún hefði ekki getað andað án hennar svo hún dýfði sér ofan í. Ég hjálpaði henni því ég vissi að án snuddunnar væri hún ósjálfbjarga. Það var mjög djúpt niður á botn. Við syntum saman niður með höfuðið beint niður og ég hélt um ilina á henni til að ýta henni og líka til að passa hana. Loksins náðum við niður og sáum snudduna í sandinum. Sandurinn var á litinn og áferðar eins og sag úr MDF-plötum. Systir mín gat hvorki opnað augun né andað, en hún var ekki hrædd. Ég var hins vegar hrædd. Ef við næðum ekki snuddunni væri út um systur mína. Snuddan lá í sandinum en var alveg að fara að grafast niður. Systir mín teygði sig eftir henni og snuddan grófst lengra ofaní. Ég ýtti henni til hliðar og dýfði hendinni í sandinn. Fyrst greip ég í tómt en í seinna skiptið náði ég henni. Á sandinum uppi við vegg tanksins voru tvö hjól. Það sem var nær okkur var ljóst konuhjól með körfu, alveg eins og mig langar í. Ég man ekki hvernig hitt var. Ég hafði engan tíma til að skoða mig um því ég varð að ná systur minni upp úr vatninu. Ég gat andað í vatninu. Það var ekki erfitt en ég var mjög meðvituð um öndunina. Við náðum upp á yfirborðið og ég vissi að við værum óhultar og gátum synt yfir á hinn bakkann þar sem við kæmumst úr tankinum. Þar var útgangur og tröppur. Meira man ég ekki. Nema hvað að þegar ég vakna sný ég til hliðar í rúminu. Ég hafði snúið rúminu um kvöldið. Áður sneri ég með höfuðið í norður og fætur í suður. Ég vaknaði með höfuðið í austur og fæturna út af rúminu í vestur."
Draumráðning:
Sæl Guðlaug. Ég verð að viðurkenna að þessi draumur er ekki sá auðveldasti viðureignar að ráða. Það að dóttir þín er nýflutt að heiman getur vissulega haft áhrif hér þar sem margt leitar vafalaust á huga hennar í vöku við slíkar aðstæður. Slíkir hugrenningar geta komið fram í draumum og því ekki víst að hér sé um forspárdraum að ræða.
Ég les þó ákveðin varúðarskilaboð úr þessum draumi sem vert er að gefa gætur. Það að dreyma flóð og stríð getur verið fyrirboði einhverra erfiðleika eða vandræða. Það að yngri systirin er selur í draumnum getur verið ábending um að henni standi einhver ógn eða hætta af vatni. Draumurinn getur líka verið að endurspegla einhverjar áhyggjur eldri systurinnar í garð þeirrar yngri og hugsanlegt að það sé byggt á misskilningi sem sú yngri vill leiðrétta, en tilraunir hennar til að breyta sér í hval eru merki þess.
Ég bið ykkur bara að líta á þessar skýringar mínar sem vísbendingar en ekki einhvern sannleik, en um leið hvet ég ykkur til að fara að öllu með gát á næstunni þegar vatn er annarsvegar.
Óska ykkur alls hins besta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2007 | 18:33
Mig dreymdi um daginn að gamall vinur minn, sem heitir Elís ...
Eftirfarandi draumur barst frá: Sigurrós Yrja (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 19. júlí 2007
Mig dreymdi um daginn að gamall vinur minn, sem heitir Elís og mér hefur alltaf þótt rosalega vænt um en ekki talað við núna í 8-9 mánuði, sæti í stól inn í herbergi hjá mér og manninum mínum þegar við vöknuðum. Ég reyndi eitthvað að spjalla (small talk) en Elís svaraði engu, starði bara alltaf fram fyrir sig og gekk svo út alveg orðalaust. Þegar ég fór á eftir honum sat hann inni í stofu með afa mannsins míns og horfði enn bara fram fyrir sig orðalaust... Ég vaknaði svo þegar ég var á leið inn í herbergi að klæða mig... Ég er búin að setja hann á draumur.is en fæ engin svör... Þessi draumur hefur setið mikið á mér og valdið miklum áhyggjum hjá mér frá upphafi...!!! Heldurðu að þú getir hjálpað...??? Kveðja Yrja :)
Draumráðning:
Kæra Yrja, ég skal gera mitt besta til að skýra drauminn þinn. Það hefði reyndar verið gott fyrir mig að vita hvers konar vinasamband þið hafið átt þú og þessi vinur þinn, en ég held þó að það komi ekki að sök við ráðninguna. Almennt er gott að dreyma vini sína og er þar oft andhverfan af því sem okkur finnst best að upplifa það sem er fyrir bestu hlutunum.
Ég ætla ekkert að orðlengja um ráðninguna því fyrir mér eru skilaboð draumsins aðeins ein og nokkuð skýr, þau eru ábending til þín að hafa samband við þennan vin þinn. Ósögð orð um einhverja hluti, eða bara söknuður geta verið skýringin og á það þá ekkert síður við þig en vininn þinn, því slíkt kemur sjaldnast fram í draumi nema hugsanir beggja hafi mæst einhverstaðar.
Vona svo innilega að þetta gagnist þér. Símatal, sms, e-mail eða það sem er alltaf best hittast og spjalla trúi ég að gefi þér skjót svör við draumnum þínum.
Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2007 | 23:32
Mig dreymdi mjög undarlegan draum
Þessi draumur barst í gestabókina frá: Dagga (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 9. júlí 2007
Kæri draumráðandi Mig dreymdi mjög undarlegan draum fyrir stuttu, draum sem situr mjög fast í mér, og ég man hann mjög vel. Ég bjó í lítilli blokk á 3 hæðum ( jarðhæð + 2 hæðir ) og ég bjó á efstu hæðinni. Nokkrir af íbúum blokkarinnar voru saman komnir úti garði og sátu á teppi og spjölluðu saman þegar ég ákvað að skreppa upp í íbúð og sækja kex. Þegar í íbúðina var komið stend ég fyrir framan skáp og ætla að ná í rauðan ritskex pakka þegar ég finn að einhver stendur fyrir aftan mig en þó sé ég engan. Ég fann strax að þarna var fyrrum tengdapabbi minn kominn (sem er löngu látinn) og hann tekur í hurðina á skápnum og skellir henni aftur af miklum krafti. Ég man að ég var ekki hrædd en mér fannst þetta mjög ónotaleg tilfinning. Ég opna skápinn aftur en þá grípur hann aftur í hurðina og skellir henni aftur með miklum látum. Eftir það gafst ég upp og fór aftur út til fólksins og sest á teppi við hliðina á konu, og ég segi henni frá því sem gerst hafði uppi í íbúðinni. Okkur er þá litið upp í glugga sem var inní íbúðina mína og sjáum við þá að ljósin inní íbúðinni blikka og blikka (eins og væri verið að hamast á rofanum) Við þessa sýn vakna ég. Ég man þennan draum mjög skýrt og hann situr mjög í mér, sérstaklega vegna þess hve vel ég fann fyrir fyrrum tengdapabba mínum, löngu látnum manni, auk þess að við vorum aldrei mjög náin þegar hann lifði. Hann virtist mjög reiður í draumnum og hef ég hugsað mikið um þetta. Með von um ráðningu Kveðja Dagga
Draumráðning:
Sæl Dagga og takk fyrir að senda drauminn þinn. Það að dreyma látinn mann getur haft fleiri en eina merkingu/skýringu. Látið fólk í draumi er stundum að koma ábendingum til dreymandans um einhverja hluti eða hreinlega að styrkja viðkomandi í trúnni um að það sé eitthvað handan þessa lífs. Reiði tengdaföðursins er þó ekki bara fyrir góðu því því hér getur verið ábending til þín um að þú þurfir að takast á við einhverja erfiðleika tengt þínum óskum og þrám eða jafnvel verðir fyrir einhverjum svikum. Hús í draumum eru oftast tákn fyrir dreymandann sjálfan og hans eigin líðan. Þennan draum þinn vil ég því fremur túlka á þann veg að þetta snúist um þig og þína líðan. Reiðin sem beinist að þér getur verið ábending um óuppgerð mál hjá þér og jafnvel áhyggjur af samskiptum þínum við tengdaföðurinn meðan hann var á lífi. Ég ráðlegg þér að leiða hugann að því hvort eitthvað hvíli á þér sem tengist tengdaföðurnum og þá að gera það upp í huganum og ræða það við þína nánustu ef þú getur. Síðan skaltu sleppa því með fyrirgefningu í huga. Hlúðu að þér sjálfri og taktu eftir draumunum þínum áfram því sé hér fyrirboði einhverra tilfinningalegra erfiðleika þá trúi ég því að draumarnir séu að leiðbeina þér hvernig þú eigir að takast á við það mótlæti á uppbyggjandi hátt og til að forðast særindi.
Þú skalt ekki leifa þessum draum að skapa þér áhyggjur, því ef þú finnur jafnvægi þitt og gerir upp þessar hugsanir þá tel ég að þú sért búin að takast á við það sem draumurinn er fyrst og fremst að segja þér.
Óska þér alls góðs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 13:02
Gleðileg málningar kaup
Þessi draumur barst í gestabókina frá: blavatn (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 7. júlí 2007
Gleðileg málningar kaup.
Sæll draumráðandi góður, aftur. Annan draum dreymdi mig síðasta dag mars mánaðar. Ég var með sambýlismanni mínum og 6 ára dóttur okkar úti í Vestmannaeyjum. Þar sem verslunarhúsið "Þingvellir" stóð fyrir eldgos, var komin löng húsaalengja af hvítum raðhúsum! Húsin voru mishá og stóðu sum fram í götuna, en önnur aftar. Var svona hálfgerður Grískur stíll á þessu, mikið af svölum og fallegum veröndum með blómum. Ætluðum við að kaupa efri hæð í einu af þessum húsum, og vorum að hitta fasteignasalann til að ganga frá kaupunum. Við förum að einu hvítu húsanna, á hurðinni stendur talan 2. Við inn og upp á loft. Íbúðin er björt, hátt til lofts og fullbúin húsgögnum. "Allir innanstokksmunir fylgja með í kaupunum" segir fasteignasalinn. Þar eru útsaumuð veggteppi og málverk á veggjum í stofu og sjónvarpsholi, fallegir smámunir í hillusamstæðum, útsaumaðir dúkar á borðum,blóm í gluggum og bækur í bókahillum. Ég undrandi á að eigandi vilji láta alla þessa góðu muni frá sér, auk allra húsgagna. En fasteignasali segir eigandann aðeins ætla að fá 4-5 myndi af ættingjum, sem eru uppi á vegg í forstofu. Við göngum frá kaupum, og ég fer að sýna dótturinni íbúðina, þar sem hún hafði ekki séð hana áður. Þrjú björt herbergi voru í íbúðinni með stórum,ljósum viðarfataskápum, baðherbergi flísalegt í bláu og ljósgulu, stórt hvítt eldhús með litlum svölum, sem voru út yfir litríka, mannmarga götuna. Stofan er stór og björt, með tvennum svölum til austurs og suðurs, og stórum blómafylltum gluggum. En norðurveggur stofunnar er nýmálaður í mildum appelsínugulbrúnum lit. Búið að hengja útprjónað veggteppi á hann (landslag), þó ekki hafi tekist að ljúka við að mála. Stór rauður flekkur, er ómálaður ofarlega á veggnum. Maður minn vill klá ra að mála, en málningarfata stendur tóm úti á suðursvölunum. Hann pirrar sig svolítið yfir því, og segist ekkert vita hvar hægt sé að versla málningu, pensla og sparsl þarna í Eyjunum. Ég segist rata í næstu málningarbúð, hann drífur sig þá úr að ofan og sest út í sólina á suðursvölunum, en ég og dóttirin drífum okkur út í málningarkaup. Úti er glaðasólskin og blíða. Mikið af fólki í litríkum sumarfötum, krakkar með blöðrur eða ís, og við mæðgurnar förum að tala um að það hljóti að vera einhver hátíðarhöld í gangi í bænum. Finnum samt opna málningarbúð, verslum málningu og pensla, og förum út. Fyrir utan geng ég í flasið á deildarstjóra mínum. Hún fegin að sjá mig. Segist hafa verið að leita að mér, því okkur hafi verið boðið á opnunarhátíðina í nýja leikhúsi þeirra Eyjamanna. Við þangað. Stendur stórt glæsilegt hús niður við höfn, þar sem eitt sinn var frystihús. Þar byrjum við á að horfa á fyrsta þátt í leiksýningu á fyrstu hæð hússins, annan þátt á annarri, þriðja á þriðju, en að lokum förum við upp grænbláar steintröppur upp á þak hússins, þar sem sýna á 4 þátt. Þar er mikið af prúðbúnu fólki, sem réttir okkur deildó kampavín að drekka, en dótturinni gosdrykk. Ég fer að horfa á okkur mæðgur, og hugsa hvort við séum rétt klæddar í fagnaðinn. En erum báðar fínar í ljósum sumarfötum, ég kremhvítum og hún gulum og ljósbleikum. Vakna. Vestmannaeyjar eru bernskustöðvar mínar, og ég flutti brott í gosi tæplega 13. ára gömul. Dreymi mikið út í Eyjar.
Draumráðning:
Kæra "blavatn", þótt þessi draumur þinn sé fullur af smáatriðum mun ég gefa þér ráðningu á honum í heild en ekki með skýringu á hverju smáatriði, því þau eru mörg hver til að gefa þér mynd af lifi þínu eða aðstæðum og skýringin felst ekki í hverju atriði fyrir sig heldur meira í þeirri skýru mynd sem draumurinn gefur. Það er almenn draumskýring að líta á hús í draumum sem dreymandann sjálfan. Í lýsingu þinni á húsinu finnurðu ákveðna lýsingu á þinni eigin persónu. Það er jákvætt við drauminn að húsið allt er bjart og í mildum björtum litum og þar sem nýtt hús er gjarnan talið fyrir gæfu dreymandans í eigin persónulegu málum er þetta mjög jákvætt. Mér finnst hins vegar nokkuð ljóst af draumnum að þú stendur á ákveðnum tímamótum í lífi þínu og einnig að einhverjir hnökrar/árekstrar eru við maka þinn sem í raun er að pirra sig á þér þegar hann lætur ókláruðu málningarvinnuna fara í taugarnar á sér. Hér eru einhver óuppgerð mál sem þarf að taka á.
Þú undirstrikar þetta síðar í draumnum þegar þú ferð í leikhúsið því þar ferð þú í gegnum ákveðna kafla lífs þíns og ert komin að nýjum kafla. Grænbláu steintröppurnar sem þú ferð upp boða gæfu, óskir munu rætast og þessu fylgir einnig vísbending um mikla sköpun, listræn gildi og góð samskipti. Það að þið mæðgur takið þátt í mannfagnaði í lok draumsins er klár vísbending um að framtíð þín og frami er meiri en þú átt von á. Að lokum, það að draumurinn tengist Vestmannaeyjum tel ég ekki það sem skiptir mestu máli að öðru leiti en því að þar er ákveðin tenging við rætur þínar og að þú skoðir lífshlaup þitt frá þeim grunni, gerir upp drauma þína og væntingar til lífsins, styrkir bara þá skoðun mína að draumurinn fjalli fyrst og fremst um þig sem persónu og hvað bíður þín.
Tel að draumurinn sé fyrirboði góðra tíma, vaxtar og nýs kafla í lífi þínu. Þú munt þó þurfa að takast á við einhverja árekstra í samskiptum við þína nánustu áður en þessum kafla er náð. Hugaðu vel að fólkinu sem næst þér stendur og ekki síður þér sjálfri, hvernig þér líður og hvort þar er eitthvað sem þú getur gert sjálf, sjálfsmat, sjálfstraust, hegðun, sem færir þig nær því lífi, nýjum kafla, sem þig langar að upplifa. Þetta er mikilvægt því þín býður kafli þar sem mikil sköpun, góð samskipti og virðing ráða för.
Vona að þessi draumskýring megi verða þér til gæfu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 18:53
Skipstjórinn
Þessi draumur barst í gestabókina frá: Sigríði Sigurðardóttur, fös. 29. júní 2007
Skipstjórinn.
Dreymdi snemma í vor, að ég væri orðin atvinnulaus. Þar sem hásumar var og blíðviðri ákvað ég að aka niður að Reykjavíkurhöfn, ganga og hugsa mitt ráð. Kemur þar útgerðarmaður aðvífandi, þar sem ég stend og horfi út á himinbláan og sléttan sjóinn. Skiptir engum togum, að hann býður mér skipstjórastarf á 120 tonna bát, sem ég þigg. Áhöfnin stendur klár, svo ég dríf mig bara á sjó med det samme. Á tveimur tímum er ég búin að fylla bátinn af fiski, svo flæðir upp úr öllum lestum, og stór hrúga er uppi á þilfari líka. Ég sigli í land og landa upp öllu saman, og skelli mér í aðra ferð út á Faxaflóann með áhöfninni. Aftur kem ég með drekkhlaðinn bát inn til löndunar. Útgerðarmaðurinn að vonum ánægður með mig, og segir að nú sé nóg komið fyrir daginn, þar sem klukkan sé orðin fimm um eftirmiðdag. Í því kemur sambýlismaður minn, og spyr hvað ég sé að brasa. Ég segi honum að ég hafi ráðið mig sem skipstjóra, og sé búin að fara tvo veiðitúra. Veiddirðu nokkuð, spyr minn maður. Ég sýni honum drekkhlaðinn bátinn sem er verið að byrja að landa úr. Hann tekur nokkra fiska og fer að raða þeim og flokka eftir sortum ofan á bretti á bryggjunni. Þar eru 4 stórir "Túnfiskar" sem búið er að gera að (, hauslausir,ekkert blóð eða slor sjáanlegt), skrautlegir stórir suðrænir fiskar (6-8 stk.) og svo 2 furðulegir sandgulir fiskar sem líta út eins og úlfaldar. Honum finnst þetta ágæt veiði, og spyr hvort þetta sé allur aflinn. Ég bendi honum á stóran vörubíl með 30 full fiskikör á pallinum, og segi þetta vera aflann úr fyrri ferðinni. Útgerðarmaður kemur, og segir að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af lönduninni, hann sjái um hana, en minnir mig á að mæta aftur til starfa daginn eftir. Vakna. Hef aldrei verið atvinnulaus, frá 13 ára aldri, er í ágætu starfi, er alin upp í sjávarþorpi, en hef aldrei starfað á sjó, enda með afbrigðum sjóveik. Kveðja, Sigga S.
Draumráðning:
Sæl Sigríður og takk fyrir að senda drauminn þinn sem er hlaðinn af draumtáknum og einkar athyglisverður. Ég tel þennan draum þinn hafa tvíþætta merkingu, annarsvegar skýr tákn sem segja hvers er að vænta hjá þér og hinsvegar er draumurinn í heild eins og stöðumat á þinni líðan og samskiptum þínum við þína nánustu.
En byrjum á draumtáknunum, því þau eru fjölmörg sem ástæða er til að staldra við:
1) Atvinnulaus
2) Veður: sumar og blíðviðri
3) Boðin vinna sem skipstjóri
4) Aflar vel
5) Útgerðarmaðurinn ánægður, hrós
6) Sambýlismaðurinn efast um getu þína
7) Fiskur, veiði
8) Túnfiskur og furðufiskarnir gulu
Atvinnuleysi í draumi veit á annríki í vöku og frami og gæfa eru gjarnan tengd við það að dreyma skipstjóra, þó geta komið hindranir á leið dreymandans sem fyrst þarf að sigrast á. Sumar er fyrir góðu og það að veiða fisk veit á velgengni. Mikið af fiski getur einnig verið fyrirboði góðrar heilsu. Skip og það að sigla getur verið mjög táknrænt og er oft tengt lífi og lífsgöngu dreymandans, en að þú siglir hér í blíðviðri er góðs viti og bendir einnig til að fjármál þín verði óvænt betri en þau hafa verið. Það að vera hrósað í draumi er hins vegar ekki alltaf jafn jákvætt því það að ókunnugur maður hrósar þér getur verið fyrirboði afbrýðissemi frá ástvini sérstaklega ef þú veitir einhverjum mikla athygli. Getur jafnvel bent til þess að ástvinur yfirgefi dreymandann. Hér koma þó fyrir draumtákn með andstæðar merkingar því það að þú veiðir mikinn fisk er fyrirboði velgengni bæði í ástum og viðskiptum. Þú finnur vafalaust sjálf hér hvað á við í þínu tilviki. Það að sambýlismaður þinn hefur efasemdir um getu þína til að veiða getur bæði táknað að þú sért ekki metin að verðleikum, að hann trúi ekki á þig, en einnig getur þetta bara átt við sjálfsálit þitt, að þú hafir vissa minnimáttarkennd gagnvart þér sjálfri og búist ekki við að hann trúi á þig og bakki uppi í því sem býður þín. Það að þig dreymir Túnfisk bendir til að þú þurfir að vinna úr einhverri lífsreynslu til að öðlast meiri færni eða lífsfyllingu og gulu skrítnu fiskarnir tveir geta bent til nýjunga/verkefna þar sem greind þín og andleg hugsun eru lykillinn að lausn málanna.
Ef við tökum nú drauminn þinn í heild Sigríður þá tel ég hann jákvæðan fyrir þig og sé fyrirboði þess að þér muni ganga vel og eigir frama sem kannski ekki allir hafa ætlað þér. Sálarlíf þitt í vöku virðist gott og þú virðist vita hvert þú ætlar þér (siglir í blíðviðri), en einnig er ljóst að þú munt þurfa að takast á við hindranir til að ná markmiðum þínum. Ég ráðlegg þér að skoða hvort sjálfsmynd þín sé eitthvað brotin, það er hvort þú hafir ekki fulla trú á getu þína, því ef svo er þá þarftu að vinna bug á því til að ná þeim árangri og velgengni sem býður þín augljóslega. Draumurinn gefur mér einnig þá tilfinningu að maki þinn sé ekki að bakka þig að fullu uppi og gæti fjarlægst þig ef ekkert er að gert þegar þú mætir velgengni þinni. Vonandi er þetta bara ábending um hluti sem auðvelt er að sneyða hjá ef málin eru rædd. Í heild er draumurinn þinn mjög jákvæður og veit á velgengni hjá þér bæði í fjármálum, atvinnu og ástum, en eins og ávallt fer enginn þá leið án þess að leggja eitthvað að mörkum, yfirstíga hindranir á leið til þroska.
Vona að þessi skýring mín hjálpi þér og ég óska þér alls góðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.6.2007 | 00:50
Barnið
Eftirfarandi draumur barst í gestabókina frá: Björn A. (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 27. júní 2007
Barnið
Mig dreymdi að ég hafi verið með félögum á einhverjum skemmtistað. Svo kemur það að stelpa með barnavagn sem ég þekkti ekki neitt en hún þekkti félaga mína þannig að hún fór með þeim inná skemmtistaðinn og bað mig um að fylgjast með vagninum. í Vagninum var svona 1.-2. ára gamalt barn. Svo vaknar barnið og ég tek það upp til að koma í veg fyrir að það fari að gráta, fer svona að tala við það en það er rólegt allan tímann, svo kemur móðurinn út og í stað þess að taka barnið þá gengur hún framhjá eins og hún þekki mig ekki og fer með félögum mínum niðrí bæ og ég sit eftir með barn sem ég á ekki.
Draumráðning:
Sæll Björn og takk fyrir að senda drauminn þinn. Það að dreyma börn er oft fyrirboði einhverra veikinda eða erfiðleika. Að annast barn sem maður ekki þekkir kemur gjarnan fram sem fyrirboði veikinda í fjölskyldu dreymandans. Í draumnum þínum eru þó einnig jákvæð merki sem tengjast barninu, því sofandi barn veit á lánsemi. Til að gefa skýringu á þessum draum þínum væri gott að vita hvernig þér sjálfum leið í þessari stöðu. Ég myndi vilja ráðleggja þér að hafa ekki áhyggjur, en vera samt á varðbergi gagnvart því að ekki sé verið að fara á bak við þig á einhvern hátt, því draumurinn ber þess merki að þú þurfir að takast á við einhverskonar mótlæti sem gæti tengst einhverjum vinum eða fólki sem þú umgengst. Sé þetta hins vegar vísbending um veikindi þá er það ekki tengt þér sjálfum en frekar einhverjum þér nákomnum. Þú ættir að hlusta áfram eftir draumunum þínum og taktu eftir því hvaða tilfinningu þú hefur sjálfur þegar þú vaknar og rifjar upp drauminn. Myndin gæti skýrst frekar með endurteknum draumum.
Vona að þetta hjálpi þér að skilja drauminn þinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)