27.6.2007 | 00:30
Persónuleg draumtákn
Fékk þessa skemmtilegu og fróðlegu fyrirspurn fá Aðalheiði í gestabókina
Ég er alltaf með stóru draumráðningarbókina á náttborðinu hjá mér og fletti iðulega upp í henni þegar ég vakna upp af skrítnum og sterkum draumum. Eitt sinn dreymdi mig draum sem snerist aðallega um brúðarslör en það er sagt vera fyrir því að einhver á heimilinu látist. Sama kvöld veiktist maðurinn minn frekar alvarlega og brá mér mjög. Kom ég honum til læknis um leið og unnt var og átti hann í veikindum sínum í nokkrar vikur en náði fullum bata. Nokkrum vikum síðar dreymir mig svipaðan draum og skömmu síðar veiktist yngsta dóttir okkar. Í fyrstu var ekki vitað hvað var að en um síðir var hún skorin upp og var þá með sprungin botnlanga. Hún náði sér líka að fullu en ég var ekki í rónni í langan tíma á eftir. Getur verið að brúðarslör tákni slæm veikindi hjá mér en ekki andlát? Ég veit t.d. að mannaskítur er ekki fyrir peningum hjá mér heldur þvert á móti fyrir peningavandræðum. Ömmu mína dreymdi alltaf ákveðinn mann áður en einhver sem hún þekkti dó. Veistu eitthvað um það hvernig draumráðningar verða til og um svona ,,frávik" - ef svo má segja - frá þeim? Með kveðju.
Svar
Sæl Aðalheiður og bestu þakkir fyrir þessa fyrirspurn. Já í mínum huga er engin spurning að draumtákn geta verið persónuleg og í þínu tilfelli sýnist mér augljóst að endurteknir draumar þínir um brúðarslörið eru að gefa þér vísbendingar um veikindi, en ekki andlát. Þú ert einmitt hér með gott dæmi þess að hægt er að læra að þekkja drauma sína og draumtákn með því að skrá draumana eða leggja á minnið og bera þá saman við það sem viðkomandi síðan upplifir.
Hvernig verða draumtákn til, spyrð þú? Draumtákn verða einmitt til á þennan hátt, fólk lærir af reynslunni og flestar þær draumráðningabækur sem skráðar hafa verið byggja á sögnum og reynslu fólks gegnum aldir. Draumtákn eru líka sjaldan einhlít og eins og ég hef áður fjallað um hér á vefnum mínum þá skiptir tilfinning dreymandans sjálfs fyrir draumnum og líðan í draumi einnig miklu um ráðningu drauma. Enginn er betri draumráðandi en dreymandinn sjálfur ef viðkomandi er opinn fyrir því að leyfa boðskap draumanna að koma til sín óhindrað.
Draumtákn og skíringar þeirra eru heldur ekki eilít sannindi frá einum tíma til annars eða frá einum stað til annars. Skilaboð draumanna eru þannig gerð að draumtákn hvers og eins eiga einhverja skírskotun í það umhverfi og aðstæður sem viðkomandi er í. Á meðan Íslendingar áttu allt sitt undir landbúnaði eða sjósókn tengdust drauma mikið þessum þáttum þar sem þannig komu fram myndlíkingar og skilaboð sem fólk gat sett í samhengi við sitt daglega líf. Þannig má benda á fjölda draumtákna sem tengdust sauðfé og heyskap sem í dag er orðið svo langt frá veruleika flestra að þau draumtákn koma sjaldnar fyrir. Önnur draumtákn koma þar inn og taka við. Þetta er í raun ekkert ólíkt því hvernig tungumál þróast á löngum tíma. Mállýskur tungumálanna eru þar svipaðra og persónuleg eða staðbundin draumtákn.
Ekki hafa verið færðar sönnur fyrir því hvernig þetta gerist nákvæmlega, en ég tel og trúi að líklegasta skýringin sé sú að þegar okkur dreymir þá er undirvitund okkar sjálfra að vinna úr boðum og matreiðir þau á þann hátt að við skiljum í vöku. Undirvitundin okkar, sjálfið, er í miklu meiri tengingu við alheiminn en okkur flest grunar svona dags daglega og því mikilvægt að ná að finna frið og ró með sjálfum sér til að ná að nema þau boð og þá visku sem þar býr.
Vona að þetta hjálpi þér eitthvað í að skilja og vinna með draumana þína
Kær kveðja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2007 | 00:23
Fyrirboði eða tákn um vellíðan
Fyrirboði eða tákn um vellíðan
Þessi draumur barst í gestabók dramabloggsins frá:
Guðbjörg Ragnarsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), fim. 14. júní 2007
Þannig er mál með vexti að ég missti móður mína í janúar. Fyrir rúmum mánuði síðan dreymdi vinkonu hennar eftirfarandi draum sem síðan hefur komið fram með öðru sniði hjá mér. Vinkonu mömmu dreymdi að þær tvær hefðu farið í bíltúr um Suðurnesin og voru að koma heim til mömmu. Pabbi, sem er á lífi, beið við gluggann tilbúinn til að taka á móti mömmu. Vinkona hennar bisar við hjólastólinn, en þá stígur mamma út úr bílnum. Hún er ung, með ljóst sítt hár og í fallegri síðri grárri kápu. Hún og pabbi labba upp tröppurnar og skeyta engu um hjólastólinn eða vinkonu mömmu. Það er eins og himna sé á milli foreldra minna og vinkonu mömmu - þau heyra ekkert og sjá ekkert nema hvort annað. Foreldrar mínir fara inn og hurðin lokast á eftir þeim. Eftir situr vinkona mömmu með hjólastólinn. Mamma var í hjólastól bróðurpart ævi sinnar. Í von um ráðningu. Kær kveðja Gugga
Draumráðning:
Sæl Gugga. Ég skal svo sannarlega gera mitt besta til að ráða drauminn sem er afar fróðlegur og fullur af táknum sem augljóslega er ætlað að bera boð til þeirra sem hlut eiga að máli. Það hefur lengi verið trú að hlusta beri á skilaboð látinna í draumi. Það sem við verðum þó strax að velta fyrir okkur er að draumurinn getur verið táknrænn eingöngu fyrir dreymandann og að mamma þín sé þá fyrst og fremst að koma fram til að veita henni ákveðna leiðsögn, því það að dreyma látinn vin eða ættingja, og þá alveg sérstaklega ef rætt er við viðkomandi í draumnum, þá getur það bent til þess að dreymandinn þurfi að takast á við eitthvað í einkalífinu sem gæti tekið á, en þó ekki fyrirboði neinna vátíðinda. Hér getur einnig verið fyrirboði þess að dreymandinn fái fréttir af einhverjum sem ekki hefur heyrst mikið frá nýlega.
Þessi draumur getur einnig verið táknrænn fyrir þig og föður þinn og dreymandinn fyrst og fremst næmur fyrir að bera skilaboðin sem í draumnum felast. Sú skýring þykir mér mun líklegri. Það sem einkennir drauminn hvað foreldra þína varðar er að hann er mjög fallegur og hlýr. Fas móður þinnar og framkoma benda til þess að hún sé frjáls og vilji láta vita af sér og að sér líði vel. Ekkert fær skilið foreldra þína að, ekki veggurinn milli heima. Hún mun líklega koma og taka á móti honum einnig þegar hans tími kemur. Það skal þó tekið fram að draumurinn veit frekar á langlífi hans en hitt. Það fallega sem ég skynja við drauminn er sú mikla tenging sem er milli þeirra, þau falla í eigin heim í draumnum. Hvort þau hafa leift sér þessa nánd og tengingu meðan hún lifði veit ég ekki, en augljóst er að böndin milli þeirra eru sterk.
Fleiri skilaboð geta leynst í þessum draumi, en til að segja meira hefði verið gott að vita hvort þær ræddu saman í draumnum og hvort eitthvað er minnistætt úr bílferðinni. Þú nefnir einnig að draumurinn hafi komið fram með öðru sniði hjá þér. Það að skoða þinn draum einnig gæti gefið draumskýringu meiri dýft og skilning.
Vona að þessar skýringar hjálpi þér eitthvað á leið við að túlka drauminn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2007 | 00:12
Óeðlilegur hárvöxtur
Óeðlilegur hárvöxtur
Þessi draumur barst draumablogginu frá: Álfhildur Hallgrímsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 13. júní 2007
Mig dreymdi í nótt að ég væri með óeðlilegan hárvöxt á líkamanum, frá hálsi og niðurá herðar, hálfgerða kamba hvorum megin. Ég var að vonum óánægð með þennan hárvöxt en taldi ómögulegt að vera að raka þetta af þar sem hárið yxi hvort eð er strax aftur og þá jafnvel í meira mæli. Ég var þó að plokka stöku hár hér og þar af andlitinu. Geturðu háttvirtur höfundur sagt mér hvað þetta merkir eiginlega?
Draumráðning:
Kæra Álfhildur. Það er mér sönn ánægja að veita þér leiðsögn með drauminn þinn. Mikið hár í draumi er almennt tákn um góða heilsu, en mikill hárvöxtur í draumi getur þó einnig verið fyrirboði um ótryggð. Þar sem hárvöxturinn í þínum draumi er ekki hefðbundinn tel ég að hér geti þó verið um frekari skýringar að ræða sem ég vil þó að setja fram með ákveðnum fyrirvörum þar sem ekkert kemur fram um lit eða áferð hársins í þínu tilviki. Hálsinn sem hárvöxturinn er á er hér einnig táknrænn, en hann segir gjarnan til um auðæfi eða vald af einhverju tagi. Í þínu tilviki þykir mér líkleg skýring að þér muni hlotnast eitthvað gott eða þú munir afreka eitthvað sem tekið verður eftir en kemur þér nokkuð á óvart sjálfri og þú meðtekur ekki að fullu. Það kann þó að vera líka að þér líki ekkert of vel þær breytingar sem það kann að hafa á líf þitt, þú streytist á móti en gerir þér þó fljótt grein fyrir að þessir hlutir munu gerast hvað sem þú aðhefst.
Vona að þessi draumskýring mín verði þér að einhverju gagni. Þú átt að geta fundið með þér sjálfri hvort þetta á við eða hvort ég er ekki að ná að lesa í drauminn þinn. Geymdu þessa skýringu mína því bara með þér án þess að velta þessu of mikið fyrir þér. Ekkert við drauminn þinn bendir til þess að hér sé einhver bein viðvörun á ferð og því ekki ástæða til að hafa neinar áhyggjur af þessu.
Bloggar | Breytt 15.6.2007 kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2007 | 18:19
Ég var öll í lús um höfuðið
Eftirfarandi draumur barst frá: Sigríður Jónsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), sun. 20. maí 2007
Lýs
Mig lagnar að fá ráðinn draum sem mig dreymdi í síðustu viku. Ég var öll í lús um höfuðið. Ef ég hristi hausinn þá var eins og svart teppi legðist fyrir. Ég var heima hjá foreldrum mínum og var að reyna að koma í veg fyrir að ég skildi eftir lýs þar. Vildi ekki smita þau. Svo var ég stödd heima hjá mér yfir baðkarinu og var að hrista þetta af mér þar ofaní. Þær bitu mig ekki svo ég muni og ég var ekki að nota sápu eða neitt þannig til að þvo þær af mér. Mér fannst þær óæskilega en ég var frekar hissa en hrædd á þessum ósköpum í draumnum. Mig klæjaði mikið þegar ég vaknaði.
Draumráðning:
Lýs í draumi geta verið mjög táknrænar. Mikið af lús eins og í draumnum þínum getur verið fyrir peningum eða betri hag en þú býrð við í dag. Mikilvægt varðandi túlkun draumsins er hvernig þú bregst við lúsinni í draumnum, því það að drepa lús getur bent til veikinda eða einhverra óþæginda. Það að þú hristir af þér lúsina en drepur ekki bendir því miklu fremur á að peningar sem þú átt ekki von á bíði þín. Ef lýs bíta getur það verið fyrirboði um illt umtal, en það á ekki við í þínum draumi. Við skulum þó ekki útiloka að hér geti verið um að ræða einhver vandamál sem þú hefur ekki unnið úr og vilt hlífa foreldrum þínum við. Það að þú ert að reyna að forða foreldrum þínum frá lúsinni getur bent til þess.
Betur get ég ekki lagt útfrá þessum draumi þínum Sigríður, en þú finnur örugglega hvaða skýring á við í þínu tilviki útfrá tilfinningum þínum í draumnum. Ég er þess þó fullviss að þessi draumur er ekki fyrirboði neins ills, í mesta lagi ábending til þín að gera upp einhverja óunna hluti og í besta falli fyrirboði aukins fjár.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2007 | 16:11
Myndlist tengd draumum
Tengt ráðstefnum sem haldnar eru á vegum alþjóðasamtaka um rannsóknir á draumum, The International Association for the study of Dreams, eru iðulega haldnar listasýningar með verkum er tengjast draumum. Þessi listaverk eru aðgengileg á vefnum og birti ég hér sýnishorn af þessum stórfenglega heim listarinnar. (meira hér)
Awakening (acrylic, 4' x 3')
eftir Bonnie Bisbee
The young woman is blown out of her body by Spirit Guides, and receives a flying song. This is a depiction of lucid dreaming. The dreamer awakes in her dream, and is taught that the Earth of her dream and the Earth of her waking consciousness are both dreams: as such, they can be shaped by Consciousness and Will.
She has the freedom to fly, and to choose. Her Dream Body flies to the distant Shore of New Instruction.
Unconscious (collage on paper, 17" x 11")
eftir Clare Johnson
Clare Johnson is a doctoral researcher with the University of Leeds, England, investigating the role of lucid dreaming in the creative process. Her research is rooted in practice as she is writing a novel which features lucid dreaming and lucid dream inspired art. She is exploring ways of drawing on lucid dreams at each stage of the creative process.
Artist Statement:
When I started having lucid dreams over a decade ago, I was eager to find a means of representing them visually. I used a marbling technique and images cut from magazines and old photographs. I then arranged them into collages. Bright colours are used to represent the extreme visual clarity of my lucid dreams. Hands and eyes appear frequently in my collages. The hands reflect a lucidity technique used to stabilise the dream scene, while the eyes represent the conscious gaze of the lucid dreamer.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2007 | 23:29
Konur dreymir meira á meðgöngunni
"Draumar virðast oft mun meira lifandi á meðgöngunni en ella og er það talið tengjast breytingum á hormónabúskap. Rannsóknir sýna að tímabil draumsvefnsins REM eru lengri á meðgöngunni og leiðir það til flóknari drauma, gjarnan með auknu kynferðislegu inntaki. Draumar kvenna á meðgöngu eru alla jafna skýrari og áhrifameiri og er talið að þetta virka draumalíf sé ein leið vitundarinnar til að auka næmleika konunnar á þarfir barnsins" (Björg Bjarnadóttir. 2003. Draumalandið, Skuggsjá)
Þessi tilvitnun hér að ofan er úr þessari áhugaverðu bók, Draumalandið, sem ritari draumabloggsins var svo lánsamur og hamingjusamur að fá áritaða að gjöf frá bókarhöfundi.
Bókin Draumalandið, draumar íslendinga fyrr og nú er rituð af Björgu Bjarnadóttur. Björg er doktor í þróunarsálfræði og sérstakur áhugamaður um drauma, merkingu þeirra, tilurð og tilgang. Björg er án efa meðal fremstu vísindamanna sem stunda rannsóknir á draumum í dag.
Fyrir utan að fjalla um tengsl svefns og drauma, skilgreiningu ólíkra flokka drauma, er í bókinni að finna fjölda drauma sem skráðir hafa verið eftir fólki, og síðast en ekki síst er bent á hagnýtar leiðir fyrir fólk til að læra á drauma sína og vinna með þá sér til gagns og gleði.
Frábær bók sem enginn áhugamanneskja um drauma ætti að láta fram hjá sér fara
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.5.2007 | 22:30
Að verða geggjuð
Þessi draumur barst í gestabók bloggsins
Að verða geggjuð
Ég held ég hafi aldrei vaknað og liðið svona illa/skringilega. Upp á síðkastið get ég ekki lagst til svefns nema dreyma framhjáhald. Mig dreymir að ég sé að halda framhjá kærastanum mínum en málið er að mér líður svo illa í draumnum því ég vil ekki halda framhjá honum og ég er alltaf að fá taugaáfall í hvert skipti sem ég er við það að vakna, og mér líður illa alveg soldið eftir að ég vakna.. en ég hef nákvæmlega enga löngun til að halda framhjá kærastanum, er mjög ánægð með hann og sambandið. Ég yrði virkilega þakklát ef ég gæti fengið einhver svör...Takk. kv ráðalaus
Draumráðning:
Hér er svolítið spurning um hvort þú hafir í draumnum verið að falla í freysni eða eins og þú lýsir að þetta sé gegn þínum vilja og ósk. Það að falla í freysni og halda framhjá í draumi getur verið fyrirboði einhverra deilna sem viðkomandi lendir í. Draumar um framhjáhald tákna þó oftast það gagnstæða, sérstaklega ef mann dreymir að haldi sé framhjá manni sjálfum. Það boðar velgengni hvort heldur er í ástamálum eða öðru sem viðkomandi er ofarlega í huga.
Auk þess að vera fyrirboði einhvers geta draumar líka einfaldlega verið úrvinnsla á hugsunum eða áhyggjum sem hvíla á dreymandanum. Þú ættir því að spyrja þig hvort þetta sé eitthvað sem þú óttast að geti gerst eða gæti verið gert á þinn hlut. Ef þú ferð yfir það í huganum er líklegt að þú gerir upp þessa drauma einnig séu þeir slík ábending.
Þar sem þú ert hamingjusöm og ánægð í sambandinu er þó ekki líklegt að þessir draumar hafi með framhjáhald í eiginlegum skilningi að gera. Vertu frekar viðbúin því að þú gætir lent í einhverjum erjum eða deilum þar sem þú þarft að sýna stillingu og taka á hlutunum af skynsemi og með ró í huga.
Vona að þetta verði að einhverju gagni. Þætti vænt um að sjá komment til baka um hvort þetta opnar þér einhverja sýn og hvort draumarnir haldi áfram.
Bestu kveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2007 | 23:39
Staðir í draumi
Fékk þetta skemmtilega bréf í gestabókina frá Aðalheiði Haraldsdóttur, takk :)
Það verð ég að viðurkenna Aðalheiður að ég hef ekki áður heyrt af draumum sem beint líkjast þínum. Þessi draumur þykir mér því afar spennandi viðfangsefni og kann þér bestu þakkir fyrir að skilja hann eftir í gestabókinni.
Bréf Aðalheiðar: "Staðir í draumum"
Mikið var gaman að rekast á þessa síðu! Mig dreymir stundum fyrir daglátum og hef velt draumum svolítið fyrir mér. Mér finnst svolítið merkilegt hvernig mig dreymir staði - mig dreymir t.d. alltaf sömu verslunarmiðstöðina. Hún stendur u.þ.b. þar sem Hús verslunarinnar stendur og er há og glæsileg glerbygging með mörgum verslunum sem ég hef stundum verið að kíkja í í draumum. Frá henni liggur síðan brú ská yfir Kringlumýrarbrautina (sem er ekki í draumnum) í átt að Fossvogi u.þ.b. Mig dreymir líka alltaf sama flugvöllinn, en það er ekki neinn flugvöllur sem ég þekki úr raunveruleikanum og það sama gildir um kirkju. Heimabær minn lítur líka öðruvísi út í draumum, en þó er hann alltaf eins í draumunum. Stundum hugsa ég í gegnum draumana: ,,Ég hef verið hér áður". Kannast þú við svona dæmi frá fleirum og hefur þetta einhverja sérstaka merkingu?
Hér verður ekki um beina draumráðningu að ræða af minni hálfu en meira vangaveltur um það sem fram kemur.
Hús í draumum hafa oft mjög skýra merkingu. Mjög algengt er meðal draumskýrenda að túlka hús sem persónuna sjálfa sem dreymir. Skiptir þá máli hvort húsið er nýtt, gamalt, bjart eða kuldalegt svo dæmi séu tekin. Þannig eru ný hús eða hús í byggingu fyrir gæfu dreymandans. Hús í niðurníðslu geta þannig bent til veikinda. Að dreyma eigin hús er vísbending um að hamingjuna sé að finna heima fyrir en að dreyma ókunnug hús getur táknað óafgreidd mál. Að dreyma ókunnug hús þarf þó alls ekki að vera neikvætt, því fari menn um slík hús er það oft fyrirboði þess að viðkomandi sé að fara í einhverjar framkvæmdir.
Lendi menn hins vegar fyrir því í draumi að hús hrynji eða viðkomandi sé meinaður aðgangur að þeim er ráð að fara með gát og á það sérstaklega við um fjármál og viðskipti. Það að fara um hús og uppgötva nýjar vistarverur eða herbergi getur bent til að breytingar séu í vændum hjá dreymandanum. Hvort þær eru af hinu góða eða ekki ræðst þá frekar af öðrum táknum í draumi og tilfinningum viðkomandi fyrir draumnum. Það að fara niður í hvelfingar eða kjallara getur bent til þess að viðkomandi sé að leita innávið, leita svara hjá sínu innra sjálfi. Slíkir draumar geta gefið mikla leiðsögn og því mikilvægt fyrir dreymandann að íhuga vel allt sem hann hefur skynjað á þeim stað, hvort sem það eru orð, athafnir, tilfinningar eða jafnvel litir.
Að dreyma það að byggja hús er oft túlkað svo að ef viðkomandi er einhleypur þá veit draumurinn á hjónaband en sé viðkomandi í sambandi getur draumurinn verið fyrirboði einverra vandræða í sambandinu. Af sumum draumskýrendum eru húsbyggingar einnig taldar vera feigðarboðar.
Hvort þetta hjálpar eitthvað til við að átta sig á verslunarmiðstöðinni sem er í draumunum skal ósagt látið. Það að byggingin er stór og úr gleri getur þó vísað á tilfinningar dreymandans, því gler og glerveggir í draumi sem umlykja dreymandann geta verið vísbending um tilfinningalega erfiðleika og að viðkomandi eigi erfitt með að sjá líf sitt í réttu ljósi. Það að sama húsið kemur endurtekið fyrir í draumi tel ég benda til þess að undirvitund dreymandans þekki ástæðuna og sé að reyna að koma boðum eða leiðsögn til dreymandans sem nýtist viðkomandi í vöku.
Flug, flugvélar, flugskýli, flugvellir og allt sem tengist flugi eru einnig algeng og oft skýr draumtákn. Draumar sem tengjast flugi eru oftast mjög jákvæðir og lýsa gjarnan ævintýraþrá, löngun til að breyta einhverju í lífi sínu eða tákn um ósk dreymandans til að losna úr viðjum vanans.
Að dreyma kaupstað eða þorp er gjarnan sagt boða mikilvægar breytingar í lífi dreymandans. Að dreyma stórborg er oft til marks um metnað og ef viðkomandi fer inní borgina þá bendir það til að viðkomandi nái markmiðum sínum.
Að lokum skulum við ekki gleyma þeim möguleika að endurtekinn draumur um þessa staði, verslunarmiðstöðina, flugvöllinn og heimabæinn geta verið hreinir forspárdrauma um staðina sjálfa og hafi þannig lítið með dreymandann að gera. Þessi verslunarmiðstöð á kannski hreinlega eftir að rísa í þessari mynd sem lýst er í draumnum og að breytingar eigi eftir að verða á heimabænum. Óljósara er hins vegar með flugvöllinn þar sem hann er ekki tengdur neinni staðsetningu.
Vona að þetta hjálpi þér eitthvað Aðalheiður við að spá í draumana þína og verði einhverjum öðrum einnig hvatning til að skoða sína drauma og e.t.v. miðla af reynslu sinni.
Enn og aftur takk fyrir drauminn :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2007 | 22:22
Tvær fótalausar
Þessi draumur barst frá: Kristín (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 7. maí 2007
Dreymdi að stúlka sem ég kannast við (heitir Katrín) og hef stundum unnið með missir annan fótleggin í slysi, frá miðju læri eða ofar. Hún bar sig samt mjög vel og hoppaði um á hinum fætinum, en kvartaði eitthvað yfir því að vera þreytt í fætinum sem eftir var. Þá bendi ég henni á að ein vinkona mín (heitir Lísa) sé líka búin að missa annan fótinn og hafi því reynslu af því. Ég spyr svo Lísu vinkonu mína hvort hún sé tilbúin til að hitta Kötu og deila með henni sinni reynslu af því að vera bara með annan fótinn, Lísa samþykkti það. Lísa var í draumnum komin með gervifót og var rosa dugleg man ég í draumnum og þetta háði henni ósköp lítið. Ég hafði hinsvegar áhyggjur af andlegri hlið Kötu í draumnum og finnst ég hafa verið að reyna að draga úr sjokki hennar með því að koma á fundinum við Lísu.
Draumráðning:
Þessi draumur þinn Kristín er ekki sá auðveldasti að ráða, því hér getur bæði verið um það að ræða að ákveðin leiðsögn sé á ferð til þín sjálfrar eða þá varðandi stúlkuna sem þig dreymir, hana Katrínu. Varðandi drauma sem þennan ber því að varast að draga stórar ályktanir, en ég hallast þó að því að draumurinn snúist fyrst og fremst um Katrínu og að þú og vinkona þín sem þú kallar til skipti þar minna máli. Hér getur þó skipt máli um ráðninguna hvort þú komst að slysi þar sem hún missti fótinn eða hvort hún var einfaldlega búin að missa fótinn í draumnum. Komir þú að slysi er ábendingin frekar til þín sjálfrar að fara varlega.
Slys og meiðsli í draumum geta verið fyrir mótlæti og jafnvel daglátum, en einnig ábending um að viðkomandi þurfi að fara varlega. Það að missa fót hefur gjarnan verið túlkað sem vísbending um ástvinamissi viðkomandi, en er þó ekki einhlýtt. Þess eru einnig dæmi að draumar um slys geti verið fyrir því gagnstæða, það er velgengni og mikilli hamingju.
Það að þú hefur áhyggjur og ert að reyna að hjálpa getur haft merkingu sem snýr að þér sjálfri. Algeng draumskýring varðandi það að hjálpa einhverjum eftir slys er að það sé ábending til dreymandans um að vinur muni hafa fé af viðkomandi.
Í þessum draumi er þó mikil bjartsýni og ekki að skynja að hér sé sorg á ferð í eiginlegri merkingu. Ég tel því líklegast að vinkonur þínar sem þig dreymir um séu að ganga í gegnum einhverja erfiðleika eða mótlæti og þurfi bara á hjálp og stuðningi að halda, sem þú getur veitt með því að vera til staðar.
Farðu bara varlega og taktu hóflegt mark á þessum draumskýringum mínum.
Bestu kveðjur og takk fyrir að deila þessum draumi með draumablogginu mínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 21:06
Mig dreymdi að ég var komin með grátt hár
Þessi draumur barst frá: inga (Óskráður, IP-tala skráð), mið. 2. maí 2007
Mig dreymdi að ég var komin með grátt hár, er í raun ljóshærð en í draumnum var ég með litað dökkt hár og var svo komin með tveggja cm silfur gráa rót. Mér þykir forvitnilegt að vita hvað þetta merkir en mér leið ekki vel, í draumnum, þegar ég sá gráa hárið.
Draumráðning:
Í þessum draumi þínum Inga eru þrjú nokkuð skýr draumtákn, litað hár, gráu hárin og svo tilfinning þín (óttinn). Grátt hár í draumi táknar gjarnan að viðkomandi þurfi að taka sig á til að ná áformum sínum eða ná að gera drauma sína að veruleika. Það að vera með litað hár er hinsvegar vísbending um að láta ekki hégóma eða tilgerð ná yfirhöndinni í lífi sínu eða einhverju sem þú ert að takast á við þessa stundina. Tilfinning þín í draumnum, óttinn við gráu hárin, ber vott um ákveðinn ótta hjá þér við að þér takist ekki það sem þú ætlar að ná. Ákveðin vanmáttarkennd.
Það góða er að draumurinn þinn boðar ekkert illt eða neikvætt og því engin ástæða til að óttast drauminn. Ég tel að þessi draumur sé skilaboð frá þinni eigin visku, innri vitund, um að óttast ekkert, efla sjálfstraustið og ganga í að láta drauma þína rætast. Forðastu allan hégóma og tilgerð sem því tengist. Vertu þú sjálf og geyslaðu þínu sjálfi þá trúi ég að svarið við draumnum sé innan seilingar.
Gangi þér allt í haginn Inga og takk fyrir að deila þessum draum með draumablogginu mínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)