27.1.2008 | 22:07
Draumur í dós
Þessi draumur barst frá: Gulla (Óskráður, IP-tala skráð), sun. 27. jan. 2008
Sæl.. Ég er berdreymin og hef skrifað niður drauma sem að sitja í mér í nokkur ár. Þennan draum dreymdi mig árið 2004 og hef ég aldrei verið sátt við hann. Kannski þú getir eitthvað hjálpað mér að skilja hann. "Við unnusti minn (nú eiginmaður minn) erum á leið með Herjólfi til Vestmannaeyja. Það er mikið af fólki í kringum okkur og finnst mér þetta alveg eins geta verið þjóðhátíð. Þegar við komum til Eyja göngum við um bæinn og enn er mikið af fólki. Því næst erum við stödd á salernisbásum þar sem að opið er niður við gólfið. Ég veit að unnustinn er á bás hægra megin við mig. Ég sé þvagbunu frá honum þar sem að hann pissar á gólfið. Mér leið mjög illa og skynja að eitthvað mikið sé að hjá honum. Því næst erum við stödd í Herjólfi aftur en nú gerir brjálað veður með miklum öldugangi og drungalegheitum. Skipið veltist til og frá og ég skynja mikla hættu. Því næst er ég stödd við íslenska strönd þar sem að allt er svo kyrrt og hljótt. Sjórinn spegilsléttur og tær. Unnustinn er ekki með mér. En það er fullt af fólki að ganga fjörurnar og allir að leita að einhverju. Í sjónum sé ég tvo mjög stóra gullkrossa. Þeir virka sem einn og hálfur meter og þungir. Ég kalla á hjálp og þá kemur til mín maður sem að ég þekki ekki en veit að er í björgunarsveit og veður útí sjóinn og nær öðrum krossinum. Þegar hann kemur til baka er hann með krossinn í lófanum og hann er orðinn lítill eins og hálsmen. Hann réttir mér krossinn og ég sé að þetta er krossinn sem að ég gaf unnusta mínum þegar fyrsta barnið okkar fæddist. Keðjan var slitin. Ég finn fyrir doða tilfinningu þar sem að ég stend með krossinn í lófanum og finn að hinn krossinn sem að lá á botninum snerti mig ekki." Segir þessi draumur þér eitthvað mín kæra ?
Draumráðning:
Takk fyrir að senda mér þennan draum þinn Gulla. Ég vona svo sannarlega að hann sé ekki búinn að valda þér miklum áhyggjum því þennan draum skynja ég bara með góð skilaboð til þín. Það sem draumurinn hefur viljað koma til þín þegar þig dreymdi hann er skilaboð um að þú sért búin að finna þér maka sem verði þér traustur og góður. Það að dreyma drukknun annarra boðar gott og gullkrossinn er bara innsigli þessa að viðkomandi eigi eða eignist góðan maka og upplifi hamingju.
Það að keðjan er slitin er þó merki þess að einhverjir brestir geti komið og er raun það eina neikvæða sem ég skynja tengt draumnum. Þvagbuna mannsins getur bent til að hann hafi samviskubit yfir einhverju eða hann hafi þörf fyrir að trúa einhverjum fyrir leyndarmáli. En í heild tel ég drauminn þinn boða gott.
Vona svo sannarlega að þetta komi þér að gagni og endilega leifðu mér að heyra hvaða tilfinningu þú færð þegar þú lest þessa ráðningu mína.
Athugasemdir
Takk fyrir þetta mín kæra. Þessi draumur er búinn að sitja mikið í mér sérstaklega í ljósi þess að maðurinn minn er sjómaður. Ég er að spá í hvort þetta með slitnu keðjuna og þvagbununa geti tengst því að hann ræður ekki við áfengi. þ.e. hann drekkur ekki oft en þegar hann drekkur á hann það til að fara langt yfir strikið og allt fer í bál og brand. Hann er búinn að horfast í augu við vandann og við erum að vinna í honum. Lang tíma verkefni en kemur vonandi. Mér finnst þetta góð ráðning. Ég á örugglega eftir að senda þér fleiri drauma. Frábært framtak hjá þér.
Gulla (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 20:37
Gott að heyra ef þessi ráðning mín kemur þér á sporið með að túlka drauminn þinn. Það er hreint ekki ólíklegt að slitna keðjan sé drykkjan og árekstrarninr sem verða út af því eins og þú getur þér til.
Þó það skipti vonandi ekki máli þá er ég ekki "mín kæra" heldur "minn kæri", he he og bros til þín.
Draumar, 30.1.2008 kl. 21:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.