19.2.2008 | 21:34
Fæðing
Þessi draumur barst frá: Dussý (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 18. feb. 2008
Mér fannst ég vera stödd í Melaskóla (sem ég tengist engan vegin). Kennslustofan var full af nemendum en ég þekkti bara einn og það var einn sonur minn. Kennarinn bað hann að leysa verkefni sem hann leysti vel af hendi. Það kom að mér og ég tók upp bláa þunna skólabók sem ég las upp úr en gekk það erfiðlega enda langt síðan ég hef verið í skóla. Mér fannst ég vera ófrísk og átti erfitt með að sitja bein. Allt í einu finn ég hvar legvatnið rennur frá mér og mér finnst það óheppilet að fæðing skuli vera farin af stað í miðri kennslustund. Ég bað kvenkyns nemanda um að panta fyrir mig sjúkrabíl þar sem ég sá mér ekki fært að komast á annan hátt á fæðingardeildina. Á meðan ég bíð eftir bílnum sé ég hvar höfuð barnsins kemur út og svo fljótlega allt barnið sem er alveg gríðarlega stórt. Ég hafði það á orði að barnið væri yfir 20 merkur því hann var óeðlilega stór. Ég fór að hugsa um manninn minn sem var víðsfjarri því hann ætlaði að vera viðstaddur fæðinguna. Ég tók barnið (drengur) í fangið og fann að ég hafði allan tíman vitað að þetta yrði drengur. Mér varð starsýnt á andlit barnsins því augabrúnirnar voru svo dökkar, þykkar og hárin löng. Mér fannst hann ekki líkur okkur en var mjög ánægð með hann. Ég gekk langa leið með drenginn til að komast að sjúkrabílnum en það var mjög þröngt á bílastæðinu. Draumurinn endar þar sem ég er í sjúkrabílnum á leið með drenginn á fæðingardeildina. Ég vil taka það fram að ég er orðin fullorðin og öll mín börn uppkomin.
Draumráðning:
Sæl Dussý og takk fyrir að senda mér drauminn þinn. Ég tel að þessi draumur þinn snúist um eitthvað sem þér finnst þú vanhæf til að framkvæma á einhvern hátt eða trúir ekki nægjanlega á eigin getu hvort heldur það er tengt vinnu eða samskiptum við fólk. Draumurinn er einnig að boða þér ný tækifæri sem birtast þér eða breytingu sem þú tekst á við og leysir farsællega. Þú nærð árangri sem er meiri en þú værir tilbúin nú að telja þér sjálfri trú um að þú myndir ná. Þessi draumur þinn er því eingöngu fyrir jákvæðum hlutum og boðar þér gott. Skilaboðin eru að trúa á eigin getu og láta ekkert aftra þér í að takast á við þessa áskorun þegar hún birtist þér. Ég trúi að þú skiljir þennan draum þegar þú stendur frammi fyrir þessum umtöluðu breytingum, verkefni sem draumurinn vísar til.
Vona að þetta komi þér að gagni og óska þér alls hins besta :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2008 | 23:39
Sár í lófa
Þessi draumur barst frá: Kristján (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 18. feb. 2008
Ég leit í lófa minn og þar voru 3 sár sem farin voru að gróa eða komin hrúður yfir sárin. Ég kroppaði ofan af sárunum hverju á eftir öðru. Mér til mikillar furðu sá ég að það var 1 lítill ormur í hverju sári sem ég náði taki á og gat dregið úr. Ormar þessir voru mjóir og ljósleitir. Ég vaknaði stuttu síðar og var með óþægindatilfinningu. Með fyrirfram þökk.
Draumráðning:
Sæll Kristján og takk fyrir að deila þessum draum þínum með draumablogginu.
Gróandi sárin í hendinni eru tákn um vaxandi virðingu eða árangur í einhverju sem þú munt takast á við, en ormarnir benda til keppinauta sem þér ber að varast, eða þá að þú þurfir að taka á þig mikla ábyrgð gagnvart einhverjum sem stendur þér nærri.
Bestu kveðjur :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2008 | 23:11
Bráðvantar svar við draumi
Þessi draumur barst frá: Heiða (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 18. feb. 2008
Ég. maðurinn minn og yngsta barnið mitt erum stödd í fögnuði í húsi sem vinafólk okkar á (þau eiga samt ekki heima þar í rauninni). Þetta hús þeirra var þannig staðsett að ég sá húsið mitt út úr glugganum hjá þeim. Nema hvað að ég horfi þarna út um gluggann og sé risastóran hvítan ísbjörn og dökkbrúnan skógarbjörn í götunni minni. Skógarbjörninn tekur á rás í átt þar sem við vorum. Ég hleyp inn í herbergi með barnið mitt og heyri að björninn er mjög nálægt og hann var greinilega að ganga á pallinum í kringum húsið (þetta hús minnti frekar á sumarbústað en hús). Eftir stuttan tíma þá veltir björninn húsinu um koll. Enginn slasast og björninn fer aftur í götuna mína þar sem ísbjörninn beið hans. Ég er yfir mig hrifin af fegurð dýranna og er að ræða við vinkonu mína hversu fallegir birnirnir voru. Allt í einu sé ég að það er opin svalahurðin heima hjá mér og brotin gluggi. Ég fer að ræða við manninn minn og vinkonu að greinilegt væri að birnirnir hefðu komist inn í húsið mitt. Við leggjum af stað heim (þetta var húsið mitt og gatan mín í raunveruleikanum) og þá er allt í rúst inni. Ég sest bara niður og grenja úr mér augun en þá sé ég að það var ekkert skemmt. Það var einhvernvegin bara búið að henda öllu til og frá. Nágranni minn kemur og segist hafa séð mann sem heitir Garðar inni hjá mér að rústa. Hún hefði þekkt hann þar sem hann var ber að ofan með stórt gult tattú á bakinu. Svo vaknaði ég. Tek það samt fram að ég var óskaplega hrifin af fegurð bjarnanna og var ekki hrædd við þá. Þegar skógarbjörninn velti húsinu þá fannst mér hann ekki hafa verið að gera það til að ná til mín heldur bara frekar rekist í það. Kæru draumráðendur vonandi getið þið eitthvað ráðið í þetta fyrir mig. Fyrirfram þakkir.
Draumráðning:
Sæl Heiða. Ég skal reyna að ráða í drauminn þinn, þó svo ég verði að viðurkenna að ég sé ekki alveg viss því ákveðnar andstæður birtast í draumnum og þá sérstaklega þar sem birnirnir ólíku birtast saman, ísbjörninn og skógarbjörninn. Ísbjörninn hefur gjarnan verið talinn fyrirboði þess að einhver mikilsmetinn heimsæki eða komi inní líf dreymandans meðan skógarbjörninn er frekar að vísa til þess að dreymandinn eigi eða þurfi að takast á við einhvern óvildarmann. Hér skiptir þó tilfinning þín í draumnum fyrir dýrunum miklu máli og veit það á gott að þú óttast ekki dýrin eða færð þá tilfinningu að þau ætli að gera þér mein. Mér finnst flest benda til að þessi draumur þinn snúist um þína tilveru, sjálfsmynd þína og samskipti við þína nánustu. Hús í draumum eru oftast að lýsa dreymandanum sjálfum, líðan og viðfangsefnum. Ókunnuga húsið bendir til nýrra verkefna/viðfangsefna sem þú munt takast á við en eitthvað mun þar koma uppá sem verður til þess að plön þín fara á annan veg en þú ætlaðir í upphafi. Mér er það ljóst að þar koma upp einhverjar óvæntar hindranir. Maðurinn Gestur í draumnum er staðfesting þess. Á hinn bóginn fer allt vel þó þér finnist líf þitt allt í molum þegar þú lendir í þessu (allt í óreiðu á þínu heimili, en þó óskemmt þegar betur er að gáð). Hvað þetta er sem þú munt ganga í gengum sé ég ekki, en mér er þó ljóst að það mun reyna talsvert á þig meðan það gengur yfir, en eftir stendur að allt fer vel þegar yfir líkur. Til að það sé á hreinu þá skynja ég engar hættur hér hvorki gagnvart þér eða fólkinu þínu, miklu fremur viðfangsefni sem taka ofurlítið á meðan þú ert að meðtaka að ekki er allt gull sem glóir.
Vona að ég komi þér eitthvað á sporið með þessu, sem ég vil frekar kalla vangaveltur og leiðsögn en ákveðna ráðningu á draumnum þínum. Ég trúi því líka að þú munir ná að lesa betur í drauminn þinn sjálf þegar þú hefur lesið þetta og áttir þig þegar hlutirnir fara að birtast þér, hverjir svo sem þeir eru nákvæmlega. Vertu þá á varðbergi gagnvart þeim sem birtast nýir og ætla að gleypa þig í einum bita ef svo má að orði komast. Taktu líka vel eftir draumunum þínum áfram því undirvitundin er klók og heldur áfram að senda boð og þá oft með hreinni svör við ákveðnum spurningum sem þú ert með í huga sjálf. Ef þú leggur þig eftir því þá geturðu beðið um svör gegnum draumana þína.
Bestu kveðjur og endilega sendu mér skammir ef þér finnst þetta ekki passa við þínar tilfinningar fyrir draumnum :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2008 | 23:14
Barnsfæðing og naflastrengur í draumi
Þessi draumur barst frá: xena, lau. 16. feb. 2008
Reyndi að skrifa í dag en tókst greinilega ekki.. allavega mig dreymdi fyrir nokkru að ég fæddi stúlkubarn í eldhúsinu hjá vinkonu minni. Svo labbaði ég bara af stað heim með barnið í fanginu. Þegar heim var komið fattaði ég að naflastrengurinn og legkakan var ennþá inní mér (afsakið lýsingarnar). Ég lagðist uppí rúm og naflastrengurinn ''rann úr mér''... langar að vita hvað þér finnst um þennan draum. Kannski ég ætti að segja þér að ég er nýbúin í glasafrjóvgun en dreymdi þennan draum ca mánuð eða svo fyrir uppsetningu. Með fyrirfram þökk.
Draumráðning:
Kæra Xena, takk fyrir að senda mér drauminn þinn. Þessi draumur þinn er ekki endilega að boða þér stór tíðindi, heldur er hann líklega tengdur þrá þinni í vöku eftir að eignast þitt barn. Það að þig dreymir barnsfæðinguna er þó ekki endilega tengt því að þú sért að reyna að verða þunguð, heldur getur fæðingin boðað að þú óskir breytinga á eigin lífi og naflastrengurinn getur táknað að þú viljir tengjast einhverjum sterkum böndum eða þér finnist þú of háð einhverjum. Það að naflastrengurinn rofnar getur táknað að þú losnir undan ráðríki einhvers eða sambandið taki nýja stefnu. Fæðingin sem gengur vel er líka boði þess að þér takist ætlunarverk þitt.
Vona að þetta komi þér eitthvað á sporið með að skilja drauminn þinn.
Óska þér alls hins besta og vona bara að ætlunarverkið sé þungunin :) en svarið við því muntu finna innra mér þér ef þú slakar á eða hugleiðir um drauminn þinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2008 | 22:54
Hárbrúskar á fótum í draumi
Þessi draumur barst frá: Ragnhildur Jónsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 16. feb. 2008
Sæl og blessuð. Mig dreymdi draum fyrir nokkru, draum sem ég er alltaf að hugsa um. Hann er svona: Í draumnum spyr sonur minn afhverju ég sé með svona mikið af hárum og hann lítur á fæturna á mér. Mér er þá litið niður og sé að ég er með hárbrúska á báðum ristum. Hárbrúskarnir voru skorlitaði eins og minn hárlitur er og virtist ég ekkert ósátt við þetta en samt mjög hissa yfir þessu. Kær kveðja Ragnhildur Jónsdóttir
Draumráðning:
Sæl Ragnhildur. Ég er ekki alveg viss um þennan draum þinn, en tel þó að hann geti verið vísbending til þín um að taka nú til hendinni við eitthvað sem þú hefur ætlað þér. Get því miður ekki sagt þér meir.
Bestu kveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2008 | 22:29
Gullfoss í draumi
Þessi draumur barst frá: Birna Ósk (Óskráður, IP-tala skráð), lau. 16. feb. 2008
Mig dreymdi þennan draum fyrir mörgum árum síðan (er að verða 18 núna, þannig að ég var kannski svona 11?) og hann situr alltaf fastur í mér. Það væri gaman að fá einhverja ráðningu.
Ég er að labba upp stiga í blokk. Á leiðinni sé ég að það eru gullslettur á gólfinu, fólk liggur dáið á stigaganginum vegna þess að það hefur snert sletturnar. Ég stíg bara yfir fólkið og held áfram að labba upp stigann og passa mig að koma ekki við sletturnar. Þegar ég er komin efst upp opna ég hurð og lít þar niður. Það er stór gullfoss (hann er ekki niðri heldur einhvernvegin við hliðina á mér og dettur niður) og í kringum hann fljúga fullt af englum. Allt í einu verð ég ekkert svo hrædd við að koma við sletturnar lengur og læt mig detta niður. Ég lendi í sundlaug og man ekki meir. Vona að þú getir eitthvað ráðið hann ;) Með fyrirfram þökk
Draumráðning:
Sæl Birna Ósk og takk fyrir að senda mér þennan áhugaverða draum þinn. Þessi draumur er afar táknrænn og er að birta þér lífsgöngu þína, viðhorf þín og metnað til að ná langt, eða ná einhverju marki sem þú einsetur þér. Stiginn boðar metnað þinn og gangan upp hann er þannig að þú lætur ekki glepjast á leið þinni að markinu. Þú nærð því sem þú ætlar þér. Gullið á leið þinni upp stigann er líka aðvörun til þín um að fara varlega í viðskiptum, en þegar þú hefur náð marki þínu með ákveðni og þrautseigju muntu uppskera "gullfossinn". Englarnir í draumnum þínum eru líka afar gott draumtákn og segja mér að þú njótir verndar á vegferð þinni. Boðskapur draumsins er því að fara varlega og missa aldrei sjónar á takmarki þínu.
Vona að þetta komi þér að gagni
Bestu kveðjur og óska þér alls hins besta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2008 | 22:38
Hrogn úr fingri
Þessi draumur barst frá: Sigríður D. Sverrisdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 12. feb. 2008
Ágæti draumaráðandi. Mig dreymdi fyrir nokkrum dögum að ég skæri mig í fingur (þumalfingur) án þess að það kæmi blóð. Það sem kom úr fingrinum voru ljósrauð hrogn. Þegar ég skar mig stakk ég ósjálfrátt fingrinum upp í mig (að mér fannst) og við það gleypti ég smá part af fingrinum og slatta af hrognum. Það var töluvert magn af hrognum sem komu út úr fingrinum. Lengri var draumurinn ekki. Ég var stödd í eldhúsinu heima hjá mér að undirbúa matinn. Ég er gift og tveggja barna móðir. En þau eru uppkomin. Kveðja af landsbyggðinni.
Draumráðning:
Sæl Sigríður. Það að þú skerð þig í fingurinn getur verið fyrirboði einhverra erfiðleika eða sem mér finnst líklegra; ótti þinn við að mistakast við eitthvert mikilvægt verkefni. Ótti þinn er hins vegar með öllu óþarfur því tækifæri og vöxtur er svarið sem draumurinn er að boða þér.
Bestu kveðjur :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2008 | 22:14
Skítalykt, sumar og fuglar í draumi
Þessi draumur barst frá: Egill Örn (Óskráður, IP-tala skráð), þri. 5. feb. 2008
Það er þriðjudagur í dag, þegar ég vaknaði í morgun tjáði ég móðir minni að mig hefði dreymt einhvern rosa draum um nóttina og jú, ég hafði gleymt honum nánast samstundis og ég vaknaði. Var svo skrítið, mig hefur dreymt fyrir hlutum og við ræddum það áðan að skrítið væri að ég gleymi draumunum. En svo lagði ég mig um miðjan dag í 1 klukkustund og dreymdi eftirfarandi (og man hann vel):
Mig dreymdi að ég væri staddur í einhverskonar fjölskylduboði uppí sveit, skynjaði einhvernvegin þingvallaumhverfið. Hraun, fallegur gróður, hólar og hæðir ásamt vatni fjær í burtu. Líklega var þetta í sumarbústað. Ég man ekki alveg af hverju þessi veisla var en þarna var slatti af fólki, sumt þekkti ég ekki einu sinni. En svo man ég að hópur af fólki beið í röð að komast á klósettið. Ég þurfti svona rosalega að fara tefla við páfann, en tja það var svo mikil röð að ég ákvað að fara út og dreifa huganum. En áður en eg fór út kom bremsufar í nærbuxurnar og ekki góð lykt. En svo fór ég út, horfði á náttúruna og var svo litið á 2 skógarþresti að togast á e-u, hvort það hafi verið ormur, undir sumarbústaðnum. En ég man eftir einhverjum dýrum í kringum mig en svo kom þessi risastóri hrafn og tyllti sér hægra megin við mig. Mér var brugðið í fyrstu en ég var sallarólegur, líkt og hrafninn. Ég færði mig nær honum og rétti fram höndina. Hann stóð svo bara rólegur á hendinni minni. Og við fórum víst að spjalla heilan helling í góða veðrinu. Hann talaði um að það væri mikið af fallegum fuglum í kringum mig. Við spjölluðum um margt annað sem ég næ ekki alveg að grafa upp hvað var núna. En yfir okkur flugu nokkrum sinnum fugla-hópar. Fallegir, ýmist hvítir eða annarskonar á litinn. Við sitjum þarna á hraunbingju fyrir framan sumarbústaðinn og spjöllum, og áður en ég veit af hafa ættingjar mínir áttað sig á því að ég sæti úti með hrafn. Þau koma að glugganum og benda, horfa og eru gáttuð. Ég kynni hrafninn fyrir fólkinu sem stendur hinum meginn við glerið. Þ.á.m kynni ég hann fyrir tveim yngstu bræðrum mínum. Ég man lítið annað í bili nema það að tilfinningin sem ég upplifði í draumnum var góð, mér leið vel útí sólinni að spjalla við hrafninn. Væri æðislegt ef þú gætir ráðið e-ð í drauminn. fyrirframþökk og kær kveðja, Egill
Draumráðning:
Sæll Egill og bestu þakkir fyrir að senda mér þennan draum. Ég hef tekið mér svolítinn tíma til að melta drauminn þinn og vona að það komi ekki að sök. Þar sem ég veit ekkert um þína hagi bið ég þig að taka draumráðningu minni með ákveðnum fyrirvara, en ég kem bara beint að því sem ég skinja í draumnum þínum. Á heildina er draumurinn að boða þér gott og einhver ávinningur eða sigur er augljós. Þar eru "bremsuförin" þín að tala. Það sem ég á erfiðast með að segja þér er að draumurinn er með skír tákn um að einhver óheilindi séu í gangi frá ástvini eða maka. Hvað þar er þori ég ekki að tjá mig hreint um, en hrafninn er þó mjög oft sterkt tákn um svik og þá oftast framhjáhald. Það að þér er bent á alla fallegu fuglana er boð til þín um að þú eigir mikla möguleika og um leið eru þeir á einhvern hátt að endurspegla þrá þína til að ná lengra og er þar fyrst og fremst um andlega hæfileika að ræða. Einnig getur þetta átt við um þrá eftir frelsi. Á hinn bóginn máttu búast við einhverjum fordómum eða gagnrýni í þinn garð (fuglahóparnir sem fljúga yfir).
Vona að ég komi þér á sporið við að ráða drauminn þinn með þessu, en ég bið þig um leið að hrapa ekki að neinum ályktunum án þess að kanna hug þinn vel. Þú munt sjálfur finna hvort þessi skýring mín á við í þínu tilfelli eða ekki. Það sem einnig segir mér að draumurinn þinn viti á gott er líðan þín í draumnum, þannig að ég er viss um að útkoman verður þér góð þegar allt kemur til alls.
Bestu kveðjur og endilega leifðu mér að heyra frá þér aftur þegar þú hefur lesið þetta :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 22:44
Rosalega óþægilegur draumur
Þessi draumur barst frá: Hrund Jakobsdóttir (Óskráður, IP-tala skráð), fös. 8. feb. 2008
Mig dreymdi síðustu nótt að ég væri að missa tennurnar. Hvað sem ég gerði þá losnaði alltaf ein og ein, pabbi minn var hjá mér og hann segir að ég verði að hætta að reykja og borða hollan mat (ég reyki, en það sem ég borða er aðallega organic matur). Ég er á mörgum stöðum í gegnum drauminn og alltaf halda þær áfram að detta og losna þannig að ég gat bara rétt tekið í þær og þá eru þær farnar. En um lokin á draumnum þá er ég komin erlendis (bý reyndar á Englandi) með eiginlega engar tennur eftir. þetta var á heitum stað með strönd ég er að labba einhverstaðar á þröngum gangi, er alveg eins og ég sé inni en samt eins og úti. En þar mæti ég Pony (smáhest). Vonandi geturðu sagt mér eitthvað um þennan draum. KV Hrund
Draumráðning:
Sæl Hrund
Áður en ég tek til við að ráða drauminn þinn langar mig að biðja þig að rifja upp hvort hesturinn hafi verið í einhverjum ákveðnum lit í draumnum. Einnig væri gott ef þú manast eitthvað eftir stöðunum sem þú fórst á og hvort þér fannst líða langur tími eða stuttur milli. Þú mátt gjarnan gefa mér upp hvort þú sért ung eða fullorðin og þá hvort þú sért þegar í sambúð og með fjölskyldu eða ekki.
Ég skal svo sjá hvers ég verð áskynja með drauminn.
Bloggar | Breytt 12.2.2008 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 22:21
Hvítt umslag og frænka í draumi
Þessi draumur barst frá: v (Óskráður, IP-tala skráð), mán. 11. feb. 2008
Góðan daginn. Hvað boðar að dreyma að frænka A kemur til frænku B sína og réttir henni umslag hvítt það stóð ekkert utaná því og segir. Nú er komið að þér. Með Kærleikskveðju. Vallý
Draumráðning:
Sæl Vallý og takk fyrir að senda drauminn þinn.
Þessi draumur er að boða góða hluti, en um leið ábending til þín um að nú sé komið að þér að taka við kaleiknum á einhvern hátt. Það er góðs viti að dreyma frænku sína og er fyrir gagnkvæmri hjálpsemi og kærleik milli dreymandans og frændfólksins. Hvíti litur umslagsins er einnig happalitur og er vísbending um að verkefnið eða skilaboðin sem í umslaginu felast viti á gott. Hvað það er nákvæmlega get ég ekki sagt þér út frá þessum upplýsingum, en kannski kviknar ljós hjá þér við að lesa þetta. Þetta kemur til mín eins og þú eigir þegar að vita hver þessi skilaboð séu, en nú sé þitt að sýna frumkvæði og taka af skarið með eitthvað sem tengist þínum nánustu. Eitthvað sem hugsanlega hefur setið á hakanum, eða þú veist að þarf að taka á og klára eða leysa. Útkoman er góð bara ef þú gengur í málin.
Vona að þetta hjálpi þér eitthvað, en lengra kemst ég ekki, að sinni alla vega :)
Bestu kveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)